top of page
Segið mér að þessi maður kunni ekki á þvottabretti. Ég mana ykkur!

Alltaf þegar ég sé mynd af honum finnst mér einsog Richard Brautigan hljóti að hafa verið í Crosby, Stills & Nash. Eða í Crosby, Stills, Nash & Young. Sem hefði þá auðvitað verið Crosby, Stills, Nash, Young & Brautigan. Kannski stofna ég einhvern tíma koverlagaband sem gerir bara ráð fyrir því að þannig hafi verið. Ég sé fyrir mér að Brautigan hafi sungið og leikið á þvottabretti – og þrátt fyrir að hann hafi ekki endilega verið lagvissastur í sveitinni eða músíkalskastur, kannski pínu lagvilltur og taktlaus á köflum, þá hafi fylgt honum ákveðið ljóðrænt kæruleysi sem hafi gætt sveitina einhverju alvöru „star quality“ sem hana hafi skort. Svo samdi hann auðvitað stórkostlega texta, við skulum ekki gleyma því.


En hvað er „star quality“ – hvað gerir listamenn að „stjörnum“? Það er fullt af fólki sem er listamenn sem er ekki frægt og það er fullt af frægum listamönnum sem eru ekki stjörnur. Karisma og X-faktor og duende eru orð sem eiga að fanga það sem í grunninn er alltaf eiginleikinn til að gera mann smá ástfanginn – fá mann til að halda með sér, vilja fylgja sér, teygja sig í læktakkann, klappa hástöfum. Stundum þrátt fyrir að maður hafi lítið þess unnið – sé jafnvel meðalmennskan uppmáluð (sem er ekki það sama og að segja að allar stjörnur séu hæfileikalausar; bara að þetta á ekki alltaf, að mínu mati, í beinu sambandi við gæði eða afrek).


Það er ekki fegurð samkvæmt fegurðarstöðlunum, að vera gangandi gullinsnið úr tónuðum vöðvum og lýtalausri húð, það er ekki að syngja alltaf nákvæmlega réttu nóturnar eða skrifa alltaf fullkomnar setningar eða að vera skýrmæltur og beinn í baki. Sumar stjörnur virka meira að segja „minnimáttar“ í einhverjum skilningi – lúðalegar eða klaufalegar eða bara gangandi kaos sem bíður þess eins að fuðra upp.


Sumt fólk gæti ekki póstað veðurspánni án þess að fá þúsund læk. Einu sinni sá ég tvít – mig minnir að það hafi verið frá Neil Gaiman eða Stephen King (báðir miklar stjörnur) – sem hafði augljóslega verið samið með rasskinninni. „FRFARGkjggea8934“ eða álíka. Og ég horfði á lækin hrúgast upp. Augljóslega er sumt af því bottar en ég held að stærri hluti sé fólk sem vill bara alltaf nálgast mikilfengleika stjörnunnar þegar færi gefst. „Oh, hann samdi tvít með rassinum!“ Svona einsog hann hefði verið að flauta þjóðsönginn með sama líffæri. Ég finn það sjálfur að sumt fólk kallar einfaldlega fram í mér miklu meiri „samstöðu“ eða „kærleika“ eða „aðdáun“ eða hvað maður vill kalla það en aðrir, sem þurfa að hafa meira fyrir mínu lófaklappi.


Reyndar má kannski líka ímynda sér – ég gæti viljað kannast við það sjálfur – að aðrar stjörnur veki hjá manni meira óþol en Jón og Gunna. Að maður læki bara alls ekkert sem þau segja af því maður þoli ekki neitt sem þau segja. Fari aldrei í bíó ef þau eru að leika, kaupi aldrei bækurnar þeirra, hlusti ekki á lögin – og í hvert skipti sem þau séu nefnd hnussi maður: OFMETIÐ DRASL. Og það sé þá í öfugum hlutföllum við þá aðdáun sem sama fólk vekur hjá öðrum. ÓSKILJANLEGT gaggar maður. Og þá er „star quality“ hugsanlega bara eiginleikinn til þess að kalla fram tilfinningar – eins konar magnari.


Ég held þetta sé vel að merkja ekki það að við speglum okkur sjálf í stjörnunum – við erum ekki svona góð í að dýrka okkur sjálf – það er meira að við sjáum þær sem eitthvað dásamlegt sem við fáum að eiga hlutdeild í, einsog börnin okkar, eitthvað sem við getum dýrkað án þess að festast í niðurrifi sjálfsmeðvitundarinnar.


