top of page

Verður er verkamaðurinn


Fólk hefur stundum samband og spyr hvort ég geti selt þeim áritað eintak af bókunum mínum. Eða stoppar mig á götu. Áttu ekki eintak, spyr fólkið, ég vil endilega fá áritun. Stundum á ég eintök – maður fær alltaf einhver höfundaeintök og svo kaupi ég stundum aukaeintök af forlaginu mínu – en oft sendi ég fólk bara í Bókhlöðuna (eða aðra viðeigandi bókaverslun þar sem fólkið býr) og býðst til að árita við tækifæri. Sérstaklega hef ég reynt að gera þetta þegar einhver bóka minna hefur verið í útstillingu, sem er oft á Ísafirði og stundum líka annars staðar. Frankensleikir er t.d. bók mánaðarins hjá Forlaginu og hefur verið fallega uppstillt í bókaverslun Forlagsins á Fiskislóð í nóvember. Hún var líka í glugganum á Bókhlöðunni fyrstu tvær vikurnar eftir að hún kom út.


En nú eru höfundareintökin uppurin og ég hafði hugsað mér að panta kannski nokkur ný til að eiga á aðventunni. Hvað kosta þau? spurði ég Forlagið. Þau kosta 3.119 krónur, sagði Forlagið. Ég hummaði eitthvað fýldarlega af því ég þóttist hafa séð þau á sama verði í Bónus. Fór svo og kannaði málið og þá reyndist Bónusverðið vera 3.198 krónur, eða 79 krónum hærra en heildsöluverð með höfundaafslætti. Ef Bónus fær bókina á sama verði og ég þá er álagningin 2,5%.


Og þá spyr ég mig eðlilega hvort ég eigi heldur að panta þau aðeins ódýrari frá Forlaginu – og láta senda mér að sunnan með tilheyrandi kostnaði – eða bara fara inn í Bónus og kaupa þau þar? Ef ég geri það, og sel þau svo dýrar er ég þá ekki bara að okra á fólki? Og ef ég endursel þau á sama verði, er ég þá ekki bara kominn í vinnu fyrir Bónus? Orðinn mitt eigið prívat Bónusútibú? Ég held að fólk reikni almennt frekar með því að ég geti selt þeim bókina aðeins ódýrar en næsti maður. Ég fæ auðvitað eitthvað fyrir hvert eintak þótt ég leggi ekkert ofan á það – taki ekkert gjald fyrir að selja bókina, bara fyrir að hafa skrifað hana. En þetta er samt eitthvað off.


Frankensleikir er auðvitað ekki alls staðar á 3.198 krónur – hún kostar til dæmis 3.999 krónur í Eymundsson (Bókhlaðan er líka Eymundssonverslun) og er þá meira að segja á 15% afslætti. Í Bókaverslun Forlagsins kostar hún án afsláttar 3.999 kr. en af því hún er bók mánaðarins kostar hún nú 3.590 kr.


Ég held sennilega áfram að senda fólk í Bókhlöðuna – þótt Frankensleikir sé ekki lengur í uppstillingu. Aðallega af því ég skil ekki neitt.


***


Mér var boðið að skrifa pistla fyrir lítið og fátækt vefrit á dögunum. Vefrit sem ég hefði gjarnan veitt liðsinni mitt. Greiðslan var 8 þúsund krónur – fyrir verk sem tekur aldrei nokkurn tíma minna en einn vinnudag (nema maður sinni því bara svona einsog bloggi, skrifi bara út í loftið) og ábyggilega oftar nær tveimur. Ég afþakkaði þetta tilboð, af því ég þarf að leggja áherslu á betur borguð verkefni. Það liggur við að það sé betra að gera þetta bara ókeypis.


Daginn eftir fékk ég tilboð frá risastórri ríkisrekinni stofnun (það var RÚV) um að skrifa pistil – einn pistil í seríu margra pistla ólíkra höfunda út frá einu og sama þemanu. Fimm mínútna langan pistil sem ég þyrfti að lesa upp þegar ég væri búinn að skrifa hann og það var jafnvel stungið upp á því – ef ekki gefið sterklega í skyn – að sniðugt væri ef ég tæki hann líka upp sjálfur. En tekið fram að manni væri auðvitað heimilt að koma upp á RÚV.


Nema hvað – fyrir þetta bauð ríkisstofnunin tvö þúsund krónum meira en fátæka vefritið, eða tíu þúsund krónur. Ég afþakkaði þetta boð líka.


Fyrir örlítið lengri pistil (7 mínútur) borgar sænska ríkisútvarpið vel að merkja um 130 þúsund krónur. Jafnvel lítil sænsk dagblöð – miklu minni stofnanir en RÚV – myndu aldrei borga manni minna en 40-50 þúsund fyrir pistil. Ég þekki ekkert dagblað á Íslandi sem borgar nema í mesta lagi fjórðung af þessu.


