top of page

Untitled

Það er góður vani að byrja hvern vinnudag á því að skrifa nokkrar línur í dagbókina sína. Nú er klukkan orðin hálffjögur á þriðjudegi og ég hef ekki skrifað staf hér inn í rúma viku. Samt hefur vinnan gengið vel og lífsnautnin jafnvel enn betur. Ég hef farið í göngutúr í Skálavík og keyrt kræklóttann fjallastíg upp á Bolafjall í svartaþoku, rennt mér í vatnsrennibrautum og hangið í heitum pottum, barist við kríur á Þuríðarbraut, haldið stóra plokkfiskveislu fyrir vini og kunningja, bröns fyrir bróður minn og fjölskyldu, farið á Ríkharð III á Suðureyri, spjallað við Gerði Kristnýju á dyraþrepinu hjá mér, lært að spila sólóið í Nightrain með Guns N’Roses, lesið ljóð Daivu Cepauskaitu, farið út að hlaupa, gert jóga, eldað pizzur ofan í tvær barnafjölskyldur, unnið í Ljóðum um samfélagsleg málefni, þýðingunni á Vitsvit eftir Athenu Farrokhzad, endurreist Starafugl og hjólað út í Hnífsdal. Já og svo fór ég til læknis sem lét athuga í mér blóðið og ég er mjög hress, nema honum finnst ég ekki drekka nóg. Samt var ég með snert af þynnku í blóðprufunni – eftir plokkfiskveisluna kvöldið áður. En nú er best ég hætti svo ég hafi frá einhverju að segja á morgun líka.

natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page