top of page

Menningardagbókin, 23. janúar




Ég lauk við Stríð og frið um daginn. Hún var alltílagi. Soldið mikið Dallas kannski. Einsog reyndar fyrsta bindið í Dalalífi sem ég lauk við um svipað leyti (ég hlustaði á hana á 150% hraða í ræktinni – fólki virðist finnast það eitthvað fyndið). En Tolstoj er samt enginn Dostojevskí.


Hitt húsið eftir Rachel Cusk var meira minn tebolli. Og hinumegin á rófinu – alveg ofan í sinni sögupersónu á meðan Tolstoj (og Guðrún frá Lundi) skoða sínar persónur fyrst og fremst sem leiksoppa einhverra örlaga og tilfinningalíf þeirra eru þar með ... kannski ekki órannsökuð, en það er ekki kafað ofan í mótsagnir tilfinninganna og tilfinningarnar sjálfar eru allar innan ramma hins kunnuglega. Einhvern langar eitthvað og fær það kannski ekki og þarf að sætta sig við eitthvað annað (eða í versta falli drekkja sér). Eða fær það og það reynist öðruvísi en það átti að vera. En í sálrænu djúpsjávarbókunum – Dostó er þar með Cusk í flokki – langar fólk eitthvað sem það langar ekki, og langar ekki eitthvað sem það langar samt. Og skiptir engu máli eiginlega hvað það fær, það fer aldrei vel.


***


Hitt húsið (sem heitir Second place á ensku – íslenski titillinn nær því ekki alveg, en sennilega ekkert betra í boði og bókin prýðilega þýdd af Ingunni Ásdísardóttur) fjallar um konu, M, sem býður frægum myndlistarmanni, L, sem hún þekkir bara úr netsamskiptum, að gista í gestahúsinu hjá sér og manni sínum, Tony. Samband þeirra hjóna er á köflum ansi stirt og hann er mikið upptekinn. Ekki síst þess vegna hlakkar M mikið til þess að L komi. Í fyrsta skiptið afboðar hann sig hins vegar á síðustu stundu, eftir að Tony og M hafa eytt talsverðum tíma í að gera gestahúsið tilbúið. Ári síðar boðar hann komu sína aftur og mætir þá með unga og glæsilega ástkonu, Brett, sem fer mjög í taugarnar á M – enda stelur hún ekki bara athyglinni sem hún ætlaði sjálf að fá frá L heldur nær líka sambandi við táningsdóttur M, Justine, og þiggur af henni alls kyns tískuráð sem hún hafði áður hafnað frá móður sinni.


Bókin er vel að merkja öll skrifuð sem bréf til einhvers Jeffers, sem er aldrei útskýrt hver sé – en hún byggir á æviminningum Mabel Dodge Luhan þar sem segir m.a. frá viðburðaríkri heimsókn D.H. Lawrence í listamannaresidensíu hennar. Mabel er þá M og Lawrence L – og Mabel mun hafa skrifað sínar æviminningar til skáldsins Robinsons Jeffers. En ekkert af því skiptir neinu máli og ég hafði ekki hugmynd um það fyrren eftir á.


Sagan sem slík er ekki einu sinni neitt merkileg – það eru senur sem eru stórkostlegar (t.d. þegar tengdasonur M les í tvo tíma úr byrjenda-fantasíu-skáldsögunni sinni og allir bara láta sig hafa það; eða þegar M kemur að L og Brett að mála hlæjandi saman einhvern óskapnað sem hún telur víst að sé hún sjálf), en fyrst og fremst eru gæðin í setningunum, flæðinu, stemningunni.


Ég verð reyndar að viðurkenna líka að einhvern tíma eftir miðja bók varð ég svolítið þreyttur á þessari obsessjón fyrir að greina eigið tilfinningalíf með einhvers konar intelektúal vöðvaafli. En svo held ég að Cusk sé líka í og með að gera grín að því. Það er allavega alveg hægt að hlæja að því þegar maður man að það er ekki allt alvarlegt sem maður les. Sem ég og gerði fyrir rest.


