top of page

Ég er loksins vaknaður eftir svefnlitla nótt. Að vísu vaknaði ég líka fyrr í morgun og kom krökkunum út í lífið – þau eru ekki á listamannalaunum og geta ekki leyft sér að fara aftur í rúmið ef þau sofa illa. Sem ég held reyndar að þau geri blessunarlega aldrei. Ætli það sé þess vegna sem við höldum að börn séu saklaus? Af því þau sofa svo vel. Börn eru ekki saklaus. Nema mín börn auðvitað, mín börn eru saklausa undantekningin sem sannar regluna. Þess vegna sofa þau svona vel.


En ég er sem sagt á listamannalaunum og gæti sofið allan daginn alla daga ef ég kærði mig um. Að vísu myndi ég sennilega ekki fá mikið oftar úthlutað ef ég léti það eftir mér. Og svo hefur það reyndar ekki heldur höfðað til mín, svefnlífið, hvernig sem á því stendur – þótt ég vildi gjarna sofa svolítið betur svona heilt yfir, þá langar mig alls ekki að sofa lengur. Og sennilega myndi ég heldur sleppa því að sofa en að sleppa því að skrifa (sem er það sem ég fæ listamannalaun fyrir að gera).


Ég var spurður að því á helginni hversu vel ég myndi pluma mig án listamannalauna. Ég held ég hafi aldrei náð að svara – það voru fleiri til svars og það kom bara ekki að mér – en svarið er bara alls ekki neitt. Þau eru 90% allra minna tekna og þótt ég sé á fullum launum þá eru þau lág og ég mjaka mér í gegnum lífið með yfirdráttarlánum og hundakúnstum einsog allir aðrir í þessum bransa. Ef ég fengi ekki listamannalaun myndi ég bara þurfa að finna mér aðra vinnu. Og það er ekki vegna þess að ég skrifi ekki af og til vinsælar bækur, því það hef ég sannarlega gert – það er bara horlús sem fæst fyrir það. Mér reiknast til að heildartekjur mínar af Náttúrulögmálunum hafi farið í að mæta verðbólgunni – á svona fimm mánuðum.


Ekki það ég ætli að fara að breyta þessu bloggi í blogg um efnahagsmál. Eða mín persónulegu fjármál. Og ef satt skal segja hef ég meiri áhyggjur af andagift minni en efnahag og ekki bara vegna þess að án andagiftarinnar missi ég áreiðanlega listamannalaunin. Einsog ég hef nefnt hér fyrr er ég búinn að keyra mörgum skáldsögum á vegg í ár – þetta hefur verið hræðilegt ár, mér líður einsog tappinn hafi verið tekinn úr mér og allt hafi lekið út, einsog tómu baðkari í vatnslausu húsi. Eða kannski er ég ekki baðkarið heldur þessi sem liggur á botninum og spriklar.


Blessunarlega á ég ljóðabókina sem er á lokametrunum og kemur út í vor – hún heldur í mér sköpunarlífinu. Það má ekki gera of lítið úr því. Ég er ánægður með hana og ég get eytt dögum mínum í að vinna við hana svo ég þarf ekki bara að bora í nefið – en ég er löngu búinn að skrifa flest ljóðin, svo það er meira ritstjórnarvinna en frumskrif og þeir mótorar eru alveg í lagi, það er ekki að ég geti ekki barið saman setningar eða lagað til myndlíkingar eða séð hvað virkar og hvað virkar ekki, mig vantar bara hugmynd af þeirri stærð að hún haldi saman bók, að hún haldi brennandi báli í ástríðu minni í 100 til 700 blaðsíður, að lágmarki þrjá mánuði og helst ekki meira en sautján ár. Kannski kemur sú hugmynd bara ekki af því ég er ekki búinn að skila af mér ljóðabókinni. Og kannski er það alveg sanngjarnt. En það hjálpar mér ekkert í baráttunni við örvæntinguna.


Þetta eru auðvitað ekki fullkomlega ókunnugar slóðir. Ég hef skrifað vitleysu og hent handritum áður, ég hef örvænt, ég hef setið vikum saman og starað á tóman tölvuskjá með ekkert fyrir stafni annað en að hugsa um hvað ég sé vitlaus og hæfileikasnauður. Og svo myndast glufa í skjánum, færist litur í veröldina, orð í heiminn og saga fæðist. Það gerist. Þetta er ekki ferli sem er hægt að þvinga mikið fram – það er hægt að kreista út úr sér „einhverja bók“ með því að raða upp nógu mörgum orðum en það er ekki hægt að kreista út úr sér bókmenntaverk sem gleður einhvern, sem gæðir veröldina einhverju nýju. Það er hægt að mæta í vinnuna. Það er hægt að lesa bækur. Fara í göngutúra eða út að hlaupa. Það er hægt að leita uppi einhver ævintýri. Það er hægt að tala við fólk. Það er hægt að skrifa „Einu sinni var“ og prófa að máta eitthvað orð aftan við það. „Einu sinni var hestur? Einu sinni var kjallari? Einu sinni var kjánaprik sem vissi bara ekkert hvað hann átti af sér að gera?“ Og á endanum gerist eitthvað. Ég veit það vel – svona fræðilega séð, sögulega séð – en aftur gerir það mér bara ekkert gagn hér og nú.

