top of page

Í laufhúsum




Þjóðfélög reyna oft, a.m.k. í seinni tíð, að búa sér til lista yfir sameiginlega kanónu – einhvern öndvegislista þeirra verka sem hvert menntað mannsbarn á að þekkja til. Bókmenntakanóna hlýtur hins vegar eðli málsins samkvæmt að vera æði ólík frá manni til manns – og snýst ekki bara um „smekk“. (Sérstaklega í ljósi þess að yfirleitt hefur ekki einu sinni sprenglært fólk lesið 100 mestu öndvegisverkin á neinum lista – það þykir gott að vera hálfnaður). Það er tilfallandi hvað einum manni finnst að „maður eigi“ að hafa lesið og þegar maður hefur lesið það sem maður „á“ að hafa lesið lengist listinn sjálfkrafa, það bætast á hann titlar, stundum með slíku offorsi að manni finnst sem að því meira sem maður les, því meira eigi maður „eftir“. Sem er auðvitað ekki neikvætt heldur jákvætt – útsýnið á heiminn hefur einfaldlega batnað.


Eitt af því sem ég ætla mér í ár er að strika nokkrar stórar bækur af listanum yfir ólesnar bækur sem ég „á“ að hafa lesið. Þær eru margs konar – sumar íslenskar, sumar útlenskar, frá ólíkum tímum og svo framvegis, og eiga fátt annað sameiginlegt en að þykja merkilegar – fyrir utan auðvitað að ég hef ekki lesið þær. Að vísu eru margar þeirra í lengra lagi – löngu bækurnar vilja finna sér leið neðst í ólesna bunkann (enda bunkinn þannig stabílli).


Fyrst á listanum – einfaldlega vegna þess að ég átti eintak, sem ég hafði einhvern tíma opnað og ekki komist langt inn í – var stórvirkið House of Leaves eftir Mark Z. Danielewski, sem kom út árið 2000. Ég átta mig reyndar ekki á því núna hvers vegna mér fannst svona erfitt að komast inn í hana um árið – í þetta sinn rann hún einsog vel brýndur skautasleði, 709 stórar síður á þremur dögum. En það er sannarlega hægt að gefa sér lengri tíma til að lesa hana og hægt að lesa hana mörgum sinnum ef maður vill ráða allar hennar gátur. Internetið er bókstaflega krökkt af þannig lestri – það er engu logið um áhugann sem fólk hefur á að leysa allar þær undarlegu ráðgátur sem finna má í House of Leaves, fólk fær alvarlega þráhyggju fyrir þessari bók.


Bókin er þremur lögum og það mætti jafnvel skipta hverju lagi upp í fleiri lög. Söguþráðurinn er sirka svona.


Kvöld eitt fær 25 ára gamall tattú-lærlingur í Los Angeles, Johnny Truant, símtal frá vini sínum, djammaranum Lude, sem segir að hann hafi fundið óhemju af pappírum í íbúð látins gamlingja, Zampanò, og Johnny þurfi að skoða þetta, það sé eitthvað óvenjulegt við þessa pappíra. Johnny les sig í gegnum ósköpin, fær þau á heilann, og byrjar að skrifa textann upp, skipa honum í rétta röð og gera við hann athugasemdir, með það fyrir augum að fá textann útgefinn – og missir smám saman tökin á raunveruleikanum – milli þess sem hann djammar með Lude, stundar kynlíf með ýmsum konum, segir langar lygasögur til þess að heilla þær, og kynnist (og þráir) strippara sem kemur stundum á tattústofuna, og hann kallar Thumper (hún heitir eitthvað annað og fyrir rest fær Johnny að vita það en lesandinn aldrei). Johnny átti erfiða æsku – faðir hans var flugmaður sem lést af slysförum þegar hann var smábarn, mamma hans missti vitið og fór á hæli (og hefur sennilega reynt að drepa hann), og hann ólst upp á fósturheimilum, mest hjá ofbeldisfullum stjúpföður. Þessi sár ýfast öll upp í gegnum bókina.


