Tvisvar nýlega hef ég séð bók gagnrýnda með þeim orðum að þetta sé tilvalin bók fyrir fólk sem les lítið, les ekki nóg, finnst bækur kannski ekki skemmtilegar en ætti að finnast þær skemmtilegar, ætti að lesa meira – eitthvað í þá áttina.
Látum vera þessar tilteknu bækur – eða aðrar sem hafa fengið sama stimpil – ég veit ekkert hvort þær eiga stimpilinn skilið eða hvað þær gera sem gerir þær svona góðar fyrir fólk sem les ekki „nóg“ eða einu sinni hvað er „nóg“ eða hvers vegna einhver sem langar ekki að lesa bækur ætti að lesa bækur (til að vera ekki vitlaus, gæti einhver svarað, en á móti myndi ég tefla: hvað ef fólk vill vera vitlaust? á að smána fólk fyrir fávisku og ólæsi ef það er val, jafnvel fagurfræði, trú, heimspeki, lífsstefna?)
En konseptið – á maður að kalla þetta léttlestrarbækur fyrir fullorðna, er það ekki pælingin? Ég veit ekki hvað mér finnst um þetta. Þetta er í öllu falli sorglegt. Hugsanlega patróníserandi gagnvart bæði höfundi og lesanda („ertu of vitlaus til að lesa venjulegar bækur? prófaðu þessa!“). Hljómar dálítið einsog örvæntingarfull líkræða – svona einsog ræðumaðurinn sé enn á afneitunarskeiði sorgarinnar.
Einhvern tíma í upphafi aldarinnar skrifaði Kristján B. skemmtilega grein í TMM (sem ég svaraði með hortugheitum) þar sem hann benti á að nær öll umræða um „ljóðið“ væri umræða um dauða þess – með öfugum formerkjum, sannarlega, að ljóðið væri nú „hvergi nærri dautt“ og eitthvað þannig, en samt um dauðann, ljóðið og dauði ljóðsins fóru ævinlega saman. Þetta slær mig á svipaðan hátt. Og þetta slær mig líka einsog þegar Mogginn fór að fjölga Hollywood-og-poppmenningarsíðunum á kostnað annarrar menningar – og ég hugsaði: þennan slag vinnur mogginn ekki, mogginn verður aldrei nógu mikið DV til að vinna DV í keppninni um það hver sé mest DV. Nú er öll fjölmiðlun – á góðum degi – einsog poppsíðurnar í DV 1996.
Ég held að fólk sem finnst venjuleg skáldsaga of erfið aflestrar muni alltaf velja heldur að horfa á Netflix. Af því Netflix er betra í afþreyingu. Skáldsaga verður aldrei auðlesnari en syfjugláp og hámhorf, sama hvað hún reynir. Ég er ekkert að dissa Netflix með því – ég horfi mikið á Netflix. En kostir skáldsögunnar eru dýpið sem hún getur sótt á og á það dýpi kemst maður ekki nema maður syndi með – lesandi er þátttakandi í skáldsögu, hjálpar henni að verða til, hann þarf að anda fyrir sögupersónurnar, hreyfa hendurnar, sprikla. Áhorfandi er passífari – a.m.k. rétt á meðan áhorfinu stendur – hann er ekki krafinn um neina vinnu, sjónvarpið spriklar fyrir hann. Þess vegna er sjónvarpsgláp svona ágæt afslöppun.
Og þá stendur eftir spurningin hvort að léttlestrarbækur fyrir fullorðna geri eitthvað fyrir lesendur sína sem sjónvarpið gerir ekki – annað en að halda að þeim ritmáli, texta. Verður maður læsari af því að lesa einfaldari texta? Sem aftur rifjar upp allar þessar hugmyndir um „að lesa sér til gagns“ og hvað það þýði. Í morgun las ég grein þar sem fram kom að háskólanemar í Svíþjóð geta ekki lengur lesið fræðirit og kennararnir eru farnir að þýða fræðiritin yfir á almennara mál, því annars skilur enginn neitt. Í síðustu viku sá ég álíka frétt frá Ameríku sem snerist um kúrslitteratúr almennt – líka í enskudeildum þar sem nemendur einfaldlega megnuðu ekki að lesa heilt skáldverk á viku, sem áður var norm. Kanarnir gætu einfaldað skáldverkin. Það eru til styttar léttlestrarútgáfur af næstum því öllum klassíkerum heimsbókmenntanna. Það er hægt að skipta út William Carlos Williams fyrir Rupi Kaur. Ef þeim tækist með því að klára fleiri bækur – væru þeir þá læsari?
Enski rithöfundurinn Will Self sagði í einhverjum fyrirlestri að skáldsagan hefði fallið af stalli sínum þegar fólk hætti almennt að ljúga því opinberlega að það hefði lesið klassíkina – eða í versta falli að það ætlaði að gera það seinna. Þegar fólk „skilaði skömminni yfir“ að vera ekki með á nótunum í gömlum og nýjum bókmenntum. Og það varð fínt – og „relatable“ – að vera ólesinn og a.m.k. semí-stoltur af því, og í öllu falli ekkert verra eða hallærislegra en að vera einhvers konar mennta/listasnobb. Sem hann sagði minnir mig að hefði gerst á tíunda áratugnum. Self tók reyndar skýrt fram að sér þætti af og frá að skáldsagan væri „dauð“ – hann hefði lesið feykilega margar frábærar nýlegar skáldsögur – en að hún væri bara ekki miðlæg í menningunni lengur.
Mér sýnist annars að bretar lesi að meðaltali 15 bækur á ári, bandaríkjamenn að meðaltali 12 á ári en Íslendingar rétt rúmlega 2. En það kemur auðvitað ekki fram hversu hátt hlutfall þessara bóka eru Skúli skelfir eða hversu hátt er Ulysses.