Jæja. Nú fer að hægjast á jólabókaflóðinu, fyrir mína parta a.m.k. Það er búið að vera mjög gaman en aðalpartíið er samt eftir. Útgáfuhófið verður haldið á Dokkunni á Ísafirði næsta föstudag. Einlægur Önd verður auðvitað þemað en ég hugsa að ég lesi ekkert upp úr henni – nema ritlistaræfinguna sem ég ætla að láta gesti þreyta. Ég er enn að raða upp tónlistaratriðum en botninn í kvöldið slær sing-a-long hljómsveitin „Bubbi Morthens“, sem leikur bara lög eftir Bubba Morthens – en í henni erum við Rúna Esradóttir, Skúli „Mennski“ Þórðarson og Örn Elías Mugison. Ég er svona næstum ákveðinn í því líka að spila sjálfur jólablúsinn hans Bobs Dylan sem ég tók upp fyrir Blús Mánaðarins síðustu jól (en verð þá að rifja upp – ég man þetta ekki).


Mig vantar enn þrjú stutt tónlistaratriði önnur en það er ekki vegna þess að ég hafi engan að spyrja.


Ég á 65 baðendur og fólki verður boðið að taka eina með sér heim – og þá munu samkvæmt sóttvarnarhámörkum a.m.k. 15 endur ganga af. Ég reikna a.m.k. með því. Núverandi takmarkanir gilda fram á miðvikudag og mér finnst sennilegt að þær haldi sér – ef það verður ekki einhver omíkron sprenging, Þórólfur er með fingurinn á gikknum. Mér finnst a.m.k. mjög ólíklegt að það verði einhverjar rýmkanir – ekki að maður þurfi þær mikið í bókabransanum.


Fyrst og fremst á þetta bara að vera veisla. Ekki auglýsing fyrir bók, ekki plögg, ekki afsökun til að herja á samfélagsmiðla, heldur veisla. En það verður samt bóksali á svæðinu!


Ég sit annars á Reykjavíkurflugvelli. Hér er krökkt af öllum helstu skemmtikröftum landsins – ég gæti best trúað því að á Ísafirði sé löng biðröð af menntaskólanemum á leiðinni í hraðpróf einhvers staðar. Ef þessi vél hrapar verður það svartur dagur fyrir íslenskt grín, íslenskt rapp og íslenskt indí.


Ég sagði við einhvern um daginn að frá því ég eignaðist börn hafi ég varla farið upp í flugvél án þess að verða hræddur um líf mitt. Þetta eru auðvitað ýkjur – ég svitna ekki og þarf ekki róandi og þetta er ekki alveg undantekningalaust – það var svo rólegt að fljúga hingað í fyrradag að ég varð aldrei hið minnsta órólegur. Annars er ég alltaf sannfærður um að sennilega sé vélin að fara að hrapa og tek því bara frekar æðrulaus – þetta hefur komist upp í vana. Hugurinn tekur við og minnir mig á að þetta hafi ég nú líka sagt síðast – það sé hreinlega ekkert að marka mig.Ég er svolítið blúsaður. Það er reyndar á dagskránni að dusta fljótlega rykið af blúsblogginu (sem verður þá bara hér innanum) enda sagt að ekkert lækni blús einsog blús. Aðra hverja nótt sef ég sama og ekkert og þá næstu ligg ég gersamlega rotaður. Það var mikið að gera í síðustu viku og núna er allt pollrólegt. Að vísu er ég að fara suður á morgun í upplestra og svo aftur á Flateyri á laugardag. Í næstu viku þarf ég svo að klára að skipuleggja útgáfuhófið mitt – sem á að binda endi á jólabókaflóðshasarinn fyrir mína parta.


Einsog mér finnst gaman og endurnærandi og inspírerandi að tala um bókmenntir og hitta lesendur og aðra höfunda – sem margir eru góðir vinir mínir, og ég hitti alltof sjaldan – þá setur þessi athyglis- og upphefðarkeppni mig svolítið á hliðina. Ég hef aldrei átt í heilbrigðu sambandi við hégómann í sjálfum mér og veit ekki einu sinni hvernig slíkt samband ætti að líta út.


