Alltaf þegar ég sé mynd af honum finnst mér einsog Richard Brautigan hljóti að hafa verið í Crosby, Stills & Nash. Eða í Crosby, Stills, Nash & Young. Sem hefði þá auðvitað verið Crosby, Stills, Nash, Young & Brautigan. Kannski stofna ég einhvern tíma koverlagaband sem gerir bara ráð fyrir því að þannig hafi verið. Ég sé fyrir mér að Brautigan hafi sungið og leikið á þvottabretti – og þrátt fyrir að hann hafi ekki endilega verið lagvissastur í sveitinni eða músíkalskastur, kannski pínu lagvilltur og taktlaus á köflum, þá hafi fylgt honum ákveðið ljóðrænt kæruleysi sem hafi gætt sveitina einhverju alvöru „star quality“ sem hana hafi skort. Svo samdi hann auðvitað stórkostlega texta, við skulum ekki gleyma því.
En hvað er „star quality“ – hvað gerir listamenn að „stjörnum“? Það er fullt af fólki sem er listamenn sem er ekki frægt og það er fullt af frægum listamönnum sem eru ekki stjörnur. Karisma og X-faktor og duende eru orð sem eiga að fanga það sem í grunninn er alltaf eiginleikinn til að gera mann smá ástfanginn – fá mann til að halda með sér, vilja fylgja sér, teygja sig í læktakkann, klappa hástöfum. Stundum þrátt fyrir að maður hafi lítið þess unnið – sé jafnvel meðalmennskan uppmáluð (sem er ekki það sama og að segja að allar stjörnur séu hæfileikalausar; bara að þetta á ekki alltaf, að mínu mati, í beinu sambandi við gæði eða afrek).
Það er ekki fegurð samkvæmt fegurðarstöðlunum, að vera gangandi gullinsnið úr tónuðum vöðvum og lýtalausri húð, það er ekki að syngja alltaf nákvæmlega réttu nóturnar eða skrifa alltaf fullkomnar setningar eða að vera skýrmæltur og beinn í baki. Sumar stjörnur virka meira að segja „minnimáttar“ í einhverjum skilningi – lúðalegar eða klaufalegar eða bara gangandi kaos sem bíður þess eins að fuðra upp.
Sumt fólk gæti ekki póstað veðurspánni án þess að fá þúsund læk. Einu sinni sá ég tvít – mig minnir að það hafi verið frá Neil Gaiman eða Stephen King (báðir miklar stjörnur) – sem hafði augljóslega verið samið með rasskinninni. „FRFARGkjggea8934“ eða álíka. Og ég horfði á lækin hrúgast upp. Augljóslega er sumt af því bottar en ég held að stærri hluti sé fólk sem vill bara alltaf nálgast mikilfengleika stjörnunnar þegar færi gefst. „Oh, hann samdi tvít með rassinum!“ Svona einsog hann hefði verið að flauta þjóðsönginn með sama líffæri. Ég finn það sjálfur að sumt fólk kallar einfaldlega fram í mér miklu meiri „samstöðu“ eða „kærleika“ eða „aðdáun“ eða hvað maður vill kalla það en aðrir, sem þurfa að hafa meira fyrir mínu lófaklappi.
Reyndar má kannski líka ímynda sér – ég gæti viljað kannast við það sjálfur – að aðrar stjörnur veki hjá manni meira óþol en Jón og Gunna. Að maður læki bara alls ekkert sem þau segja af því maður þoli ekki neitt sem þau segja. Fari aldrei í bíó ef þau eru að leika, kaupi aldrei bækurnar þeirra, hlusti ekki á lögin – og í hvert skipti sem þau séu nefnd hnussi maður: OFMETIÐ DRASL. Og það sé þá í öfugum hlutföllum við þá aðdáun sem sama fólk vekur hjá öðrum. ÓSKILJANLEGT gaggar maður. Og þá er „star quality“ hugsanlega bara eiginleikinn til þess að kalla fram tilfinningar – eins konar magnari.
Ég held þetta sé vel að merkja ekki það að við speglum okkur sjálf í stjörnunum – við erum ekki svona góð í að dýrka okkur sjálf – það er meira að við sjáum þær sem eitthvað dásamlegt sem við fáum að eiga hlutdeild í, einsog börnin okkar, eitthvað sem við getum dýrkað án þess að festast í niðurrifi sjálfsmeðvitundarinnar.
En kannski – bara kannski – er þetta vegna þess að stjörnurnar sjálfar eru góðir narsissistar. Að þær skorti sjálfar lykilþætti sjálfsmeðvitundarinnar. Að þær trúi því – innst inni, frekar en á yfirborðinu, af því þetta virkar nú ekki sympatískt ef í það glittir – að þær séu frábærari en aðrir (og stundum jafnvel frábærari en aðrir í sjálfsmeðvitund).
***
Þessu tengt og ótengt – ég er alltaf líka að tala um eigin mikilfengleika, þetta er mitt blogg, hér er ég eina stjarnan – fór ég að hugsa um það í gær að í kúltúrbarnaumræðunni um árið hefðum við aldrei tekið upp hinn endann á þræðinum. Að það er ekki bara að börn frægra listamanna njóti góðs af tengslaneti foreldra sinna – eða fái það tengslanet beint í æð, það haldið þeim undir skírn sem bestu vinir foreldranna og tengist þeim tilfinningaböndum frá unga aldri – heldur að börnin þjóna líka þeim tilgangi að viðhalda mikilfengleika foreldra sinna. Þetta eru kaup kaups. Ég útvega þér útgáfusamning og þú sérð til þess að bækurnar mínar verði endurprentaðar þegar ég er dauður. Ég kynni þig fyrir heimsbókmenntunum frá því þú ert í vöggu og þú mætir í viðtöl til að halda mikilfengleika mínum á lofti eftir minn dag. Sá mikilfengleiki þarf vel að merkja ekki að vera eintóm dásömun – í Svíþjóð er sterk hefð fyrir því að kúltúrbörnin mæti í viðtal til þess að ræða hvað foreldrar þeirra voru hræðilegir uppalendur og manneskjur, en alltaf með þeim undirtóni samt að þau hafi fórnað öllu fyrir listina, hún hafi alltaf verið mikilvægust. Af því það er arfleiðin.
Það sem ég er að reyna að segja er að ég er ekki viss um að ég hafi a) verið nógu duglegur að halda Dostójevskí að börnunum mínum og b) að ég hafi alls ekki vanrækt þau nóg til þess að úr því verði almennilegt opinskátt einkaviðtal þegar fram líða stundir.
En nú veit ég allavega hvaða áramótaheit ég strengi í janúar.