top of page

Svartsýni og blinda


Í einhverri hóruhúsaheimsókninni upp úr þarsíðustu aldamótum smitaðist James Joyce sennilega af sárasótt*. Sárasóttin braust síðar út sem alls konar kvillar og lagðist einna þyngst á augun í honum – síðustu 2-3 áratugi lífs síns var hann oft nærri blindur og stundum alveg blindur. Honum tókst svo á endanum að drepast mánuði áður en pensilínið var fundið upp – það hefði líklega bjargað honum. Kannski ekki frá dauðanum en allavega frá sárasóttinni.


En sem sagt. Vegna þessara augnkvilla fór hann í ótal uppskurði sem fyrir utan að vera sársaukafullir ollu honum skelfingu enda þurfti hann að vera vakandi meðan augað á honum var skorið upp og í því fiktað. Will Self fullyrðir að þessa megi sjá stað í skrifum hans – ekki bara skelfinguna og sársaukann heldur líka í þeim sansi sem hann hafði fyrir skynfærum sínum, hvernig hljóð fylgi ævinlega mynd (það ískrar þegar stólar færast, maður kemur gangandi og fótatak heyrist), einsog til aðstoðar hinu sjónræna (og taki svo yfir Finnegans Wake, sem er stundum nær því að vera hljóðverk en skáldsaga) og hvernig hann – einsog blindur maður – sé stöðugt vakandi fyrir því hvar allar persónur séu á öllum stundum. Sjáandi fólk geti brugðist við hreyfingum fólks í rými með litlum fyrirvara en blindir þurfi að temja sér skipulagðari og agaðri yfirsýn. Þá kemur blinda oft fyrir sem þema í verkum hans (nægir að nefna blinda píanóstillingarmanninn í Ulysses).


Það gefur að skilja að blindur maður getur átt erfitt með að skrifa. Joyce neitaði líka að vinna með ritara – sagðist þurfa að skrifa orðin sjálfur og sjá þau til þess að þau hefðu merkingu fyrir honum. Á þessu gerði hann aðeins eina undantekningu, sem ég veit um, og þá var það enginn annar en Samuel Beckett sem sat með honum og skrifaði upp hluta af Finnegans Wake beint af vörum skáldsins. Þeir Beckett voru ágætis vinir og var vinskapur þeirra meðal annars sérstakur fyrir þeirra hluta sakir að Joyce kallaði Beckett „Beckett“ en ekki „Mr. Beckett“, en Joyce ávarpaði yfirleitt engan, ekki einu sinni sína nánustu vini, án þess að kalla þá frú/ungfrú/herra hitt eða þetta og leyfði svo gott sem engum að ávarpa sig James og þaðan af síður Jim. Hann hefði aldrei getað kallað Beckett „Samuel“ – og Beckett þótti sjálfum mjög vænt um að hann skildi droppa misterinu.


Nema hvað einhverju sinni sátu þeir Beckett saman við skriftir þegar knúið var dyra. „Kom inn“ sagði Joyce – afgreiddi erindið og svo héldu þeir áfram. Þegar þeir fóru svo yfir verk dagsins um kvöldið stoppaði Joyce við. „Af hverju stendur „kom inn“ hérna?“ spurði hann. „Nú, þú sagðir „kom inn“,“ svaraði Beckett. Joyce hugsaði málið og sagði loks. „Látum það standa.“ Og það er víst þarna enn – og segir eitthvað um vinnuaðferð Joyce, og sennilega verið það sem Virginia Woolf var að lýsa þegar hún sagði Ulysses vera „sjálfhverfa, linnulausa, hráa, sláandi og á endanum ógleðivekjandi“ bók – verk ómenntaðs karlmanns. Því innanum allan agann og allan lesturinn er líka strákslegur leikur og botnlaust kæruleysi sem ofbauð fínlegum skilningarvitum menntaðri yfirstétta – stundum meira en hið líkamlega hispursleysi. Joyce var prinsippmaður sem stóð líka á sama um svo margt – hann gat sturtað orðum og athugasemdum inn í bækur sínar linnulaust (1/3 af Ulysses er viðbætur sem voru skrifaðar INN Í PRÓFÖRKINA, eða réttara sagt prófarkirnar, sem voru orðnar ansi margar fyrir rest) og svo gat hann tafið útgáfu og kostað til morðfé og staðið í margra ára málaferlum vegna þess að einhver bað hann að hnika til orði, sem hann var ekki reiðubúinn að gera, sama fokkins hvað.


