top of page
Morgunblaðið er baneitrað og það ætti enginn að lesa nema í fylgd með fullorðnum.

Hvað segir það um mann ef maður hefur það að markmiði í lífinu að það leiti enginn til manns í vandræðum? Að maður beinlínis vilji vera náunginn í hverfinu sem enginn biður um bolla af sykri eða afnot af sláttuvél? Eða maðurinn í fjölskyldunni sem enginn myndi vilja gista hjá á ferðalagi? Vinurinn sem er aldrei beðinn um að hjálpa í flutningum? Foreldrið sem er aldrei beðið um að skutla? Bæjarbúinn sem er aldrei beðinn um að leggja hönd á plóg með eitt eða neitt – af því hann hefur lýst því yfir að hann muni ekki hjálpa, vandamál annarra komi honum ekki við? Þetta er svo undarleg afstaða að ef manni birtist svona illmenni í barnabók myndi maður dæsa yfir „boðskapnum“ – þarf í alvöru að troða því ofan í fólk að hluti af því að vera almennileg manneskja sé að leggja sitt af mörkum til þess að sem flestir hafi það bærilegt?


Sem kallar á spurninguna: Hvaða barnabækur las eiginlega Sigmundur Davíð þegar hann var barn? Hvernig getur maður haft það að markmiði að enginn sæki um hæli á Íslandi? Eða í Danmörku? Danmörk og Ísland eru meðal ríkustu og öruggustu landa í heiminum og það eru 117 milljóns í vergangi vegna átaka sem má að stórum hluta rekja til pólitískra, efnahagslegra og hernaðarlegra ákvarðana sem voru og eru teknar á vesturlöndum, ákvarðana sem hafa gjarnan verið teknar til þess að viðhalda auðæfum okkar og áhrifum? Er þetta einu sinni umdeilt?


Ég er ekki að segja frekar en nokkur annar að við eigum að taka á móti „öllum“ eða öllum sem vilja koma – sem eru ekkert einu sinni mjög margir, miðað við stærðina á hópnum öllum – en hvernig dettur manni í hug að það geti verið uppskrift að velgengni í stjórnmálum að gera út á að auglýsa kaldlyndi sitt og segjast bara ekki ætla að gera neitt? Að vandamál annarra séu ekki okkar vandamál? Hér er ekki til neinn helvítis sykur og sláttuvélin er ekkert leikfang og ekki komst þú til að hjálpa mér að flytja og þessi sófi er nú ekki gerður til að sofa á honum? Er það í alvöru „Íslenski draumurinn“ – að við læsum sveitabýlinu fyrir bágstöddu ferðafólki sem er að reyna að brjótast í gegnum blindhríðar heimsins? Hvernig getur uppspretta stolts – eða ættjarðarástar! – legið í að skilgreina sig út frá kaldlyndi og kjarkleysi, að maður ætli bara ekki að fást við vandamálin sem lífið kallar mann til þess að leysa? Stolt fær maður af afrekum sínum og það eru engin afrek merkilegri en að hjálpa öðru fólki að lifa mannsæmandi lífi. Af uppgjöf og kaldlyndi uppsker maður skömm – skömm annarra, sannarlega, en líka skömm á sjálfum sér. Sem er hugsanlega sýnu verra.


Ekki að það séu fréttir að Miðflokkurinn sé fullur af ... fyrirgefið orðalagið ... getulausum aumingjum.


Ég hafði varla sleppt fingri af orðinu í gær þegar veðrið varð í alvöru dýrvitlaust. Nadja bað mig að sækja sig í vinnuna og ég keyrði sjálfur þessa 500 metra á hljómsveitaræfingu um kvöldið. Hefði nú sennilega gengið samt ef ég hefði ekki verið með hljóðfæri og magnara í fanginu.