Þá er það handrit Zampanòs. Í raun eru þetta bara haugar af pappírum í íbúð – og minnir á lýsingar af því þegar Kerouac og Ginsberg fóru til Tangers og hirtu Naked Lunch upp af gólfinu hjá Burroughs (samband Johnnys og Ludes er líka áþekkt sambandi Kerouacs og Neal Cassady, gleðikúrekans úr On the Road – báðir frekar villtir en annar ívið villtari en hinn). Pappírarnir eiga það sameiginlegt að vera einhvers konar endursögn og greining á frægri heimildarmynd, The Navidson Report. Við lærum mjög fátt um Zampanò og það sem við lærum kemur flest frá Johnny (þ.e.a.s. ekki í texta Zampanos).Zampanò var blindur (að skrifa um heimildarmynd) og hafði í gegnum tíðina fjölda aðstoðarmanna sem allt voru ungar konur. Einsog Johnny virðist hann hafa misst tökin á veruleikanum við þessa vinnu og Johnny greinir hann með grafómaníu (og getur vel að merkja trútt um talað). Þá er Zampanò augljóslega mikið lærður – hann vitnar í alla helstu heimspekinga, sálfræðinga og vitringa, gerir það á öllum mögulegum tungumálum, bollaleggur villt og skrifar endalausar neðanmálsgreinar. Stundum er það snjallt og stundum er það stjarnfræðilega bilað – og oft eru það bara nærri því endalausar upptalningar á hlutum sem gætu mögulega tengst einhverju í textanum. Á einum stað birtist til dæmis í neðanmálsgrein mjög langur listi af ljósmyndurum (500 talsins) sem ein af aðstoðarkonum Zampanòs segir Johnny að hún hafi skrifað upp fyrir hann meira og minna af handahófi (hún fletti tímaritum, lýsti myndum og hann sagði já eða nei, eftir því hvort þeir ættu að vera með á listanum).


Þriðja lagið er sjálf heimildarmyndin, The Navidson Report – sem er sá hluti bókarinnar sem dregur mann áfram, spennusagan sem heldur þessu öllu saman. Við fáum lýsingar af henni fyrst og fremst úr texta Zampanòs. Will Navidson er heimsfrægur stríðsfréttaljósmyndari hvers hjónaband er á leiðinni á haugana af því að kærastan hans og barnsmóðir, Karen Green, fyrrum tískumódel, er komin með nóg af því að hann rjúki alltaf út í heim til þess að stefna sér í voða á átakasvæðum, meðan hún er heima að sinna börnunum þeirra, Chad og Daisy. Hjónin ákveða að gefa þessu einn séns í viðbót og flytja saman til Virginíu þar sem Will (sem meira að segja tvíburabróðir hans, Tom Navidson, kallar „Navy“) ætlar að venda kvæði sínu í kross og gera heimildarmynd um hversdagsleika fjölskyldunnar í nýja húsinu. Hann setur upp myndavélar og hreyfiskynjara alls staðar nema á klósettunum.


Dag einn bregður fjölskyldan sér af bæ og þegar þau koma aftur hefur eitt herbergið í húsinu stækkað – það hefur myndast dálítill skápur. Þau skilja auðvitað ekki neitt í neinu – þetta er undarlegur hrekkur, að læðast inn í hús og byggja þar skáp að íbúum forspurðum – og fara og ná sér í teikningar af húsinu (húsið er mjög gamalt og teikningarnar eru gerðar eftir mælingum á húsinu, en húsið ekki byggt eftir teikningunum). Navy fer strax að mæla og bera saman og finnur að þarna hefur augljóslega a.m.k. verið pláss fyrir skáp inni í einhverju holi milli veggja. En við sömu mælingar kemur í ljós að ein hlið hússins er lengri að utan en að innan. Sem getur auðvitað ekki staðist. Navy mælir þetta aftur og aftur, fær bróður sinn til að koma og hjálpa sér, nær svo í verkfræðiprófessor – og alltaf komast þeir að sömu niðurstöðu. Á meðan á þessu stendur er Karen að smíða bókaskáp eftir einum veggnum endilöngum („besta bókastoðin er veggur“) og þegar því lýkur rekur prófessorinn sig utan í bók á einni bókahillunni, svo þær falla allar einsog dómínókubbar – og sú síðasta fer á gólfið. Bókahillan nær ekki lengur milli veggja.


