top of page

Tvisvar nýlega hef ég séð bók gagnrýnda með þeim orðum að þetta sé tilvalin bók fyrir fólk sem les lítið, les ekki nóg, finnst bækur kannski ekki skemmtilegar en ætti að finnast þær skemmtilegar, ætti að lesa meira – eitthvað í þá áttina.


Látum vera þessar tilteknu bækur – eða aðrar sem hafa fengið sama stimpil – ég veit ekkert hvort þær eiga stimpilinn skilið eða hvað þær gera sem gerir þær svona góðar fyrir fólk sem les ekki „nóg“ eða einu sinni hvað er „nóg“ eða hvers vegna einhver sem langar ekki að lesa bækur ætti að lesa bækur (til að vera ekki vitlaus, gæti einhver svarað, en á móti myndi ég tefla: hvað ef fólk vill vera vitlaust? á að smána fólk fyrir fávisku og ólæsi ef það er val, jafnvel fagurfræði, trú, heimspeki, lífsstefna?)


En konseptið – á maður að kalla þetta léttlestrarbækur fyrir fullorðna, er það ekki pælingin? Ég veit ekki hvað mér finnst um þetta. Þetta er í öllu falli sorglegt. Hugsanlega patróníserandi gagnvart bæði höfundi og lesanda („ertu of vitlaus til að lesa venjulegar bækur? prófaðu þessa!“). Hljómar dálítið einsog örvæntingarfull líkræða – svona einsog ræðumaðurinn sé enn á afneitunarskeiði sorgarinnar.


Einhvern tíma í upphafi aldarinnar skrifaði Kristján B. skemmtilega grein í TMM (sem ég svaraði með hortugheitum) þar sem hann benti á að nær öll umræða um „ljóðið“ væri umræða um dauða þess – með öfugum formerkjum, sannarlega, að ljóðið væri nú „hvergi nærri dautt“ og eitthvað þannig, en samt um dauðann, ljóðið og dauði ljóðsins fóru ævinlega saman. Þetta slær mig á svipaðan hátt. Og þetta slær mig líka einsog þegar Mogginn fór að fjölga Hollywood-og-poppmenningarsíðunum á kostnað annarrar menningar – og ég hugsaði: þennan slag vinnur mogginn ekki, mogginn verður aldrei nógu mikið DV til að vinna DV í keppninni um það hver sé mest DV. Nú er öll fjölmiðlun – á góðum degi – einsog poppsíðurnar í DV 1996.


Ég held að fólk sem finnst venjuleg skáldsaga of erfið aflestrar muni alltaf velja heldur að horfa á Netflix. Af því Netflix er betra í afþreyingu. Skáldsaga verður aldrei auðlesnari en syfjugláp og hámhorf, sama hvað hún reynir. Ég er ekkert að dissa Netflix með því – ég horfi mikið á Netflix. En kostir skáldsögunnar eru dýpið sem hún getur sótt á og á það dýpi kemst maður ekki nema maður syndi með – lesandi er þátttakandi í skáldsögu, hjálpar henni að verða til, hann þarf að anda fyrir sögupersónurnar, hreyfa hendurnar, sprikla. Áhorfandi er passífari – a.m.k. rétt á meðan áhorfinu stendur – hann er ekki krafinn um neina vinnu, sjónvarpið spriklar fyrir hann. Þess vegna er sjónvarpsgláp svona ágæt afslöppun.