***


Einsog flest sem fólk sem hefur yfir höfuð áhuga á hugsunum sínum er ég að reyna að láta ekki Trump hertaka í mér heilann. Eða Miðflokkinn. Ég vil kannski samt nótera hérna fyrir sjálfan mig að það hvarflaði að mér í gær að sennilega upplifi kjósendur hans – eða þeir sem íhuga að kjósa þannig – opinskáa umræðu demókrata um það „hvernig eigi að ná til þeirra“ og „hvernig eigi að skilja þá“ sem niðurlægjandi annars vegar og sem loforð um að reyna að manipúlera þá hins vegar, þegar loksins takist að skilja þá. Trump virkar filterslaus – ég er ekki viss um að hann sé það, en hann virkar þannig, og fólk sem virkar filterslaust getur kallað á ákveðna tegund af trausti, jafnvel þótt það virki líka hálfstjórnlaust. Manni hlýtur að finnast maður sjálfur geta „séð í gegnum það“ og kannski er það þannig sem hann skapar þessa nánd við kjósendur.


Ef við ímyndum okkur að við sætum við pókerborð með Harris og Trump, báðum í essinu sínu, myndi líklega allt óbrjálað fólk óttast hana frekar en hann – af því hún er augljóslega hæf, hún hefur augljósa sjálfsstjórn, er umkringd ráðgjöfum og fer eftir ráðgjöf þeirra. Það er það sem fólk á við þegar það hugsar um Trump sem „anti-establishment“. Það sér stjórnmálamenn sem andstæðinga sína – gerir jafnvel ráð fyrir því að þeir séu allir (jafn) óheiðarlegir. Þá er ekki betra að þeir virki góðir í að fela það.


Og kannski er það grunntónninn í bandarískum stjórnmálum 21. aldarinnar: Fólk er ekki að kjósa sér þjóna vegna þess að það trúir því ekki að kerfið sé gert til þess að þjóna þeim; því hæfari sem frambjóðandi virðist, því líklegri er hann til þess að vera afsprengi kerfisins. Og kerfið sér það sem stærri, sterkari og verri óvin en týpur einsog Donald Trump.


***


Í dag pantaði ég mér bók sem ég tók einu sinni á háskólabókasafninu í Þrándheimi. Það var haustið 2001. Howl: Original draft facsimile, transcript and variant versions, fully annotated by author, with contemporaneous correspondence, account of first public reading, legal skirmishes, precursor texts and bibliography. Ég var með hana til hliðsjónar þegar ég kláraði að þýða Ýlfur og ég hef oft hugsað út í ýmis atriði úr henni sem ég er ekki viss um að séu einsog mig minnir. Það er sérstaklega eitt atriði sem mig langar að slá upp og kannski deili ég því með ykkur þegar bókin kemur. En svo fannst mér líka bara að þetta væri bók sem ég ætti að eiga. Þetta er ein af bókunum í lífi mínu. Helst hefði ég viljað kaupa harðkápuna en hún kostar ríflega 200 dollara og ég kaupi of mikið af bókum til að leyfa mér að eyða 200 dollurum í eina – svo ég keypti kiljuna frá 2006.

Það er að gera vitlaust veður. Vindáttin er að vísu þannig að kannski lætur hún okkur hérna mest í friði. En það eru samt 13 m/s í spánni. Fjöllin skýla manni ekki frá veðurspánni.


***


Í dag eru liðin 107 ár frá októberbyltingunni. Sem heitir þetta af því 7. nóvember er ennþá október samkvæmt gregóríanska dagatalinu. Sú saga er sennilega bæð of flókin og infekteruð til þess að hún verði smættuð niður í slagorðin sem hún þó er yfirleitt smættuð niður í – næstu 70 árin rúmlega fóru í að rífast um það hvort þetta hefði verið góð hugmynd eða ekki, framin af góðu eða vondu fólki með góðar eða vondar fyrirætlanir, eitthvað sem tókst einsog það átti að takast eða eitthvað sem fór hryllilega úrskeiðis, sitt sýndist hverjum og svo hrundu Sovétríkin og þar með lauk því rifrildi. En það hlýtur að vera óumdeilt að hún vakti með mörgum gríðarlegar vonir um að hægt væri að byggja réttlátari heim – og kannski aðeins umdeildara, en þó varla svo neinu nemi, er sú kenning að tilvist kommúnistabyltinganna hafi orðið til þess að tryggja verkamönnum í hinum kapítalísku löndum meiri velferð en annars hefði orðið. Að Sovétríkin, fyrst og fremst, hafi vakið ugg í brjósti iðjuhöldanna.