Þarnæst birtist heill gangur. The five and a half minute hallway. Hann er augljóslega djúpur, nær langt út fyrir mörk hússins, þar inni er allt kolbikasvart (með grárri áferð) og frostkalt. Karen hefur bannað Navy að taka þátt í hættulegum ævintýrum – eða lofað að yfirgefa hann ella – og

prófessorinn, Reston (sem er í hjólastól eftir slys, sem Navy einmitt ljósmyndaði), kallar á ævintýramanninn Holloway, sem tekur með sér tvo aðra, og gera þeir nokkra leiðangra inn í ganginn – sem er síbreytilegur og inniheldur meðal annars stiga sem tekur stundum marga daga að klífa og stundum innan við mínútu. Allt þetta er kvikmyndað með ólíkum vélum – mest af því birtist okkur samt einsog Blair Witch Project efni, í stuttum mónólógum og frásögnum, enda kolniðamyrkur. Ítrekað kemur þó fram að það efni sem Navy tekur – hann fer á endanum inn líka – sé í allt öðrum gæðum. Það er mikið lagt upp úr því að hin listræna sýn geti bæði veitt skýrari mynd – en líka afbakað eða kallað á óþarfa túlkun.


Ég ætla ekki að fara lengra inn í söguþráðinn, vegna þeirra sem gætu viljað lesa bókina – ég hef merkilega litlu spillt enn.


Í endursögn Zampanòs er öllu mögulegu velt upp – fortíð persóna, sambandi þeirra á staðnum, það er rýnt í augnatillit og orð, rýnt í þögn og grettur, persónur bornar upp að goðsagnafígúrum og biblíupersónum (t.d. er vitnað í 900 blaðsíðna rit um samanburð bræðranna Toms og Navys við Esaú og Jakob). En textarnir eru líka sumir endasleppir – enda bara pappírshaugar – og sumir þeirra hafa skemmst (eitthvað hefur Zampanò strikað yfir, t.d. allt sem hefur með mínótára að gera, en birtist manni samt sem læsilegt, annað hverfur betur, sumu sleppir Johnny – hann er auðvitað alltaf að laga þetta til – og annað er fullt af dularfullum brunagötum). Svo er Johnny sjálfur sífellt að grípa fram í til þess að segja okkur af sínu lífi – kvennafari, erfiðleikum í vinnunni, óreglunni á Lude, samræðum sínum við fyrrum aðstoðarkonur Zampanòs, bernsku sinn o.s.frv.


Í 100 blaðsíðna viðauka birtast svo alls kyns aukatextar – talsvert af ljóðum Johnnys (sem fjalla öll um pelíkana), safn tilvitnana um hús, færslur frá Zampanò sem hafa ekki með söguna að gera, myndir af textabrotum úr handritinu, listi yfir myndir og gröf sem ættu að birtast og hvar, fjöldi bréfa sem Johnny fékk frá móður sinni þegar hann var barn og hún á hæli og fleira og fleira.


***


Allt er þetta auðvitað skáldskapur, en í skáldskapnum er sumt af þessu líka skáldskapur – eða í það minnsta hugsanlega skáldskapur. Eitt af því sem Johnny segir strax í upphafi bókarinnar er að heimildarmyndin sem Zampanò skrifi um eigi sér enga stoð í raunveruleikanum – hún sé einfaldlega ekki til, né heldur, auðvitað, öll þau fræðirit sem um hana eiga að hafa verið skrifuð. Annars staðar í bókinni koma svo fram upplýsingar, frá ritstjórum, sem vekja a.m.k. upp efa um að þetta sé rétt hjá Johnny. Kannski sé myndin bara til. En hafi myndin verið til þá er Zampanò auðvitað afar óáreiðanlegur sögumaður – hann er með árátturöskun, grafómaníu, þráhyggjur og hefur (að sögn Johnnys) beitt mjög vafasömum aðferðum við að setja saman sína texta. Ekki bara eru ljósmyndararnir 500 bara einhverjir ljósmyndarar heldur er svo löng neðanmálsgreinarupptalning augljóslega skopstæling á fræðimennsku – en hver er að skopstæla, er það Zampanò, Johnny sem skrifar þetta upp eða Danielewski, höfundur bókarinnar? Þá eru alls kyns kóðar í sumum þessara neðanmálsgreina – stundum mynda upphafsstafir nafnanna einhverjar setningar. Ofsóknarbrjáluð móðir Johnnys skrifar honum bréf með sams konar kóða þegar hann er barn – og ýmsar þannig vísbendingar eru um tengsl milli hugsana Johnnys og Zampanòs og móður Johnnys, sem ýta stoðum undir kenningar um að annað hvort hafi Johnny skreytt texta Zampanòs eða þetta séu allt sögusagnir úr sagnaglöðum huga hans, eða Zampanò og Johnny séu hugsanlega sami maðurinn, og jafnvel Navy líka, enda skarast þeir aldrei á æviskeiðum. Johnny er barn og ungi maðurinn, Navy sá miðaldra og Zampanò sá gamli. Hugsanlega eru kvenpersónur bókarinnar líka ein.