En kannski – bara kannski – er þetta vegna þess að stjörnurnar sjálfar eru góðir narsissistar. Að þær skorti sjálfar lykilþætti sjálfsmeðvitundarinnar. Að þær trúi því – innst inni, frekar en á yfirborðinu, af því þetta virkar nú ekki sympatískt ef í það glittir – að þær séu frábærari en aðrir (og stundum jafnvel frábærari en aðrir í sjálfsmeðvitund).


***


Þessu tengt og ótengt – ég er alltaf líka að tala um eigin mikilfengleika, þetta er mitt blogg, hér er ég eina stjarnan – fór ég að hugsa um það í gær að í kúltúrbarnaumræðunni um árið hefðum við aldrei tekið upp hinn endann á þræðinum. Að það er ekki bara að börn frægra listamanna njóti góðs af tengslaneti foreldra sinna – eða fái það tengslanet beint í æð, það haldið þeim undir skírn sem bestu vinir foreldranna og tengist þeim tilfinningaböndum frá unga aldri – heldur að börnin þjóna líka þeim tilgangi að viðhalda mikilfengleika foreldra sinna. Þetta eru kaup kaups. Ég útvega þér útgáfusamning og þú sérð til þess að bækurnar mínar verði endurprentaðar þegar ég er dauður. Ég kynni þig fyrir heimsbókmenntunum frá því þú ert í vöggu og þú mætir í viðtöl til að halda mikilfengleika mínum á lofti eftir minn dag. Sá mikilfengleiki þarf vel að merkja ekki að vera eintóm dásömun – í Svíþjóð er sterk hefð fyrir því að kúltúrbörnin mæti í viðtal til þess að ræða hvað foreldrar þeirra voru hræðilegir uppalendur og manneskjur, en alltaf með þeim undirtóni samt að þau hafi fórnað öllu fyrir listina, hún hafi alltaf verið mikilvægust. Af því það er arfleiðin.


Það sem ég er að reyna að segja er að ég er ekki viss um að ég hafi a) verið nógu duglegur að halda Dostójevskí að börnunum mínum og b) að ég hafi alls ekki vanrækt þau nóg til þess að úr því verði almennilegt opinskátt einkaviðtal þegar fram líða stundir.


En nú veit ég allavega hvaða áramótaheit ég strengi í janúar.

Það er allt á kafi í drullu. Falla aurskriður úr fjöllunum allt í kringum okkur. Áðan rakst ég á vin minn sem var búinn að sitja fastur – í ágætis yfirlæti, held ég – milli tveggja skriða í Ísafjarðardjúpi frá því á mánudag. Í gær féllu a.m.k. tvær skriður á veginn út í Hnífsdal – og Eyrarfjall iðar allt. Það er lokað milli bæja og bæjarhluta á kvöldin. Ég man ekki eftir svona ástandi. Enda er veðrið óvenjulegt. Hlýtt og mikil úrkoma. Á venjulegu ári værum við bara að drukkna í snjó.


Ég reyni að láta sem minnst á því bera að ég hafi eitthvað verið að skrifa um þessa hluti í fyrra – og raunar skrifað hálft fjallið af stað – enda er þetta ekki mér að kenna.


***


Ég hef aldrei tekið það saman en mig grunar að það fari meiri pappír í að prenta út ljóðabókahandrit en skáldsagnahandrit. Ég held að ég prenti skáldsögurnar mínar ekki út í fullri lengd nema tvisvar – kannski þrisvar. Nýju ljóðabókina hef ég ábyggilega prentað 20 sinnum og er hvergi nærri hættur. Það geri ég til að geta krotað í með penna. Sem þýðir ekki að ég editeri ekki í tölvunni líka. Sumt verður bara ljósara á pappír og annað verður ljósara á tölvuskjá. Og raunar er líka hægt að breyta um leturtegund og skipta um ritvinnsluforrit og gera alls konar trix og hundakúnstir til þess að sjá ljóðin upp á nýtt. Kannski er þetta svipað og þegar þeir sem pródúsera músík hlusta á hana í ólíkum hátalarategundum – mixa hana fyrst í fyrsta flokks stúdíóhátölurum, hlusta svo á hana í bílnum, í símahátölurunum, heima í eldhúsi, lélegum heyrnartólum, góðum heyrnartólum, og laga hana til svo að hún „virki“ við allar mögulegar aðstæður.