Og þá stendur eftir spurningin hvort að léttlestrarbækur fyrir fullorðna geri eitthvað fyrir lesendur sína sem sjónvarpið gerir ekki – annað en að halda að þeim ritmáli, texta. Verður maður læsari af því að lesa einfaldari texta? Sem aftur rifjar upp allar þessar hugmyndir um „að lesa sér til gagns“ og hvað það þýði. Í morgun las ég grein þar sem fram kom að háskólanemar í Svíþjóð geta ekki lengur lesið fræðirit og kennararnir eru farnir að þýða fræðiritin yfir á almennara mál, því annars skilur enginn neitt. Í síðustu viku sá ég álíka frétt frá Ameríku sem snerist um kúrslitteratúr almennt – líka í enskudeildum þar sem nemendur einfaldlega megnuðu ekki að lesa heilt skáldverk á viku, sem áður var norm. Kanarnir gætu einfaldað skáldverkin. Það eru til styttar léttlestrarútgáfur af næstum því öllum klassíkerum heimsbókmenntanna. Það er hægt að skipta út William Carlos Williams fyrir Rupi Kaur. Ef þeim tækist með því að klára fleiri bækur – væru þeir þá læsari?


Enski rithöfundurinn Will Self sagði í einhverjum fyrirlestri að skáldsagan hefði fallið af stalli sínum þegar fólk hætti almennt að ljúga því opinberlega að það hefði lesið klassíkina – eða í versta falli að það ætlaði að gera það seinna. Þegar fólk „skilaði skömminni yfir“ að vera ekki með á nótunum í gömlum og nýjum bókmenntum. Og það varð fínt – og „relatable“ – að vera ólesinn og a.m.k. semí-stoltur af því, og í öllu falli ekkert verra eða hallærislegra en að vera einhvers konar mennta/listasnobb. Sem hann sagði minnir mig að hefði gerst á tíunda áratugnum. Self tók reyndar skýrt fram að sér þætti af og frá að skáldsagan væri „dauð“ – hann hefði lesið feykilega margar frábærar nýlegar skáldsögur – en að hún væri bara ekki miðlæg í menningunni lengur.


Mér sýnist annars að bretar lesi að meðaltali 15 bækur á ári, bandaríkjamenn að meðaltali 12 á ári en Íslendingar rétt rúmlega 2. En það kemur auðvitað ekki fram hversu hátt hlutfall þessara bóka eru Skúli skelfir eða hversu hátt er Ulysses.

Það eru kirkjur framan á a.m.k. þremur bóka minna (ég er ekki sjálfur viss með fjórðu, er þetta kirkja?) – og bara á þeim íslensku, ég man ekki eftir neinni kirkju á þýddri bók eftir mig. Ég rak augun á þetta bara í gær, bætti nýlega inn þessum kápumyndum hérna á kantinum og var eitthvað að gægjast á þær. Samt koma kirkjur eiginlega bara við sögu í einni – þeirri nýjustu. Að vísu er Hörpu breytt í risastóra mosku í Gæsku en það er engin moska eða kirkja framan á þeirri bók. Bara fullt af fésum.


***


Ég settist niður með 15 ára syni mínum í gær og hjálpaði honum að taka kosningapróf. Það var vel að merkja hann sem bað mig um þetta, ég var ekki að troða þessu upp á hann, og ég gerði mitt besta til þess að presentera einfaldlega sem flestar hliðar allra mála af hlutleysi – þótt hann þekki mig auðvitað nógu vel til að vita hitt og þetta um skoðanir mínar – og margtuggði það ofan í okkur báða að þetta væru flókin mál, snerust ekki endilega um rétt eða rangt, en samt væri þess í raun krafist að maður segði af eða á. Maður getur t.d. ekki bæði styrkt Úkraínu í varnarstríði sínu við Rússland og ekki styrkt það (þetta fannst okkur báðum vera ein af erfiðustu spurningunum). Og já svona próf eru ótrúlegar einfaldanir en nei það á ekki að svara þeim samt einsog Sigmundur Davíð sem skrifaði langar ritgerðir undir öll sín svör um hvað spurningarnar væru miklar einfaldanir og það væri ekki hægt að svara þessu – það er verið að fiska eftir einföldum prinsippum vegna þess að einföld prinsipp skipta kjósendur máli, ef maður vildi orðhengilshátt myndi maður bara hringja í Sigmund og leyfa honum að láta dæluna ganga.