Þetta er altso sem sagt í lögum. Laufhús Danielewskis er völundarhús og á að vera það – en einsog kemur fram í einum af öllum þessum textum er ekki vandi að komast út úr völundarhúsi ef maður hefur alltaf höndina á einum vegg og gengur bara beint af augum án þess að sleppa. Mér fannst ekki bókin torlesin en sennilega þarf maður að geta gefið sig að henni.


Áður en fer að ræða þemu og merkingu í bókinni þá vil ég aðeins nefna umbrotið á henni. Af því sögurnar eru stöðugt að grípa hver fram í fyrir annarri eru sögumenn með sitt eigið letur – sem hjálpar talsvert, ekki síst þegar Johnny fer að gera neðanmálsgreinar við neðanmálsgreinar Zampanòs – en auk þess er textinn á síðunni gjarnan settur upp með hliðsjón af því sem er að gera. Stundum gisnar hann mjög og það eru ekki nema örfá orð á síðu, stundum þarf að snúa bókinni við og lesa á hvolfi – á nokkrum stöðum er bara hægt að lesa textann með því að bera upp að honum spegil (en það er óþarfi, því sami texti er hinumegin á sömu síðu, maður er bara að horfa aftan á hann). Þetta er vandmeðfarið en vel gert – og sem betur fer ekki ofnotað. Þá lýsir þetta ýmist andlegu ástandi þess sem skrifar, textunum einsog Zampanò hefur skilið við þá (dáið frá þeim) og ferðalaginu inn í þetta undarlega hús, þar sem rúmfræðilögmálin hafa látið undan. Svo eru sumir textar í rauðu og/eða yfirstrikaðir (t.d. allt sem hefur með mínótára að gera, sem eru þá kenningar sem Zampanò hefur hætt við) og orðið hús birtist alltaf í dökkbláum lit, svo dökkbláum að maður tekur næstum ekki eftir því (en samt poppar orðið alltaf fram).


[Smellið á örina til að sjá fleiri myndir]




***


Danielewski hefur sjálfur sagt að hann hafi byrjað að skrifa bókina í langri rútuferð þvert yfir Bandaríkin á leiðinni að dánarbeði föður síns, Tads Danielewski, sem var pólsk-amerískur framúrstefnukvikmyndaleikstjóri. Og sú túlkun sem liggur þá beinast við er að skoða söguna sem leiðangur um rangala áfalla, bæði það hvernig þau verka á okkur – birtast skyndilega, breyta öllu, breyta svo sjálfum sér, hverfa tímabundið, eru endalaus, köld, myrk og vekja óhug með öllum sem koma of nærri þeim – og það hvernig við reynum að kanna þau, sama hvað það kostar, af ölllu því hugrekki sem við eigum til (einsog Navy, sem breytir því í ævintýralega hættuför), skilja þau (einsog Zampanò sem leggur alla heimsins þekkingu undir) eða deyfa þau (með kynlífi, djammi, áfengi, eiturlyfjum og annarri auðsóttri stundarhamingju, einsog Johnny). Og líka forðast þau – einsog Karen, sem á sín eigin áföll, með og án Navys, en vill varla tala um húsið eða taka þátt í neinu, og vill ekkert frekar en að sleppa bara úr húsinu og að Navy komi með sér.


Húsið er hið myrka tráma – sem sumir rekja til þess þegar móðir Johnnys, sem þá er aðalsögumaður, hugsanlega sá eini, reyndi að drepa hann þegar hann var sjö ára – og allt sem gerist er aðferð til þess að díla við það. Og niðurstaðan er fyrirsjáanlega myrk fyrir sögutíma sinn – 10. áratugurinn var ekki bara saklaus, hann var líka vonlaus og sínískur – það er eiginlega engin lausn, trámað mun alltaf gleypa þig.