***


Ég er síðan að blaða í bók sem Nadja gaf mér fyrir nokkru síðan og heitir Noir in the North og er greinasafn um norræna krimma, bæði bækur, þætti og kvikmyndir, frá Sjöwall og Wahlöö til Lillyhammer – og raunar eru teknar líka inn bandarískar endurgerðir á norrænum sjónvarpsþáttum og þar er ekki síst áhugavert að sjá hverju er haldið eftir, hvernig maður skapar norræna stemningu í annars bandarískum sjónvarpsþætti. Það er ekki laust við að maður fái það á tilfinninguna að þetta sé mjög mikið paint-by-numbers og kannski er það enginn nema ég sem hneykslast á svoleiðis – eru ekki krimmahöfundar bara frekar opnir með að þetta séu formúlur? Ég held ég hafi samt alltaf talið að það ætti fyrst og fremst við um strúktúrinn en elementin – einsog persónusköpun, stíll, þau þjóðfélagsvandamál sem tekin eru fyrir – væru einstök í hverju tilfelli. En nú sýnist mér að þetta sé nú kannski allt bara voða mikið sama sagan um sama spæjarann að leysa sama málið. Eða svona – ég ýki auðvitað. Ég les ekki nema örfáa reyfara á ári og er því varla neinn sérfræðingur. En formúlan er ansi víðtæk.


Annars er alveg sérstakt rannsóknarefni finnst mér hvaða kröfur eru gerðar til reyfara – af bæði lesendum, forlögum og gagnrýnendum. Án þess að nefna nein nöfn þá hef ég þýtt alþjóðlegar metsölubækur sem voru svo vondar að mig beinlínis verkjaði undan. Bækur sem höfðu komið út í 30 löndum en voru þannig frágengnar frá forlagi að það var einsog það hefði aldrei nokkur maður nennt að lesa þær í gegn fyrir útgáfu (eða fyrir aðra til tuttugustu prentun). Fullar af vitleysum sem ættu að hverfa í fyrsta yfirlestri. Og jújú, auðvitað sleppur alltaf eitthvað í gegn – en stundum er þetta bara á hverri síðu. Og virðist ekki trufla nokkurn mann.


Og já, ég veit vel að það eru líka til léleg fagurbókmenntaverk – og meira að segja nokkur sem fara á alþjóðlegt metsöluflug. En þær halda þó einhvers konar lágmarksstandard. Þær detta aldrei niður á Da Vinci-lykils-levelið af bulli. Þær hafa fengið lágmarks ritstjórn.


Og já, ég veit líka vel að það eru til margir fyrsta klassa reyfarar.


***


Nadja gaf mér The Heart of Saturday Night með Tom Waits í jólagjöf. Hún hefur farið nokkra hringi. Þetta er önnu stúdíóplata Waits – á eftir Closing Time en fyrir Nighthawks at the Diner. Mér finnst allt sem Tom Waits hefur komið nálægt vera skíragull og þýðir ekkert að ræða neitt annað við mig. Ég lærði að meta hann um tvítugt og hlustaði varla á aðra músík fyrren eftir þrítugt. Það eru ansi hressileg mótunarár. Þetta er líka fyrir tónlistarstreymi svo plöturnar bárust mér eftir því sem ég hafði efni á að kaupa. Geisladiskinn – sem ég á líka, Nadja gaf mér plötu – keypti ég á sínum tíma í Tutl í Þórshöfn í Færeyjum. Ég átti heima þar í hálft ár sumarið 2000 og vann í skipasmíðastöðinni og skrifaði og drakk einsog ég væri á bóhemmannalaunum. Ég tengi hana ekki síst við göngutúrana heim úr vinnunni – ég leigði herbergi með Mella vini mínum í Argir og það tók alveg hálftíma að rölta heim.


Ég man hvað ég var ánægður að eiga alveg eins bindi og Waits er með framan á plötunni.