Að vísu verða ljóðin sennilega mest lesin í þeirri leturtegund sem verður í bókinni. En þetta er samt aðferð til þess að tryggja einhver heilindi. Til að sjá brestina. Svo les maður þau upphátt. Fyrir annað fólk – prófar þau á áheyrendum. Í einrúmi. Tekur þau upp og hlustar á þau. Les þau línu fyrir línu. Les alla bókina hratt – svona rétt tæplega skimar (þetta gerði ég áðan, það er annar taktur, önnur upplifun). Flettir henni fram og aftur og les erindin öll í vitlausri röð – handahófskenndri. Hvernig ganga erindi 12 og erindi 2 saman? En erindi 17 og 8? Hvernig er bókin afturábak? Hvernig er hún ef maður les bara hægri síðurrnar á opnunum? Ég hef líka prófað að þýða stök erindi og ljóð á önnur mál sem ég kann til þess að fá betri tilfinningu fyrir þeim. Allt til þess að ala á einhverri mónómaníu gagnvart textanum og til þess að gera hann nýjan fyrir sjálfum sér – rétt passlega ókunnuglegan, svo maður geti ímyndað sér að þetta sé eftir einhvern annan, aftengt egóið (sem minnir auðvitað á trixið að leggjast á handlegginn á sér þangað til hann sofnar og fróa sér síðan – af því það sé næstum einsog að vera ekki einn að þessu).


Og svo geri ég ekki neitt. Fer út að hlaupa. Geri jóga. Kaupi í matinn. Stari út í bláinn. Kæli hugann, kæli hjartað, kæli augun, kæli fingurna, og kem svo aftur að handritinu til þess að gera þetta allt aftur.

Hvetur þetta plakat til reykinga? Má það?

Það er fjarska gaman að spila á kontrabassa. Og hljómurinn er fagur. Ég fékk lánaðan forláta bassa fyrir tveimur vikum til þess að geta spilað á hann í að minnsta kosti einu lagi og kannski þremur á Tom Waits heiðurstónleikunum sem við ætlum að halda 23. nóvember. Það er líka áhugavert ferli að fá svona ferlíki í hendurnar og finna hvernig hann byrjar smám saman að hlýða manni betur – hvernig maður verður minna þreyttur af að spila hann, hvernig siggið myndast og hendurnar eiga betra með að finna nóturnar á hálsinum. Ég þarf enn einhvern referans – að spila opinn streng – og er smá stund í hvert skipti að stilla mig af. Þetta er smá glíma – en hægt og bítandi verður hún að dansi og verður áreiðanlega fyrir rest einhvers konar erótískt ævintýri.


Fljótlega eftir tónleikana þarf ég svo að skila honum. Og fljótlega eftir það fer ég til Tælands fram yfir áramót. En einhvern tíma á nýju ári þarf ég að finna út úr því hvernig ég get eignast kontrabassa. Ég er byrjaður að leggja á ráðin um hvað ég geti selt til þess að eiga fyrir honum. Hvað er maður aftur með mörg nýru og hvað er stykkjaverðið? Kontrabassar eru ekki alveg ókeypis tæki en mér sýnist að ég geti t.d. fengið Gewa Premium Line 3/4 bassa á Thomann sem uppfyllir þarfir mínar fyrir tæplega 300 þúsund (með tolli). Eftir því sem ég kemst næst ætti mér að duga bassi sem er með gegnheilli framhlið en lamíneraður á hliðum og baki – það er fyrir djass og popp og blús og rokk. Pizzicato músík. En maður þarf líklega dýrara hljóðfæri ef maður ætlar að fara að spila mikið klassík með boga. Sem stendur ekki til.


***


Ég hef verið mjög leslatur síðustu daga. Veit ekki hvað veldur. Er að lesa Karitas án titils og finnst hún góð og áhugaverð og hún kallar á mig – en óþarflega oft þegar hún kallar þá svara ég með einhverju leiðindadæsi. Kannski er það veðrið. Það er óþarflega dimmt og blautt.

Anchor 1
natturulogmalin.jpg
Illska-scaled.jpg
BruinyfirTangagotuna_72pt.jpg
frankensleikir.jpeg
Einlægur Önd.png
Oratorek_72pt.jpg
Plokkfiskbokin1.jpg
thjonn-thad-er-fonix-i-oskubakkanum-minum.jpg
hnefi löng.jpg
HansBlaer_72.jpg
BLANDARABRANDARAR.jpg
bottom of page