Það er búið að úthluta listamannalaunum fyrir næsta ár og þess vegna eru allir listamenn landsins hættir að tala um stjórnarmyndun og kosningar í þessu nú vinstriflokkslausa landi. Menningarmálaráðherra – kannski sá besti sem við höfum haft – er líka farin úr embætti. Hún hlustaði á kröfur um að auka hlut nýliða – en þar með rýrðist hlutur „lengra kominna“ og að mér sýnist mest hlutur karla milli þrítugs og fertugs; Dagur, Jónas, Halldór Armand, Björn Halldórs fara allir niður í núll. Ég reikna með því að það verði nýliðaþétt á listanum sem birtist á fimmtudagsmorgun.
Ég fékk 12 mánuði. Verð áfram í vinnunni minni næsta árið. Ég er ekki „þakklátur“ fyrir að hafa ekki verið rekinn og ekki svo auðmjúkur heldur að ég sé ekki löngu farinn að taka þessu sem gefnu. Mér finnst ég alveg þurfa að vinna fyrir laununum mínum en ég er – einsog ég hef nefnt áður – farinn að bera mig meira saman við fólk sem er í vinnu við aðra hluti. Konan mín er menntaskólakennari og hún þarf ekki að búa við það að fá bréf einu sinni á ári um það hvort hún fái að vinna áfram á næsta ári – hvort hún verði færð niður í hálft starf eða bara sett út af sakramentinu (einsog Elísabet Jökuls – ef það segir okkur eitthvað þá segir það okkur að enginn er óhultur). Ég reikna með að það sé hægt að reka hana en það er þá fyrir afglöp í starfi eða álíka.
Hér eyddi ég einhverri einræðu um tekjur höfunda – hef sagt það sama of oft, þetta er hungurlúsabransi þegar maður er á fullum launum og fátæktargildra þegar maður er það ekki. Margir „stærstu höfunda þjóðarinnar“ lifa í þeirri gildru ár eftir ár. Og sumir sem manni finnst eiginlega að ættu bara vera á föstum tekjum – það er óþarfa skrifræði að vera að láta þá sækja um – eru teknir niður, kannski bara vegna formgalla eða veikinda eða einhvers sem ætti alls ekki að spila neina rullu. Ég nefni bara Gyrði, Elísabetu og Einar Kára – sem hafa öll lent í þessu síðustu ár. Það er sóun á hæfileikum þeirra – og mætti svo sem tína fleiri til. Fjórmenningana hér að ofan til dæmis. Til hvers var verið að eyða peningum í að leyfa þeim að skerpa list sína ef það á svo ekki að nýta það til neins annars en að leyfa þeim að finna sér eitthvað annað að gera? Það er ekki góð nýting á almannafé að ala upp höfunda til þess að þeir geti svo bara farið og fokkað sér.
***
Svo er bara spurning hvaða ríkisstjórn við fáum og hvernig fari um menninguna þar? Ég hef svolitlar áhyggjur af því að Inga Sæland sé ekki mikil áhugamanneskja um menningarstyrki og að þær Kristrún og Þorgerður hafi kannski meiri áhuga á True Detective: Night Country menningarpólitík en tilraunaljóðlist.