***


Við fjölskyldan horfðum á Space Balls. Aram er að reyna að fá systur sína til að kynnast Star Wars – ég held reyndar að hann telji sjálfan sig vaxinn upp úr því en líti svo á að þetta sé ákveðin kanónuþekking sem maður verði að hafa, ætli maður að teljast gjaldgengur. Þetta er menningarprójekt. En hún er treg og þess vegna var Space Balls skotið inn á milli – Aino hefur séð hana áður og finnst hún frábær. Sem hún er.


Við Nadja og Aram horfðum líka á Snatch í síðustu viku. Hana hafði ég ekki séð síðan hún kom út. Nýmælin – klippingarnar og tempóið – eru ekki jafn mikil nýmæli lengur en hún er samt hröð og skemmtileg. Sennilega yrði sjónarhornið á bæði gyðingana og sígaunana talsvert annað í dag.


Sem minnir mig á að gyðingagrínið í Space Balls – „the druish princess“ með stóra nefið (sem hún lét fjarlægja) – hafði einhvern veginn alveg farið framhjá mér til þessa. Eða kannski tók ég eftir því en finnst það meira áberandi núna. Meira stuðandi. En Mel Brooks er gyðingur og sennilega má fólk gera grín að klisjum um sjálft sig. Það er samt merkilegt hvað maður er orðinn fær í svona lestri – við erum öll með doktorspróf í fordæmandi góðmennsku.


Ég horfði á Un Triomphe til þess að hlusta svolítið á frönsku. Hún byggir á sannsögulegum atburðum um það þegar sænski leikstjórinn Jan Jönsson setti upp Beðið eftir Godot með föngum og þeir flúðu eftir nokkrar sýningar. Ég þekki ekki vel til þess máls og myndin víkur líka mikið frá staðreyndum (hún gerist t.d. í Frakklandi samtímans, frekar en í Svíþjóð á níunda áratugnum). Hún var fremur þunn en alltílagi skemmtun, miðað við það sem er í boði á Netflix á frönsku.


Það gerðist reyndar líka rúmlega áratug síðar að nokkrir fangar sem áttu að taka þátt í leikriti eftir Lars Norén stungu af og frömdu bankarán og drápu svo tvær löggur á flóttanum. En það er sennilega ekki jafn gott efni í gamanmynd. Og þó.


Svo er auðvitað frægt dæmið um Jack Abbott – falsara sem sat inni þegar hann stakk mann til bana en fór síðar að skrifast á við Norman Mailer, sem útvegaði honum útgáfusamning og barðist fyrir því að fá hann lausan úr fangelsi. Sem tókst. Daginn áður en fyrstu ritdómar birtust stakk Jack Abbott annan mann til bana og fór aftur í fangelsi (þar sem hann hengdi sig á endanum).


***


Sjónvarp. Við erum búin að vera að malla í gegnum bandaríska Office. Sem er fínt en fremur átakalaust. „Bara sitcom“. Ansi fyndið á köflum og persónurnar algerlega yndislegar. Í samanburði við breska Office er þetta samt fremur þunnt, ekki síst vegna þess að persónurnar þar voru alls ekki yndislegar. Það er líka svo líkt bandaríkjamönnum að þurfa að gera níu season með ríflega 20 þáttum í hverju seasoni. En þetta er þægilegt svona „slökkva á heilanum á sér“ efni þegar maður kemur heim klukkan ellefu eftir Fiðlaraæfingu og þarf að ná sér aðeins niður. Og svo er nóóóóóóg til af þessu líka.


Svo byrjuðum við á Fargo – ætli þetta sé fimmta season? Ég er hreinlega ekki viss. Og er þetta nordic noir? Veit það einhver? Frumforsendan – að sögusviðið sé þannig úr garði gert að það virðist við fyrstu sýn vera sakleysislegt, og sögupersónurnar allar ein stór, traust fjölskylda, en svo kraumi allt mögulegt undir, bæði félagsleg vandamál, hræðileg leyndarmál úr fortíðinni og alls kyns ofbeldi – er sannarlega til staðar. Jon Hamm á stórleik í þessu.


***


Annars á Fiðlarinn meira og minna hug minn allan.

natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page