Við ræddum líka að það væri mikilvægt að maður festist ekki í skoðunum sínum – það tæki langan tíma að mynda sér ígrundaðar skoðanir á einhverju og þótt maður svaraði einhverju á einn veg í svona prófi mætti maður skipta um skoðun daginn eftir. Þetta á vel að merkja ekki jafn vel við þingmenn, sem ber ákveðin siðferðisleg skylda til þess að fylgja þeim hugsjónum sem þeir eru kosnir til að fylgja, og ættu helst ekki að skipta um skoðanir á daglegum basis. En sem kjósandi og hugsandi mannvera vill maður vera dálítið fluid – ég sé enga ástæðu til að kenna drengnum „flokkshollustu“ þótt sumum finnist eiginlega engin pólitísk dyggð vera æðri. Það er ekki galli á lýðræðinu að fylgið skuli vera á meira flakki en áður, heldur kostur – hollustu verður maður að vinna sér inn.


Við rákum okkur líka á að í raun var lítið af spurningum um sumt – það var t.d. ekkert spurt um menningarmál. Og svo svara frambjóðendur augljóslega ekki endilega alltaf bara því sem þeim finnst sjálfum heldur milda það, svara því sem er líklegt til vinsælda – enda vilja þeir láta kjósa sig. Ef marka má kosningaprófið eru t.d. allir flokkar hlynntir því að hækka lágmarkslaun. Ekki vegna þess að þeir ætli allir að hækka lágmarkslaun heldur vegna þess að fólk á lágmarkslaunum er kjósendur og það vill fá atkvæðin þeirra.


Þegar hann var búinn að svara öllu sátum við heillengi og fórum yfir svör ólíkra frambjóðenda – allra sem við könnuðumst við. Það var líka gott fyrir hann (og mig) að sjá hvað er mikið af fólki í framboði, hvað maður hreinlega þekkir marga frambjóðendur persónulega í svona litlu landi, hvað valdið er nærri manni – hann hefur unnið með einum á Tjöruhúsinu, það býr einn í húsinu á móti okkur, einn hefur kennt honum í grunnskóla, annar er pabbi bekkjarfélaga hans, einn er mamma bekkjarfélaga systur hans og svo framvegis. Og þarna gefst manni líka tækifæri til þess að fá innsýn í aðrar hliðar frambjóðendanna – hvaða tónlist þeir hlusta á og hvaða bækur þeir halda upp á. Við skoðuðum sérstaklega þá sem hann var mest sammála og þá sem hann var minnst sammála – ég man ekki hvað hann hét, sem fékk lægstu prósentuna, en hann hlustaði á fína músík og hafði ágætis smekk á kvikmyndum og bókmenntum. Það er líka lexía í því. Þá var augljóst að sumum flokkum átti hann enga samleið með og öðrum meiri – og svo voru frambjóðendur eins flokks (*hóst* framsóknarflokksins *hóst*) einfaldlega út um allt á rófinu.


Við vorum ábyggilega hátt í þrjá tíma að dunda okkur við þetta og hann var samt – eðlilega – alls ekki viss á eftir hvað hann myndi kjósa ef hann fengi að kjósa núna. Ég skil það, er sjálfur búinn að vera í viðstöðulausu kosningaprófi í 30 ár og veit enn ekki hvað ég á að kjósa.


***


En með þessari yfirferð í gær komst ég allavega að því að frambjóðendur a.m.k. þriggja flokka nefndu bók eftir mig sem sína eftirlætis bók – svo ég, sem er mjög auðskjallaður, er búinn að þrengja hringinn í Samfylkingu, Viðreisn og VG. Nema auðvitað að samkvæmt prófinu er ég mest pólitískt sammála Sósíalistum, VG og Pírötum – en mér finnst fullreynt með VG í bili, formaður Pírata í kjördæminu er vægast sagt lítill aðdáandi minn (þótt ég sé reyndar nokkur aðdáandi hennar, þá er ég samt of hégómagjarn, kannski bara of mikil smásál, til að kjósa hana) og Sósíalistar hafa bara ekki tekið neina afstöðu til bóka minna, enn sem komið er (ég er að vísu ekki búinn að fínkemba þennan lista og það er alveg opið að einhver sósíalisti hafi t.d. nefnt ... segjum bara Blandarabrandara ... sem sína eftirlætisbók). Raunar hef ég það á tilfinningunni – þótt ég hafi ekki tekið það saman – að Sósíalistar og Píratar eigi það sameiginlegt að hafa mest nefnt einhvern amerískan fantasíulitteratúr, sem er heimur sem ég hef litla sem enga innsýn í.