***


House of Leaves er mikil strákabók, einsog þið heyrið. Aðalsöguhetjurnar eru strákslegar erkitýpur – sá sem getur allt (Navy), sá sem veit allt (Zampanò) og sá sem er viðkvæmur, bláeygur, fagur og þjáður (hugsið Kurt Cobain). Konurnar í kringum þá koma aldrei alveg í fókus en eru þó einhvern veginn alltaf fyrir miðju frásagnarinnar (sem er skemmtilegur kontrast við hljóðbókina sem ég er að hlusta á í ræktinni – Dalalíf eftir Guðrúnu frá Lundi – þar sem þessu er eiginlega öfugt farið og allt snýst í augnablikinu um það hver fær að giftast Jóni Jakobssyni). Strákarnir hringsnúast í kringum þær og langanir þeirra – jafnvel þegar þeir eru ekki að gera einsog þær helst vildu.


Konum Johnnys má skipta í þrennt. Í fyrsta lagi er það mamma hans og trámatískt samband hans við hana – ofsafengin ást hennar á honum og skaðinn sem ranghugmyndir hennar geta og hafa valdið honum. Í öðru lagi eru það hjásvæfurnar – hálfgerður klámmyndalosti einkennir samskipti hans við þær konur, sem aftur gæðir atriðin óraunveruleikablæ, svo maður veltir ósjálfrátt fyrir sér hvort hann hafi riðið þeim eða bara fantíserað um það eftirá. Í þriðja lagi er svo stripparinn Thumper, sem hann þráir en fær ekki – og vill svo ekki þegar hann loksins á að fá (og faðmar „nánast föðurlega“).


Konur Zampanòs eru aðstoðarkonurnar. Zampanò er blindur og þarf augljóslega aðstoð við að sjá – þótt ekki komi fram að konurnar hafi horft á heimildarmyndina með honum (og Johnny spyrji þær aldrei hvort þær hafi séð hana; hann sem heldur því fram að hún hafi ekki verið til). Þær virðast líka mikið til vera tungumálakonur og koma oft til sögunnar til þess að hjálpa Johnny við að þýða einhver textabrot – þótt ekki komi fram, það ég muni, að þær hafi þýtt brotin fyrir Zampanò, þótt það megi ímynda sér það.


Navy á bara eina konu. Dóttir hans, Daisy, birtist bara sem barn – og börnin eiginlega bara sem propps, í besta falli statistar. Karen Green er tæplega fertug, fyrrverandi módel, heldur sér vel en óttast að eldast. Nöfnin í bókinni eru mörg augljósar vísanir – Navy er flotinn, hetjan; Johnny er Truant að eftirnafni, skrópagemlingur úr lífinu; ruddinn Holloway er hinn holi vegur, hann fer inn the hallway, verður þar eftir, Holloway og Hallway verða eitt; Reston getur ekki staðið á fætur, he rests on a wheel chair, Lude er stytting á kvíðalyfinu quaalude (og orðinu ludicrous) og svo framvegis. Það er freistandi að ímynda sér að hugtakið „Karen“ hafi verið til fyrren það varð til – Karen þráir ekkert meira en að vera þess lags úthverfamamma, heimtar frið og ró líka þegar það er bara alls ekki í boði, og er áreiðanlega líka fullkomnunarsinni og kvabbari. En það er erfitt að ímynda sér að eftirnafnið – Green, græningi – sé tilviljun. Hún er sú sem tekst ekki á við trámun. Hún veit ekki neitt – um sig, um Navy, um húsið, um heiminn – vegna þess að hún vill það ekki (öll þekking gæti leitt að sárri þekkingu, öll þekking er hættuleg). Hlutverk hennar er að vera sú sem hvetur til hins passífa lífsstíls – fyrir sína hönd en líka fyrir hönd Navys; en svo verður ekki horft framhjá því að hún valdi sér einmitt svona mann (og hann valdi sér svona konu); þau sækja eitthvað hvort til annars. Og á endanum spila gjörðir Karenar lykilhlutverk – það er hún sem bjargar Navy. Á yfirborðinu er það lítil hetjudáð – Karen ferðast ekki langt og gerir ekki margt – en aðdragandinn að því og sú staðreynd að hún er annars konar manneskja en testósterónkarlarnir sem óðu lengst ofan í þetta myrka djúp hússins gerir hennar dáð kannski meiri, hennar sigur stærstan.


