top of page

Untitled

Það má skipta fagurbókmenntum gróflega niður í vitnisburði og skáldskap.

Vinkona mín, erlent ljóðskáld sem skrifar vitnisburði, sagði við mig á dögunum að hún skildi ekki hvers vegna nokkur fengist við skáldskap. Til hvers að búa til sögur um fólk sem er ekki til, framleiða sársauka, tráma, húmor og örlög sem þurftu ekki að vera til í heiminum? Einsog við eigum ekki nóg með þann harm sem er þarna fyrir?

Ég er (augljóslega) ekki sammála henni og sagði það við hana en ég er ekki viss um að ég geti formúlerað nákvæmlega hvers vegna ég er ekki sammála henni – hvers vegna mér finnst skáldskapur mikilvægur. Ekki án þess að gera lítið úr vitnisburðinum sem bókmenntaformi og það langar mig ekki. Hann er pólitískt mikilvægur og hann getur verið góðar bókmenntir en skákar oft í skjóli þess að vera „sannur“ og fær þannig afslátt af þeirri uppljómun sem mér finnst að verði að finnast í skáldskap. Dramað verður kraftmikið en það verður líka anekdótal frekar en greinandi – einstakar upplifanir hafa ekki endilega sömu almennu skírskotun og frásögn sem er sköpuð til þess að vísa út í heiminn – og það missir algerlega gildi sitt ef það reynist uppdiktað. Sagan er ekki nóg, hún sem slík er merkingarsnauð.

Vitnisburðarbókmenntir úrkynjast líka oft í eins konar keppni í því hver hafi orðið fyrir mestum sársauka og hvers reynsla sé í krafti þessa sársauka merkingarbærust. Hér gildir það sama og í blaðamennsku – besta blaðamennskan er ekki endilega sú sem birtir mestan sársauka á forsíðu (eða sú sem fær mest klikkz).

Sannar sögur mega, einsog frægt er, vera ótrúlegri en skáldskapur. „Ef þetta hefði ekki gerst væri það lygilegt (og þú trúir því aldrei hvað gerðist svo)“. Kvikmynd um mann sem lendir fyrst í því að ljón étur á honum hægri fótinn, svo sagar hann óvart af sér vinstri fótinn, fær drep í hægri handlegginn og lamast í þeim vinstri, bítur af sér tunguna og festir liminn í músagildru þykir yfirdrifinn skáldskapur (sem ég reyndar fíla). En ef okkur er sagt að sagan sé sönn öðlast hún eitthvað X-gildi; við myndum aldrei gera lítið úr sársauka mannsins með því að segja að saga hans sé ósannfærandi, yfirdrifinn eða ýkt. Meðal annars þess vegna eru mýmörg dæmi um fólk sem hefur skrifað ótrúlegar sögur og haldið því ranglega fram að þær séu sannar – þeirri fullyrðingu fylgir mikið átorítet. Sennilega er að minnsta kosti ein gróf lygasaga í hverri einustu ævisögu og furðu margar eru uppspuni frá rótum.

Við segjum sannar sögur, af okkur sjálfum og öðrum, vegna þess að við viljum bera vitni um lífið í öllum sínum fjölbreytileika – en við skáldum sögur af ímynduðu fólki (sem byggjast stundum mismikið á raunverulegu fólki, án þess að eiga neinum skyldum við raunveruleikann að gegna) til þess að skilja heiminn og greina hann og varpa upp hugmyndum okkar um eðli hans. Þetta eru óljósari þarfir og óljósari greining – og það er þess vegna sem sagt er um skáldsögur, einsog mörg listaverk, að þær varpi frekar fram spurningum en þær svari þeim.

Ég held hins vegar að góður skáldskapur vinni nokkurn bug á harmi heimsins og sé færari um það en vitnisburður – þótt á því séu augljóslega undantekningar og fari eftir bæði skáldskap og vitnisburði. En sem sagt, að öðru jöfnu.

Sama vinkona og ég nefndi hér efst svaraði því reyndar líka til að hún vildi nota bókmenntirnar til þess að leita svara – og þegar ég spurði hvort hún hefði nokkurn tíma fundið einhver svör sagði hún að ef hún fengi svör myndi hún hætta að skrifa, þá væri hún komin í mark. Ég á betra með að vera sammála þessu.

Skáldskapur er rannsókn án niðurstöðu – og hugsanlega vill maður ekki einu sinni finna svörin. Kannski vegna þess að þau snúast of mikið um hin hinstu rök og það er jafn mikil messíasarsturlun að telja sig færan um að svara slíkum spurningum og það er mannlegt að velta þeim upp.

Sennilega myndi maður líka drepa skáldskapinn með því að svara spurningum hans, svíkja lesandann og sjálfan sig – svíkja bókina um ævintýrið sem fylgir því að lesa hana.

Eitt af vandamálum vitnisburðarins er líka hugmyndin um hann sem einfaldan og óbrigðulan sannleika – þegar staðreyndin er sú að segi ólíkir aðilar sögu af sama viðburði birtist okkur tveir ólíkir sannleikar, og þarf ekki til að þá greini um nein veigamikil atriði eða frásögnin sé trámatísk. Perspektíf eins er einfaldlega ekki perspektíf annars. Í öllum þeim lýsingum sem ég las á sínum tíma um atburðina í Jurbarkas 1941 ber fólki ekki saman um nema allra grófustu útlínur – og það sama gildir raunar um vitnisburði trans- og intersexfólks sem ég las vegna Hans Blævar. Auðvitað á fólk sem gengur í gegnum áþekka hluti margt sameiginlegt en upplifun þeirra og perspektíf eru ekki almenn heldur fyrst og fremst sértæk. Einsog segir í Talmúð þá sjáum við ekki heiminn einsog hann er, heldur einsog við erum.

Recent Posts

See All

Untitled

Lommi var að skamma mig fyrir að blogga ekki lengur á mánudögum. Hann er ekki á Facebook – þar sem ég er fram að jólum til að „vekja athygli á bókinni“. En það þýðir ekki að ég megi vanrækja lesandann

Untitled

Það sló mig fyrir helgi að það væri engin stemning fyrir þessu jólabókaflóði – ekki í kringum mig að minnsta kosti. Það hefur enginn mælt persónulega með einni einustu nýrri bók við mig og ég heyri en

natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page