Ætli sé þá ekki bara best að kjósa Framsókn?

Það var pistill um samfélagsmiðilinn Goodreads í Heimildinni um daginn og hversu hvimleitt það væri að þar væru sumar bækur ekki skráðar – t.d. eldri ljóðabækur – og höfundur pistilsins, hún heitir Fríða og er alveg áreiðanlega Þorkelsdóttir, sagðist stundum kinoka sér við að lesa þær, af því það kostaði hana hluta af dópamínkikkinu að geta ekki merkt þær sem lesnar. (Þetta eru áreiðanlega ýkjur enda hefur sama Fríða áður birst í fjölmiðlum sem sérstakur safnari sjaldgæfra ljóðabóka).


Já, já, ég sagði kinoka, það þurfti einhver að gera það. Annars hefði það úrelst. Nú er það aftur í umferð.


Allavega. Nú er ég búinn að lesa Glerþræðina eftir Magnús Sigurðsson – sem er sennilega ástæðan fyrir því að sagnorðið kinoka er svona ofarlega í orðabankanum, Magnús skrifar skemmtilega fornt mál og vitnar mikið í enn fornara mál – og hálfa Innanríkið eftir Braga Ólafsson – sem er sennilega ástæðan fyrir því að ég er alltaf að grípa svona fram í fyrir sjálfum mér, sem ég geri svo sem alveg annars, en kannski ekki alveg jafn mikið og núna – og hvorug þeirra er á Goodreads. Nú halda vinir mínir á Goodreads (sem eru meðal annarra áðurnefnd Fríða sem er áreiðanlega Þorkelsdóttir) að ég hafi hreinlega gefist upp á bókmenntaheiminum, eða í öllu falli þessum miðli, Goodreads, með enga bók skráða „currently reading“ og hafandi ekkert klárað síðan ég lauk við Karitas án titils í síðustu viku.


***


Ég er alveg að hætta að vera þunnur eftir síðustu helgi. Það ætti að hafast fyrir næstu helgi ef ég er duglegur að drekka steinefnadrykki og fæ sæmilegan svefn. Þetta er allt að koma.


Ég týndi brúnu leðurhönskunum mínum á laugardag. Þá keypti ég í Tösku- og hanskabúðinni við Laugaveg fyrir þremur árum daginn eftir að ég týndi mjög svipuðu pari, sem ég hafði sennilega fengið gefins, eftir upplestur á Höfn í Hornafirði. Það kvöld hafði ég líka setið að sumbli með aldavini mínum Ófeigi Sigurðssyni – þá var hann áheyrandi á upplestri hjá mér, einsog ég var áheyrandi að upplestri hjá honum á laugardag (annars mæta höfundar lítið á upplestra annarra nema það séu útgáfuhóf og það sé áfengi í boði eða þeir eigi sjálfir að koma fram eða þeir séu hreinlega í ástarsambandi með viðkomandi höfundum, sem er reyndar furðu algengt) – og við ekkert hist í millitíðinni.