Annað sem er áhugavert í sambandi þeirra Karenar og Navys er að hún er kynvera en hann ekki. Hún fær á sig druslustimpil sem er ekki alveg innistæðulaus (hún hefur einu sinni tekið framhjá – sem er áreiðanlega lítið í ljósi fjarvera Navys, kuldans í sambandi þeirra og tækifæranna sem fyrrum módeli bjóðast) en er blásinn upp í sumum þeirra texta sem Zampanò vitnar í. Það er einsog Navy fái alla sína kynferðislegu útrás í hættuförum sínum á útlenskum átakasvæðum – þar sem hann þykir fram úr hófi penn í samskiptum við konur, miðað við kollega sína. Sem leiðir mann óneitanlega að því að vilja túlka gatið í húsinu sem einhvers konar alheimsvagínu sem Navy sé sífellt að reyna að serða til fullnægingar – einsog vagína er hún teygjanleg að lögun, langt um fram það sem maður gæti ímyndað sér við fyrstu sýn, það býr í henni myrkur og ókönnuð djúp (inni í hverri vagínu er heil manneskja!); en annars er hún spegill vagínu: hún er köld, full af vansælu og gleypir líf frekar en að þrýsta því út.


Sem minnir mig á að Thumper, stripparinn í lífi Johnnys, kallaði píkuna á sér „the happiest place on earth“. Og gott að hafa í huga að þegar til kastanna kom hafnaði Johnny boði þangað.


***

Sem minnir líka á þetta sítat í Valerie Solanas, í þýðingu Dr. Usla (útg. Nýhil, 2009).

„[Karlmaðurinn] er tilbúinn að synda yfir fljót af hori, vaða nasadjúpa ælu kílómetrum saman, ef hann heldur að vinaleg píka bíði á hinum endanum.“

***


Ein vinsæl kenning um það hver sé „raunverulegur“ höfundur The Navidson Record (á heimasíðu aðdáenda House of Leaves fara menn meira að segja svo varlega að fullyrða ekki einu sinni að Danielewski hafi skrifað bókina) er að móðir Johnny, Pelafina H. Lièvre, hafi skrifað allt saman. Lièvre þýðir vel að merkja „héri“ á frönsku – og „Thumper“ er nafn á héra úr bíómyndinni um Bamba, sem hún er með tattúveraðan á sig, skammt ofan við áðurnefndan unaðshól. Þá er það hún sem fyrst notar upphafsstafakóðann, einsog áður segir, til þess að skrifa bréf til Johnnys þegar hann er barn, og hann dúkkar svo aftur upp í neðanmálsgreinum Zampanòs.


***


Eitt af því skemmtilegasta við að lesa bókina er að reyna að ráða í alla þessa rangala – og Danielewski má eiga það að þótt það sé ólíklegt að bókina megi neitt „leysa“, þetta er ekki þess lags þraut, þá er gaman að þvælast um þetta undarlega hús og vísbendingum hefur haglega verið komið fyrir. Bókin er gjarnan kölluð meistaraverk og það er óhemja af fólki sem stundar lestur á henni einsog trúarbrögð – af áfergju og prinsippfestu. Og ég myndi nú aldrei segja að hún hefði valdið mér vonbrigðum þótt ég eigi erfiðara með meistaraverkskonseptið (kannski finnst mér það bara mjög sjaldan eiga við, kannski næ ég bara ekki sambandi við konseptið sem slíkt). Það eru kaflar af henni sem eru óþægilega juvenile, þetta er ógurlega gröð bók og mikið karla-aksjón – ég get alveg varið slíkt og fundist það jafnvel dásamlegt, svo ég veit ekki alveg hvers vegna ég hika hérna. Kannski er greddan og aksjónið bara of mikið Hollywood – go figure, bókin gerist að miklu leyti í L.A. Einhverjir al-amerískir stælar sem ég hef innbyrt of oft til þess að þeir hafi fullan kraft lengur.


En samt. Geggjuð bók. Æðisleg smíði.

natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page