Ég var að klára Parísarhluta ævisögunnar og það kemur mér á óvart – og samt ekki – að hann hafi lítið ef nokkuð umgengist Gertrude Stein og hennar hirð. Hennar er varla getið í bókinni nema til þess að segja frá því að hún hafi verið móðguð yfir öllu umstanginu í kringum Ulysses – að hún hafi minnt fólk á að hún væri nú löngu búin að skrifa Three Lives og það væri ósennilegt að betri tilraunaprósi yrði gefin út í bráð. Á þessum árum er Joyce líka oft mikið veikur og sumir lýsa honum sem „einangraðasta“ eða einfaldlega „mest eina“ manninum í heiminum – sem er þó ekki sanngjörn lýsing, enda fór hann mikið út, og átti mest við þau tímabil þegar hann sá ekkert. En Stein hefur áreiðanlega ekki lesið hann heldur – hún las eiginlega ekkert nema sjoppureyfara.


Á þessum tíma, þriðja áratugnum, er líka einsog margir snúi við honum baki. Ulysses verður fyrst mjög mikið hæp og margir sem kölluðu hana drasl þegar hún var að birtast í tímaritum, einsog George Bernard Shaw, skiptu um skoðun um þetta leyti – en að sama skapi eru margir þeirra sem vörðu hana og hömpuðu Joyce og gerðu honum kleyft að lifa og skrifa, fólk einsog Ezra Pound, Harriet Weaver, H.G. Wells, Wyndham Lewis og fleiri – farnir að verða þreyttir á honum og finnast hann krefjast of mikils af lesendum sínum og sé jafnvel á andhúmanískri vegferð, sérstaklega eftir að hlutar af Finnegan's Wake taka að birtast. Hún er ekki bara róttækari og óskiljanlegri heldur en Ulysses – hún er líka skrifuð með annarri aðferð.


En hann er sem sagt ekki í Stein-kreðsunni. Picasso neitaði meira að segja einhverjum forleggjara um að gera portrett af honum (sem má, kannski var hann bara upptekinn). Þeir Hemingway eru að vísu vinir og Hemingway var þriðji innsti koppur í búri Stein (á eftir Alice og Pablo) – ég þarf að rifja upp Veislu í farángrinum, þar kemur áreiðanlega ýmislegt fram um þetta.


Svo er annar jafnvel enn meiri risi í París á þessum tíma – Marcel Proust. Heimamaður! Proust var jafnvel enn einangraðri en Joyce, ekki fastur í líkama sínum heldur í íbúðinni sinni, sem hann yfirgaf helst ekki. En þeir hittust þó einu sinni í veislu til heiðurs Stravinskí og Díaghilev eftir einhverja ballett-frumsýningu. Joyce var stressaður, mætti seint, var illa klæddur og drakk víst mjög mikið. Proust hafði fengið boðskort en hann mætti aldrei þangað sem honum var boðið og enginn átti von á honum þegar hann dúkkaði upp. Þegar mönnum varð ljóst að þeir voru báðir í veislunni, meistararnir, þótt einboðið að kynna þá. Bandaríska ljóðskáldið William Carlos Williams var þarna líka og hafði stuttar samræður þeirra eftir í sjálfsævisögu sinni:

Joyce: Ég fæ höfuðverk daglega. Proust: Mér er svo illt í maganum. Hvað á ég að gera? Þetta er að gera út af við mig. Ég þyrfti helst að fara heim undireins. Joyce: Ég er í sömu stöðu. Ef ég finndi bara einhvern til þess að leiða mig. Proust: Charmé. Æ, maginn á mér!

* Í sjálfu sér er ekki sannað að sárasótt hafi valdið allri hans líkamskröm, eða að hann hafi einu sinni verið með sárasótt, en kenningin þykir ágæt og líkamskrömin sannarlega til staðar.


