top of page

Menningardagbókin, 2. febrúar



Úr uppfærslu Carla Haas productions á leikverki upp úr Hygiène de l'assassin.

Ég veit ekki hvort það var vegna þess að ég las hana svo ógurlega hægt og nákvæmlega en Hygiène de l'assassin eftir Amelie Nothomb er sennilega með kraftmestu bókum sem ég hef lesið lengi. Það hefur áreiðanlega eitthvað með lestrarhraðann að gera – og kraftinn í því að vera að lesa á nýju tungumáli, allt verður nýtt, allt ljómar. En hún er líka frábær (og tungumálið dugði mér ekki í Monsieur Ibrahim et les fleurs du coran, sem mér fannst fín, en ekkert meira en það).


Plottið er þetta. Nóbelsverðlaunarithöfundurinn Prétextat Tach fær að vita að hann eigi þrjá mánuði ólifaða og ákveður af því tilefni að taka loks á móti blaðamönnum og veita viðtöl – sem hann hefur aldrei gert áður. Hann er fremur óviðkunnanlegur snillingur, hamslaus nautnaseggur sem er eiginlega of feitur til þess að geta staðið á fætur, hittir aldrei neinn nema umboðsmanninn sinn og sjúkraliðann sem þrífur hann einu sinni í viku. Hann tekur sérstaklega fram að hann vilji ekki tala við konur eða litaða, bara hvíta, franska karla. Þeir fá örfáa daga til undirbúnings. Svo koma þeir inn til hans hver á fætur öðrum og kljást við snillinginn, sem hefur þá auðveldlega undir með hroka sínum og gáfum, svo þeir mega hverfa sneyptir á braut. Eftir viðtölin setjast þeir niður á kaffihúsi handan götunnar og hlusta á upptökuna með kollegum sínum sem komast alltaf að hinni sömu niðurstöðu: blaðamaðurinn er fáviti, stéttinni til skammar, Prétextat Tach er snillingur og ekki skrítið að hann hafi ekki látið bjóða sér þessa vitleysu. Svo lýsa þeir yfir eindregnum vilja til þess að vera næstir og sá sem þann heiður hlýtur fær svo sams konar kjöldrátt og sá á undan.


Um miðja bók breytist svo jafnan þegar ung kona smyglar sér inn. Hún á bæði auðveldara með að skylmast við Tach og hefur það augljósa forskot á karlana að hafa lesið öll verk Tachs, og það í kjölinn – en Tach gerir sjálfur talsvert úr því að enginn hafi í raun lesið þessar bækur, og þeir fáu sem hafi reynt að gera það hafi misskilið þær, sem sé augljóst, því ekki sé hægt að lesa þær og vera sami maður á eftir, gott ef þær hljóti ekki óhjákvæmilega að slökkva í manni alla trú á hið góða í mannskepnunni, það sjáist auðveldlega hverjir hafi lesið Prétextat Tach og hverjir ekki. Í fyrstu trúir hann henni ekki einu sinni. Fljótlega kemur í ljós að blaðakonan hefur mestan áhuga á einu bókinni sem Tach hefur aldrei klárað, og gaf út ókláraða. Sú fjallar um fagurt aðalspar á unglingsárum sem lifir í nekt og sakleysi og nær hápunkti sínum þegar stúlkan byrjar að hafa á klæðum og strákurinn myrðir hana til þess að standa vörð um eilífa æsku hennar. Þessa bók vill hún meina að Tach hafi byggt á eigin æviminningum – og hann sé morðinginn.


Plottið er ekki bara frábært tryllisplott heldur líka dásamlegt farartæki fyrir heimspekilegar vangaveltur um skáldskap, siðferði og merkingu. Það er auðvelt að hafa viðbjóð á Prétextat Tach en það er líka erfitt að taka ekki undir með honum af og til – og jafnvel vorkenna honum á köflum. Lengst af ævinnar hefur hann engan umgengist – hann skrifar viðstöðulaust frá morgni til kvölds í nokkra áratugi, hættir svo gersamlega og einbeitir sér að nautnum sínum, að éta, drekka og reykja. Að mörgu leyti minnir hann á Michel Houellebecq – en þá ber að hafa í huga að Hygiène de l'assassin kom út árið 1992, 6 árum á undan Öreindunum sem gerðu Houellebecq að súperstjörnu, og jafnvel þá var hann ekki orðinn sú týpa sem hann er í dag. Maður gerir sér í hugarlund að þetta sé kannski eitthvað franskt – tignun miskunnarleysisins í listum, sem er kannski framhald af þessari óbilandi trú (margra) frakka á fegurðina sem æðsta allra gilda.