Nú gæti maður sagt sem svo að þetta hafi með stærð landanna að gera. Auðvitað sé ekki hægt að ætlast til þess að lítið ríkisútvarp borgi jafn mikið og stórt ríkisútvarp. Og sennilega er það ekki alveg út í loftið. Hins vegar snýst þetta meira um hefðir og venjur og standard. Þannig spyr sig enginn að því hvort yfirmenn RÚV þyrftu þá ekki að vera á 1/15 hlut launa yfirmanna SR og þannig er það áreiðanlega ekki heldur (þótt það kæmi mér ekki á óvart ef meðallaunin á SR séu aðeins hærri en á RÚV). Pípararnir sem laga klósettin á RÚV eru áreiðanlega ekki heldur verr launaðir en pípararnir sem laga klósettin á SR. Og svo framvegis. Fólk fær almennt ekki greidd laun í hlutfalli við það hversu stórri þjóð það tilheyrir.


Mér reiknaðist til að ef pistlahöfundur á þessum kjörum ætti að ná lágmarkslaunum Eflingarstarfsmanns þyrfti hann að skila tæplega tveimur pistlum á dag, alla daga ársins – að teknu tilliti til skatta og annarra gjalda.


***


Ég ætti auðvitað að þaga um þetta vegna þess að þetta gerir mig ekki beinlínis að eftirsóknarverðum starfskrafti í framtíðinni. Ég myndi ekki sjálfur bjóða mér þátttöku í spennandi verkefni nema ég væri 100% viss um að ég héldi kjafti ef launin væru glötuð. Maður á að hafa vit á því að halda kjafti. Ömurlegur mórall alltaf hreint.


***


Sama höfðatöluafsökun kemur líka upp þegar ég spyr hvernig á því standi að það sé enginn strúktúr til staðar sem geri ráð fyrir því að rithöfundur utan höfuðborgarsvæðisins komist til borgarinnar og fái þar gistingu meðan hann kynnir verk sín. 


Ég hef farið til ótal landa á vegum erlendra forlaga. Stundum er það einhver hátíð sem borgar flugmiðann og forlagið gistinguna, eða einhver fjölmiðill sem borgar hótelið á meðan hátíð borgar flugmiðann og forlagið gefur mér að borða. Oft eru hátíðirnar eða forlögin á styrkjum og stundum (en sjaldan) sækir listamaðurinn um sjálfur. Oft eru fjölmiðlarnir einfaldlega með budget sem gerir ráð fyrir X mörgum svona gestakomum á mánuði. Það er ekki bara einn strúktúr, heldur margvíslegir strúktúrar og útfærslur, en aldrei nokkurn tíma gert ráð fyrir því að maður bara komi. Ég er aldrei spurður „verður þú ekkert á ferðinni í Gautaborg/Berlín/Helsinki/París á næstu vikum“. Og þó eru þetta borgir sem ég heimsæki alltaf af og til.


Hvað um það. Ég kemst sem sagt milli landa í svona erindum án þess að kosta það sjálfur – oft gisti ég meira að segja í Reykjavík á leiðinni, og fæ innanlandsflugið greitt einsog flugið úr landi – en það er undantekning ef ég kemst bara til Reykjavíkur án þess að borga sjálfur flugið/bensínið, hótelið, matinn og svo framvegis. Og undantekning ef ég er ekki spurður hvort ég verði ekki áreiðanlega eitthvað á ferðinni.


Það er ekki þar með sagt að t.d. ritstjórinn minn leyfi mér ekki að gista í gestaherberginu sínu og láti manninn sinn elda ofan í mig dýrindis mat – það gerist sannarlega – og ritstjórinn minn þar á undan borgaði meira að segja einu sinni fyrir mig prívat og persónulega flugmiða frá Helsinki þegar ég var fátækt ungskáld. Ég á ekki við að það sé aldrei neitt gert fyrir mig.


En það er enginn strúktúr – engar útfærslur og engir gildir styrkir (ég hef reynt að sækja um ferðastyrki – og hef tekið eftir því að nú er æ oftar farið að taka fram í auglýsingum að þeir séu einungis veittir til ferðalaga til kynningar á verkum erlendis).


Stærðin, segir fólk. Mannfæðin, segir fólk. Það er ekki hægt að ætlast til þess að þetta sé einsog í Rio eða París. Nú get ég alveg sagt ykkur að þegar íslenskir höfundar ferðast erlendis er það ekki alltaf á vegum risavaxinna eða ríkra stofnana og það eru ekki heldur alltaf milljón gestir í salnum. En það er aukaatriði í samanburði við hitt – og takið nú vel eftir. Þegar rithöfundar af höfuðborgarsvæðinu fara austur eða vestur á land þá eru þessir peningar til. Menningarstofnanir utan höfuðborgarsvæðisins, sem jafnan eru styrktar af litlu útsvari sinna bæjarfélaga – stofnanir með kannski (í mesta lagi) einn starfsmann, sem berjast fyrir tilverurétti sínum – hafa af einhverjum orsökum efni á því að fá til sín höfunda með flugi, borga fyrir þá gistingu, gefa þeim að borða og greiða þeim laun. Af því það er gert ráð fyrir því að það þurfi.


Þetta er nefnilega ekki spurning um hvort það séu til peningar. Þetta er spurning um menningu.

natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page