top of page

Að feðra föður sinn


Það eru tvenns konar rithöfundar í heiminum. Þeir sem þykjast vera skrítnari en þeir eru og þeir sem þykjast vera venjulegri en þeir eru.


***


Ulysses myndin frá 1967 með Milo O'Shea, Maurice Roëves og Barböru Jefford er mikið fyrirtak – eiginlega alveg dásamleg. Það er reyndar vel hugsanlegt að maður þurfi að hafa lesið bókina til þess að njóta hennar – og klámið er allt skorið út eða straumlínulagað, einsog við er að búast, en það hefði verið í anda bókarinnar að halda því, leyfa Bloom bara að rúnka sér í fullri reisn og Nighttown fantasíunum að spora út í argasta klám. En hafa allt hitt samt eins. En það hefði líka verið meiri áskorun.


Ég horfði líka á Heddu Gabler eftir Ibsen – uppfærslu aðlagaða fyrir sjónvarp með Ingrid Bergman í aðalhlutverki. Ég hef aldrei kynnt mér Ibsen neitt og geri það bara af því Joyce (sem ég er með á heilanum þessa dagana, einsog einhver kann að hafa tekið eftir) dýrkaði hann – lærði meira að segja norsku til þess að geta skrifað honum bréf á sínu eigin máli – til þess að tilkynna honum að hann gæti óhræddur farið að deyja, það væri kominn arftaki, hann myndi sjá um bókmenntirnar héðan í frá. Joyce var þá 19 ára og hafði nýverið skrifað afar lofsamlegan leikdóm um eitt af verkum Ibsens og Ibsen hafði litist svo á textann að hann skrifaði ritstjóranum og lofaði leikdómarann.


En sem sagt. Hedda Gabler? Mér fannst þetta nú heldur þunnt. Í sjálfu sér var uppsetningin ekki góð en þetta plott er líka alveg fáránlega dramatískt – ógurlegar póseringar yfir gáfum gáfumenna og viðkvæmum tilfinningum borgarastéttarinnar. Mér fannst verst hvað það voru fáir sem enduðu á því að fremja sjálfsmorð og voru það engu að síður þónokkrir. Óþolandi fólk. Og lélegur texti.


Eftir að hafa horft á alla Hamlettanna um daginn með leikurum á öllum aldri – og eftir umræðu sem ég hef rekið mig á um aldur aðalleikarans í „netflix-seríu augnabliksins“, Ripley – þá fannst mér líka áhugavert að sjá Ingrid Bergman leika konu sem átti svo augljóslega að vera miklu yngri. Ég sló því upp áðan og Hedda var skrifuð 29 ára en Ingrid lék hana 48 ára. Það var reyndar ekki jafn truflandi og að sjá 41 árs Laurence Olivier leika þrítugan Hamlet – sennilega af því leikkonan sem lék mömmu hans var sjálf ekki nema þrítug. Tom Ripley á vel að merkja að vera 25 ára en er leikinn af 47 ára manni. Mér finnst reyndar vandræðalaust að aldra þann karakter. Annað en með Heddu og Hamlet þá er ekki þessi unglingslegi vanþroski lykilþáttur í persónuleika hans – þeirri tegund vanþroska fylgir mikill kraftur og sjarmi í ungu fallegu fólki, og hann getur gert að verkum að það kemst upp með ýmislegt sem það kæmist ekki upp með síðar (eftir einhvern tiltekinn aldur hættir fólk að komast upp með að „lofa góðu“ og samfélagið hættir að gúddera hortugheitin í þeim sem sæt).


***


Svar: Það þarf skáld til að skipta um

// ljósar perur.