Ég ætla ekki einu sinni að segja að ég hafi reynt að leggja saman tvo og tvo, enda hef ég aldrei vitað minn aldavin uppvísan að öðru en fullkomnum heiðarleika, þótt hann sé svolítið stríðinn, ég hef heldur ekki verið í neinu ástandi þessa daga til þess að leggja saman tvo og tvo – kannski helst ég hafi ímyndað mér í þynnkurofunum að einhver, alls ekki Ófeigur, væri að safna brúnum leðurhönskum af mér og ætlaði svo að skila þeim öllum í einu þegar safnið væri orðið hæfilega stórt til þess að húmorinn í því væri öllum ljós – og þótt ég hafi aldrei fundið hanskana sem ég týndi á Höfn þrátt fyrir að hafa snúið aftur á veitingastaðinn þar sem þeir týndust þá fann ég parið sem ég týndi á laugardag strax og ég spurði eftir þeim. Þeir voru bara á barnum. Málið telst að fullu leyst.


***


Næst á dagskrá er svo Svört messa. Því fylgir líka dálítil saga (þessi anekdótustemning hans Braga er mjög smitandi).


Ég vaknaði einn laugardagsmorgun í sumar – það var síðasta skipti sem ég var svona þunnur, eftir brúðkaup vinar míns, ég hef verið venju fremur meðvitaður um heilsuna alveg síðan – með fjögur missed calls frá ónefndum kollega mínum, frægum manni sem ég hafði ekki heyrt frá síðan við settumst niður til að semja um frið á Næsta bar klukkan svona fimm að nóttu fyrir áreiðanlega 20 árum. Þá höfðum við maðurinn ekki hist nema einu sinni eða tvisvar – og varla hægt að segja að við höfum hist, ég hafði verið viðstaddur einhverja upplestra hans, að vísu mjög einbeittur enda einlægur aðdáandi, en hann hafði verið eitthvað ósáttur við eitthvað sem ég hafði skrifað um íslenska ljóðlist (sem ég þreyttist ekki á að níða á þessum árum, sem var áreiðanlega mjög þreytandi fyrir aðra). Hvað um það. Ég er einsog ég hef áreiðanlega nefnt ægilegur símaslóði og hringdi aldrei til baka, ætlaði alltaf að skrifa honum, gerði það ekki, en fyrir fáeinum vikum hringdi hann aftur. Og þá bara svaraði ég.


Erindið var upphaflega ekki að segja mér að lesa Svarta messu en á endanum var það samt það sem einhvern veginn varð aðalatriðið og mig er farið að gruna að það hafi alltaf staðið til. Að hann hafi hringt til þess að fá mig til þess að lesa Svarta messu, fyrst ég reyndist ekki hafa gert það áður. Ég er allavega búinn að lofa að lesa Svarta messu og gefa skýrslu. Ég veit ekki hvort kolleganum finnst bókin sjálfum góð og ætlar að sjá hvort ég hafi ekki áreiðanlega líka smekk fyrir henni – eða hvort honum finnst hún léleg og vill fá staðfest að það sé rétt hjá sér. Nema hann búist við því að ég hafi öndverða skoðun á henni en hann og hann vilji grípa mig við einhverja smekkleysu (þetta er ekki vísbendingaleikur, kolleginn tengist Smekkleysu ekki neitt, nema bara einsog allar íslenskar bókmenntir – eða allar bókmenntir heimsins – hanga í sama streng). Það gæti líka verið – kannski er það sennilegast, nú þegar ég hugsa út í það – að hann vilji bara vita eitthvað allt annað en hvort mér finnst hún góð eða léleg, eitthvað loðnara, fagurfræðilegra, heimspekilegra en þumal upp eða þumal niður og það gæti verið að Goodreads sé strax farið að takmarka skilning minn á bókmenntaverkum við fimm stjörnu skalann.


Svört messa eftir Jóhannes Helga er ekki heldur á Goodreads.

Anchor 1
natturulogmalin.jpg
Illska-scaled.jpg
BruinyfirTangagotuna_72pt.jpg
frankensleikir.jpeg
Einlægur Önd.png
Oratorek_72pt.jpg
Plokkfiskbokin1.jpg
thjonn-thad-er-fonix-i-oskubakkanum-minum.jpg
hnefi löng.jpg
HansBlaer_72.jpg
BLANDARABRANDARAR.jpg
bottom of page