Það voru líka margir sem mökuðu krókinn á kalda stríðinu. Máls og menningarveldið til dæmis – og þar með stór hluti íslensks bókamarkaðar, sem væri ekki einsog hann er í dag án ... Stalíns. Svo var auðvitað braskað í kringum herinn. Verktakabransinn væri ábyggilega annar án Roosevelts. Báðir aðilar eyddu miklu fé í menningu – af því þeir vildu sýna hinum að þeirra menning væri æðri. Þannig lagði CIA m.a.s. talsvert fé í framúrstefnulistamenn af því þar á bæ ályktuðu menn að ef Rússar sæju hvað vestrænir listamenn væru flippaðir og róttækir myndu þeir fyllast öfund – og Rússar á móti lögðu jafnvel sömu öflum lið á þeirri forsendu að þeir gætu grafið undan vestrænum kapítalisma (sem var oft í samræmi við markmið framúrstefnulistamannanna sjálfra, og þegar það var það ekki, var markmið þeirra oft óreiða sem hefði gert það hvort eð er).


Sögukennarinn minn í menntaskóla, Björn Teitsson, var góður og gegn framsóknarmaður – afar vandaður maður og svo fróður að við gerðum okkur leik að því að reyna að standa hann á gati. Það tókst einu sinni: hann vissi ekki hvað Ku Klux í Ku Klux Klan stóð fyrir – en sló því upp í frímínútum (og ekki á netinu, sem var ekki sú alfræðiorðabók 1996 sem það átti eftir að verða síðar). Ku Klux er sama og Kyklos – hringur eða hópur – og Ku Klux Klan er tátólógía, þetta þýðir bara klansklanið, fjölskyldufjölskyldan. Allavega – Björn sagði einhvern tíma að það væri erfitt að útskýra það eftirá en að á áttunda áratugnum, þegar Kína og Sovétríkin unnu hvern stórsigurinn á fætur öðrum og meira en helmingur jarðarbúa lifði við sósíalíska stjórn, hefðu liðið mörg ár þar sem það fólk sem fylgdist almennilega með gangi heimsins var sannfært um að sósíalisminn hlyti að vinna. Hann væri augljóslega hæfari – þar væri meiri framleiðni og þar væru stærri afrek að eiga sér stað. Svo kom auðvitað í ljós seinna að megnið af afrekum Kínverja voru bara til á pappírunum og að afrek Sovétmanna voru að sliga bæði ríkiskassann og sjálfa þjóðina. En það vissi enginn þá.


Ósigur sovét-sósíalismans var áreiðanlega óumflýjanlegur. Skrifaður í kóðann – einsog Marx sagði reyndar um kapítalismans og gæti enn átt eftir að eiga rétt fyrir sér um. Hvað sem því líður ljóst að sigur kapítalismans, að hann skuli ríkja óumdeildur, hefur haft í för með sér að „innri mótsagnir hans sjálfs“ hafa aukist. Hann eirir ekki plánetunni og verðlaunar narsissisma á kostnað alls annars og allra annarra – og misskiptir auðvitað bæði valdi og velferð. Þar er ekki um að kenna neinum „vondum kapítalistum“, heldur bara vélvirkinu sem slíku og aflinu sem það virkjar – það er sami kraftur sem færir okkur þennan myndarlega framtíðarheim sem við lifum í og sem svífst einskis til þess að koma honum á laggirnar, sami kraftur sem færir okkur allsnægtirnar og sem drekkur auðlindirnar í botn. Og kannski er það líka sjálf lífshvötin, kannski er ekki hægt að lifa til fulls án hennar – og kannski er ekki hægt að lifa í raun nema lifa til fulls. Guð veit að Stalín tókst sannarlega ekki að gera út af við frekjuna og hamsleysið og samkeppnisbrjálæðið – ég efast meira að segja um að hann hafi reynt.

Anchor 1
natturulogmalin.jpg
Illska-scaled.jpg
BruinyfirTangagotuna_72pt.jpg
frankensleikir.jpeg
Einlægur Önd.png
Oratorek_72pt.jpg
Plokkfiskbokin1.jpg
thjonn-thad-er-fonix-i-oskubakkanum-minum.jpg
hnefi löng.jpg
HansBlaer_72.jpg
BLANDARABRANDARAR.jpg
bottom of page