***


Ég ætlaði að fara að segja að af mér væri allt ágætt að frétta. Segir maður annars nokkurn tíma annað en ágætt að frétta? Satt best að segja er skrykkjótt af mér að frétta og þó ekkert sem er í frásögur færandi. Að svo miklu leyti sem allt er ekki alltaf alltílagi er það skapgerð mín sem veldur frekar en utanaðkomandi aðstæður. Ég hef látið alls konar hluti fara í taugarnar á mér – jafnvel setjast á heilann á mér – til þess eins að uppgötva hálfum sólarhring síðar að þeir voru alls ekkert svo slæmir. Að minnsta kosti ekki jafn slæmir og mér hafði fundist. Eitthvað af því er blús, þegar mér finnst lítið til sjálfs mín koma – og annað svartsýni, ef ekki bara bölsýni, þegar mér finnst líka allt annað, og ekki bara ég, handónýtt. Fyrr í vikunni, kannski bara í fyrradag, fannst mér íbúar heimsins svo illa haldnir af einbeittu, vísvitandi metnaðarleysi þegar kemur að eigin andlega og vitsmunalega þroska, sem er þroski heimsins – að vilja aldrei láta ögra sér, ekki fagurfræðilega, heimspekilega, siðferðislega, vilja bara að allt sé einfalt og og hreint og tært og auðskiljanlegt, allt sé léttmeti og öllum breyskleikum sópað undir teppi – við værum öll að breytast í hálfbjána og vildum greinilega ekkert annað, svo sennilega ættum við bara skilið að farast í heljarlogum loftslagshlýnunar, það væri best, helst sem fyrst, svo fornleifafræðingar næstu tegunda sem byggja jörðina sæju síður hversu vandræðaleg hnignun og svo endalok þessarar siðmenningar voru. Svo rann það af mér. Kannski þegar ég heimsótti Grunnskólann í Bolungarvík í gær og talaði við krakkana um ljóðlist – mér fannst þau að minnsta kosti greindarleg og skemmtileg og þau glöddu mig.


Eftir Bolungarvíkurgiggið fór ég líka niður á Eimskip að sækja pakka sem ég vissi ekkert um og þar reyndist vera komin bókin Experimental Writing: A Writer's Guide and Anthology. Ég gaf þessu fólki leyfi fyrir löngu til að prenta „Naglasúpu I-VI“ úr Blandarabröndurum í enskri þýðingu. Það kitlar auðvitað alltaf hégómann að fá að vera með í antólógíum en þetta var óvenju gott úrval (kannski 30 höfundar, þ.á m. Coetzee, Aase Berg, DBC Pierre, Christian Bök, Cathy Park Hong, Teju Cole og ég!) og þar með enn meira kitlandi. Þetta er reyndar önnur antólógían sem ég fæ bara í þessum mánuði – „Ég er bréfshaus“ birtist líka í spænskri Versopolis antólógíu. Ég sem gleymi því reglulega að ég sé ljóðskáld. Svona léttir sem sagt lundina og dregur jafnvel úr dómhörku minni (sem beinist vel að merkja oft gegn dómhörku annarra, eins undarlegt og það nú er).


Hér hefur líka vorað mjög hratt síðan að Fossavatnsgangan fór fram í gulri viðvörun á helginni. Götur og gangstéttir snjólausar og hverfandi skaflar í görðum. Og á morgun legg ég af stað til Skopelos í Grikklandi til þess að taka þátt í bókmenntahátíð. Í gærkvöldi uppgötvaði ég að á þessari eyju (og einni annarri) var Mamma mia! tekin upp. Ég á að tjá mig eitthvað um norrænar bókmenntir þarna og þarf eiginlega að rifja upp textagerð Abba. Eftir Grikkland fer ég svo nánast beint til Napólí að spóka mig í vellystingarferð með æskuvinum mínum. Og ef það dugar ekki til þess að hrista af mér heimsósómavælið dugar sjálfsagt ekkert. Og allt þetta flugsprang gæti líka orðið til þess að flýta endalokunum, svo þetta er win-win, hvernig sem fer.


***


Síðbúnar leiðréttingar. Um daginn sagði ég The Flaw eftir Samarakis vera einsog blöndu af Kafka, Chandler og Schnitzler. Það er auðvitað af og frá, enda meinti ég ekki Arthur Scnhitzler, höfund Traumnovelle (sem Eyes Wide Shut er byggð á) heldur Arthur KOESTLER, sem skrifaði Darkness at Noon.


Þá horfði ég á aðra uppfærslu af Heddu Gabler – með Ian McKellen í hlutverki prófessorsins – og uppgötvaði, mér til lítillar furðu raunar, að það var þessi Ingrid Bergman mynd sem var glötuð, ekki verkið sem slíkt. Sem er hræðilegt fyrir mig, sem einlægan aðdáanda Ingridar Bergman, en gott fyrir Henrik Ibsen.

natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page