Ég íhugaði það fyrr í ár að gera bara ekkert í jólabókaflóðinu – best væri að fara bara úr landi og skilja símann eftir. En beilaði á því með þeirri afsökun að forlagið yrði sennilega brjálað ef ég gæfi bara skít í þetta allt saman, en sannleikurinn er sennilega líka sá að ég væri líklegur til að eyða þá bara jólunum í að naga mig í hnúana.


Það sem ég geri yfirleitt til að vinna bug á þessum blús (sem eltir mig alltaf svolítið) er að hlaupa og stunda jóga – og spila blús. Hlaupin og jógað eru úr myndinni út af hnénu (slitið krossband) – ég get farið á þrekhjól, en á í mestu vandræðum með að staulast í ræktina í þessari færð, það er flughált og snjólag yfir – og hef haft undarlega litla eirð í mér til að spila upp á síðkastið.


Á eftir fer ég í fyrstu sjúkraþjálfunina – og við Nadja ætlum að borða tvö í kvöld. Svo ætla ég að reyna að eyða deginum í að lesa bara. Sennilega er það mest þreytan sem er að leika mig svona. Og hnéð.


Jólablús dagsins á þessum fyrsta þriðjudegi í aðventu er með Butterbeans & Susie.


Það er svartur föstudagur – myrkir markaðsdagar – og ég hef ekkert keypt í allan dag ef frá er talin ein kókómjólk og roastbeefsamloka í morgun. En í gær keypti ég mér nýja vettlinga, í staðinn fyrir par sem týndist á Höfn, og í fyrradag pantaði ég tvær bækur á netinu og í hittifyrradag keypti ég nýjan bakpoka, í staðinn fyrir þann sem skemmdist um árið, og daginn þar á undan keypti ég nýjan plötuspilara í staðinn fyrir þann sem var farinn að spila allar plötur alltof hratt. Svo það er ekki einsog ég sé neitt langt á eftir ykkur hinum í neyslukapphlaupinu. Ég geri þetta bara allt saman á mínu eigin tempói.


Annars er allt ágætt að frétta. Ég fór til bæklunarlæknis í morgun og hann vill nú hafa mig undir einhverju eftirliti en líst ágætlega á þetta samt. Ef ég hætti að sýna karatespörk og vera með fíflalæti læknar þetta sig kannski – jafnvel líklega – með aðgát og æfingum. Ég má meira að segja fara í ræktina og svona og ætla að nota tækifærið á eftir.


Það var mjög gaman á Höfn. Auk þeirra sem voru að lesa upp á kvöldinu – Sölvi Björn, Haukur I, Þórunn Jarla og Kristín Ómars – birtust Ófeigur Sigurðsson, kominn alla leið ofan af Öræfum með sinni frú, Kristínu Karolínu, og Arndís Þórarinsdóttir, sem var að kenna ritlist á svæðinu. Þá voru heimamennirnir Soffía Auður og Gímaldin okkur til halds, trausts, skemmtunar og leiðsagnar. Þetta er ekki alveg leiðinlegasta fólkið sem maður umgengst, það verður nú bara að segjast einsog er.


Næst á dagskrá er Opin bók á morgun. Svo fer ég suður á miðvikudag og les upp á Bókasafni Hafnarfjarðar ásamt Sigrúnu Páls og Kamillu Einars á fimmtudag – og eitthvað morgungigg líka hjá Þjóðskrá (en það er nú áreiðanlega harðlokað – allavega fyrir þá sem eru ekki í þjóðskrá).


Svo er komið nýtt og verra afbrigði. Það verður engin uppkosning. En ég er bara heima að drekka kaffi og hlusta á Fleetwood Mac á nýja plötuspilaranum. Í kvöld ætlum við að borða pizzu og fara á Ghostbusters í Ísafjarðarbíó. Það er ekki verri leið en hver önnur til að þreyja þennan hægdrepandi heimsendir.