***


Ég dragnast í gegnum múrsteininn hans Richards Ellmans um Joyce. Þetta er feikna áhugavert og brjálæðislega vel gert – en líka rosalega ítarlegt og stundum ber túlkunargleðin sérfræðinginn ofurliði. Ég er að fara til Napóli eftir tvær vikur og ætlaði að endurlesa The Skin eftir Curzio Malaparte fyrir ferðina og jafnvel frumlesa líka Gomorrah eftir Roberto Saviano en það er spurning hvort það verður nokkuð af því. Ég er líka að fara til Grikklands eftir viku og læt duga að vera nýbúinn að lesa Odysseif! Annars fór ég í bókabúð í Aþenu í fyrra og lét mæla með fyrir mig The Flaw eftir Antonis Samarakis – sem er einsog Kafka hittir Chandler hittir .... segjum bara Schnitzler. Kannski fer ég í einhverja álíka meðmælaferð í Skopelos.


Ellmann er augljóslega – einsog ævisagnahöfundar þurfa áreiðanlega oftast að vera – frekar mikið í „ævisögulegu aðferðinni“. Hann leitar fyrirmynda í lífi Joyce að öllu sem hann hefur skrifað og rekur hvernig ólíkar persónur séu samansettar úr t.d. pabba hans, honum sjálfum, einhverjum vini o.s.frv. Joyce skrifaði auðvitað talsvert um „sjálfan sig“ – sérstaklega undir heitinu Stephen Dedalus – og svo er frægustu bókmenntafræðiskrif hans sjálfs ræða Dedalusar um hver sé fyrirmynd Hamlets, þar sem fram kom að Shakespeare væri draugurinn, faðir Hamlets, og raunar sem skapari/faðir draugsins líka afi Hamlets. En þá ber auðvitað að hafa í huga að þá ræðu flutti ekki Joyce (þótt hann hafi sagt eitthvað líkt sjálfur) heldur staðgengill hans Dedalus. Og vegna þess að Joyce skrifaði þetta er líka freistandi að skoða „föðurinn“ í Ulysses, Leopold Bloom, sem hinn eiginlega Joyce-staðgengil bókarinnar – og það má sannarlega finna hellings mikið af sjálfsævisögulegum smáatriðum til þess að ýta undir þá kenningu (Joyce og Nora sváfu til dæmis andfætis einsog Leopold og Molly). Ef Joyce er þá Bloom er hann líka skapari/faðir Blooms og þar með afi Dedalusar! Sem er hann sjálfur!


Og svo er auðvitað forvitnilegt að Leopold skuli ekki heita Ulysses – Stephen, sem smíðar sér vængi og flýgur burt frá Dublin, fær að heita Dedalus. Hver er þá Ulysses?


Og auðvitað er þetta meðal þess sem Joyce dregur fram í lesendum sínum – löngun til þess að uppgötva einhverjar tengingar (sennilega er engin kenning um Joyce lengur ný, en það er gaman að hugsa sig fram til einhvers sem maður vissi ekki sjálfur um áður). Ellmann er sem sagt vorkunn.


***


Ljóðskáld, ljóðmælandi og plús-x komu inn á bar.


***


Menningarstríðin halda áfram. Einu sinni var Eurovision ein til tvær kvöldstundir yfir sjónvarpinu. Nú eru ótal undankeppnir, símakosningar og símakosningasvindl, blogg og youtuberásir, sérstakir sjónvarpsþættir um undankeppnirnar í öllum hinum löndunum og nú síðast siðferðislegt sprengjusvæði. Fokkins Eurovision.


Það er líka allt á hvolfi í Svíþjóð út af nýjum lögum um kynskráningu. Lágmarksaldur til þess að sækja um breytingu á kynskráningu var í dag færður niður í 16 ár – en foreldrar þurfa samt að sækja um. Hitt skiptir sennilega meiru að fólk þarf ekki lengur að vera með greindan kynama til þess að fá að breyta kynskráningu heldur á nú að duga stutt læknisskoðun. Lögin á Íslandi eru vel að merkja þannig að allir yfir 15 ára aldri geta sótt um breytta kynskráningu án nokkurra hindrana og foreldrar barna undir 15 ára geta sótt um fyrir viðkomandi. Þeir sem eru yfir 18 ára geta bara sótt um breytta kynskráningu einu sinni. Einhvern tíma voru Svíar nú mest líberal í þessum efnum.



natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page