Dagskráin á Opinni bók var frábær í ár. Helmingur höfunda var heimamenn – Didda, mamma og Gylfi Ólafsson – og helmingur gestir – Offi, Brynja og G. Andri. Ég lét svo bjóða mér í mat með þeim um kvöldið þótt ég hefði aldrei þessu vant ekki átt neina aðkomu að viðburðinum, hvorki sem höfundur eða meðhjálpari. Ég mætti bara sem sú bókmenntaprinsessa sem ég er.


Það var fjarskalega gaman að hitta kollegana að sunnan – við Offi erum auðvitað aldavinir – og svo er þetta bara svo skemmtilegt fólk. Ég drakk allavega alltof mikið, talaði alltof hátt og alltof mikið og greip sennilega mikið fram í fyrir öðrum og sagði áreiðanlega mjög vafasama hluti með reglulegu millibili – en það var bara vegna þess að mér finnst ég svo skemmtilegur þegar ég er í glasi.


***


Ég hef verið svolítið hugsi yfir afstöðu minni til Karitasar án titils sem ég las á dögunum og fannst að mörgu leyti frábær en samt var alltaf eitthvað að trufla mig og ég held ég hafi sett fingurinn á það: þetta er bók um fólk sem er exepsjónalt og fólk sem er það ekki og skilin þar á milli eru of skörp fyrir mig, ég trúi þeim ekki, veröldin skiptist ekki uppi í fáar hetjur og mikið af streðandi normalfólki. Það tekur reyndar ekki af bókinni að hún er átakamikil og skrifuð af mikilli stílgáfu og innsæi og aðalkarakterarnir eru eftirminnilegir – skáldsagan er ekki minna afrek þótt þessi skekkja sé í samfélagslýsingunni.

250 SEK!!! #stadsmissionen

Hermann teikaði færslu mína um Brautigan með sinni eigin færslu um Brautigan og þá hvarflaði að mér að teika einhvern annan í dag. Ég byrjaði á að líta inn hjá Snæbirni og hann reyndist vera með gestabloggara og þá datt mér í hug að kannski ætti ég líka að fá Jón Kalman til að skrifa færslu hjá mér? Hefur hann nokkuð betra að gera? Svo gæti hann skrifað hjá Hermanni þegar hann er búinn að skrifa hjá mér? Næst datt mér í hug að teika Jón og skrifa bara sjálfur um einhvers konar „heimslið í bókmenntum“ – ekki síst til þess að mótmæla því að markverðir gefi ekki boltann, og líka því að Peter Handke væri ekki í markinu, auðvitað á Peter Handke að vera í markinu, en svo mundi ég að ég hef minna en ekkert vit á knattspyrnu og ákvað að láta vera að hætta mér út á þannig refilstigu. Lommi vitnar bara í Hannes Hólmstein – sem sagði einu sinni við mig á Facebook, í umræðu um listamannalaun, að það ætti einhver að borga mér fyrir að skrifa ekki neitt – og ég vitna ekki í svoleiðis fólk nema tilneyddur. Hlín Agnarsdóttir skrifar um að hún hafi farið í 70 dollara kjól í boð í Rikssalen í slottet í Stokkhólmi – ætti ég að skrifa um það þegar ég fór í 250 SEK jakkafötum úr Stadsmissionen í Gyllene Salen í Stadshuset? Var ég kannski búinn að því einhvern tíma? Arngrímur skrifar um báðar hárgreiðslur Andy Garcia – ég gæti komið Andy til varnar, hann er með mikið duende og fyrirtaks leikari, en á þessu hef ég samt ekki mjög sterkar skoðanir. Ármann skrifar um eitthvað Tolkien-innblásið sjónvarpsefni sem ég hef enn minna vit á en knattspyrnu. Björn Halldórsson hefur ekkert skrifað síðan hann skrifaði að hann hefði sótt um listamannalaun og Brynjar ekkert síðan hann skrifaði að hann hefði ekki tíma til að skrifa fyrir föðurhlutverkinu. Haukur Már skrifaði síðast um Joe Rogan, Elon Musk og Donald Trump (sem er einmitt það sem ég er að reyna að hætta). Lóa Björk plöggaði nýju sýningunni sinni, Þorvaldur plöggaði bókum eftir vini sína, Þorsteinn skrifaði um Megas, Berglind um Uppvöxt Litla trés og Þórdís sagðist ekki hafa lesið Han Kang. Ég hef lesið Han Kang og er búinn að blogga um það, ég er frekar nýlega búinn að blogga um Megas, ég er búinn að plögga sýningunni minni (Tom Waits tónleikar í Edinborg laugardaginn 23. nóvember!) og líka búinn að plögga bókum vina minna (og kunningja meira að segja líka). Já og ég hef skrifað um Uppvöxt Litla-trés.


Þessi tilraun sem sagt mistókst. Bloggi dagsins er hér með aflýst.



Anchor 1
natturulogmalin.jpg
Illska-scaled.jpg
BruinyfirTangagotuna_72pt.jpg
frankensleikir.jpeg
Einlægur Önd.png
Oratorek_72pt.jpg
Plokkfiskbokin1.jpg
thjonn-thad-er-fonix-i-oskubakkanum-minum.jpg
hnefi löng.jpg
HansBlaer_72.jpg
BLANDARABRANDARAR.jpg
bottom of page