En Tach er líka að reyna að gefa lífi sínu merkingu – bæði með því að skrifa og lifa, og svo því hvernig hann hefur skrifað um eigið líf og hvernig hann vill að spilist úr því sem eftir er af lífi hans, svo það eigi sér ljóðrænan endi. Hann getur ekki lifað án samhengis og merkingar – og það markerar bæði einkalíf hans og bókmenntir (lamar kannski eitt en fjörgar hitt, mætti segja, en það er líka einföldun).


Ég las svolítið af Goodreads umsögnunum um bókina þegar ég var búinn og það kom mér á óvart hversu mörgum er illa við hana – nánast einsog óþolið fyrir Tach smitist yfir á bókina. Sem er auðvitað furðulegt en líka týpískur samtímalestur, eða lesblinda, þetta er plága, að halda að þátttaka manns í tilverunni eigi fyrst og fremst að ganga út á að sortera gott frá illu (og það út frá ströngustu hreinlætisreglum). Nú er Tach augljóslega andhetja – og svona álíka viðkunnanlegur og Donald Trump, og augljós skopstæling og gagnrýni á tiltekna sýn á listina og lífið. En hann er líka ofur-mannlegur (í báðum merkingum) og leit hans að merkingu – og vonbrigði hans gagnvart því að finna hana ekki – og það hvernig hann misskilur eigin tilfinningar og annarra, hvernig hann óttast lífið og óreiðu þess, þrátt fyrir að vera augljósum gáfum gæddur – segir manni eitthvað, og bara talsvert, um takmörk mennskunnar.


Hvað um það. Tach er ekki meistari, heldur vesalingur – en þessi bók er meistaraverk.


***


Við Nadja kláruðum fimmta sísonið af Fargo. Það var margt ágætt í þessu en það fór alltof mikið púður í að láta þetta enda á einhverju feel-good réttlæti. Senan með Jennifer Jason-Leigh og Jon Hamm í fangelsinu var alger rjómi, í versta skilningi þess orðs. Þessi réttlætisþrá er farin að minna á gamaldags Hollywood þar sem fólk þurfti alltaf að fá „það sem það átti skilið“ – og skýrasta vísbendingin um að einhver myndi brátt deyja var að viðkomandi héldi framhjá eða drýgði aðra álíka synd. Þeir einir lifðu af sem voru hreinlífir.


Þegar við vorum búin með sísonið athugaði ég hvar það stæði gagnvart hinum – sem ég er auðvitað löngu búinn að gleyma – og uppgötvaði að þetta þykir „a return to form“.


Næst þegar mig langar í skammt af Fargo hugsa ég að ég horfi bara á bíómyndina.


***


Ég er ekki búinn að sjá Poor Things. Ég uppgötvaði Yorgos Lanthimos síðasta vor og horfði á flestar mynda hans og hef síðan beðið Poor Things í ofvæni. Og nú er verið að sýna hana í Ísafjarðarbíói og það hafa meira að segja verið aukasýningar en ég missi alltaf af henni út af Fiðlaranum. Sem er alveg bölvanlegt.


Það er samt mjög gaman í Fiðlaranum. Frumsýndum í gær fyrir stappfullu Edinborgarhúsi – níu sýningar eftir.


***


Lag vikunnar er Fais-moi de l'ectricité með Joe Dassin. Ég segi nú bara einsog Þórhildur sagði um Ragúel Hagalíns (sem leikur Mótel) eftir eitt Undranna undur: Hann er svo sætur að hann gæti drepið mann.



natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page