top of page

Untitled

Það sló mig fyrir helgi að það væri engin stemning fyrir þessu jólabókaflóði – ekki í kringum mig að minnsta kosti. Það hefur enginn mælt persónulega með einni einustu nýrri bók við mig og ég heyri engan hallmæla neinum bókum og heyri bara almennt enga velta því fyrir sér hvort það sé eitthvað sem maður verði að lesa og hvort það sé eitthvað sem maður ætti að forðast og ég heyri engan spyrja annan hvað hann eða hún eða hán hafi lesið eða fyrir hverju hann eða hún eða hán sé spennt. Og ég fór að velta því fyrir mér hvort það væri vegna þess að það birtast svo fáir dómar og hvernig maður eiginlega viðhaldi spenningi. Ég held það sé ekkert að bókunum sem eru að koma út – sannarlega margir fyrirtaks höfundar.

Ég var að lesa How Music Works eftir David Byrne – hún er mjög góð, sérstaklega fyrri helmingurinn – og hann eyðir góðum skerfi í að velta fyrir sér þessu hvernig maður byggi tónlistarsenu, hvers sé þörf. Aðalatriðið er að eiga sér einhvers konar senu – steinsteypu – félagsmiðstöð. Stað þar sem hægt sé að hanga, hvert maður getur farið og búist við að hitta kunningja sína og sjá eitthvað áhugavert. Fyrir hann og hans kynslóð var þetta CBGB. Það var ekki nóg með að þar væri auðsótt að fá að spila heldur gat maður skrapað saman smápeningum fyrir spilamennskuna – hljómsveitin fékk aðgangseyrinn, sem var að sönnu ekki hár, og hljómsveitir sem höfðust við á CBGB fengu frítt inn hver hjá annarri (það var húsregla) sem þýddi að það var alltaf talsvert af fólki. Og staðurinn reyndar mjög lítill líka. Efnahagslegar forsendur voru síðan þannig að allt þurfti að vera ódýrt – hljómsveitir bjuggu saman á Bowery, þar sem leigan var lág og lifðu á litlu, og fóru ekki endilega mikið út fyrir hverfið (og þá helst út úr borginni til að spila annars staðar).

Tónlistarmennirnir á CBGB voru svo, að sögn Byrne, afar ólíkir innbyrðis en áttu það þó sameiginlegt að skilgreina sig sem „eitthvað annað“ en það sem þótti gjaldgengt og fínt víðast hvar. Þeir voru óvinsælir, prinsippfastir, sérsinna og erfiðir og fyrst og fremst voru þeir EKKI það sem var í útvarpinu.

Ég veit ekki hvernig maður yfirfærir þetta á bókmenntirnar nema til að nefna að eigi þær – eða bókmenningin, réttara sagt – að blómstra þarf að vera samfélag og helst fleira en eitt samfélag og eitthvað af aukasamfélögunum þarf að skilgreina sig í andstöðu. Sú litla andstaða eða núningur sem verið hefur í íslenskum bókmenntum síðustu misserin snýst um einhvern tittlingaskít milli ungskálda – strætóskálda og spíttskálda. Miðjan er alltaf eins – það eru enn sömu höfundar í brennidepli og þegar ég var ungskáld (með kannski stöku undantekningu(m)).

En verst er samt alltaf rýnin. Þegar Starafugl var settur á fót fyrir tæpum fimm árum síðan var tekin sú ákvörðun að leggja enga sérstaka áherslu á nýjar íslenskar skáldsögur – vegna þess að vistkerfi þeirra þótti bærilega hresst. Við lögðum og leggjum áherslu á þýddar skáldsögur, gamlar skáldsögur o.s.frv. (þótt að vísu sér erfiðara að koma þeim út). En svo er einsog þetta hafi snarversnað. Nú birtist bara frekar lítið af rýni í dagblöðunum; Víðsjá rýnir bara í eina og eina bók, Bók vikunnar er venjulega gömul bók – það er helst að bókmenntavefur Borgarbókasafnsins sinni þessu af einhverju viti. Fyrir utan auðvitað Kiljuna með sínum augljósu tímatakmörkunum og spjallformatti.

Þetta smitar síðan út frá sér. Ég ætla ekki að halda því fram að það sé engin stemning á svæðinu í kringum Laugaveg 18 – það hlýtur eiginlega að vera, endalaus útgáfuhóf og hittingar – en við sem ekki þrömmum þar á milli finnum lítið fyrir því.

Það er sosum ágætt að gera ráð fyrir líka að maður sé bara í einhverri bólu og verði ekki jafn var við heiminn og maður ætti að verða. Eða þetta sé bara allt orðið svo kunnuglegt að maður taki ekki eftir neinu. Maður sé lífsleiður af miðöldrun.

***

En ég ætlaði reyndar ekki að fara að röfla þetta. Sennilega ræður maður ekkert við sig. Óþolið og óþolinmæðin að drepa mann. Það er nærri því mánuður frá því Hans Blær kom út og ég hef ekki heyrt píp. Viðbrögðin eru nær bókstaflega engin. Það sem ég ætlaði að gera var að nefna hvað ég hef lesið og fyrir hverju ég er spenntur og reyna að peppa mig svolítið upp. Ég er búinn að lesa ljóðabók Hauks Ingvarssonar, Vistarverur, og skáldsögu Þórdísar Gísladóttur, Horfið ekki í ljósið. Þær eru báðar mjög góðar og meðmælast hart. Ég er spenntur fyrir Fríðu Ísberg, Friðgeiri Einarssyni og Jónasi Reyni og báðum dætrum Einars Kárasonar, Júlíu Margréti og Kamillu, og raunar Einari líka sem ég sleppti þegar hún kom út í vor. Eða missti af. Eða hvað maður segir um bækur sem maður les ekki. Já og Offa og Auði og Þórdísi Helga og Halldóru og Rúnari Helga, sem er að skrifa um Ísafjörð.

Einu sinni gerði ég mér alltaf far um að lesa slatta – alla helstu póstana og meira – í jólabókaflóðinu til að vera viðræðuhæfur. Svo man ég eftir að finnast það bara íþyngjandi, eitthvert árið, að þurfa að lesa þetta allt og þar með taldar alls konar bækur sem mér fannst í raun ekkert skemmtilegar, bara af því allir aðrir voru að lesa þær og vilji maður vera með þarf maður að lesa það sem hinir eru að lesa (og hinir eru svo kannski bara að lesa bækurnar vegna þess að maður er sjálfur að lesa þær). Í nokkur ár hef ég meira og minna alveg skrópað í jólabókaflóðinu – meira að segja bækur vina minna hef ég ekki lesið fyrren kannski „ári of seint“ (þetta jólabókaflóðsskróp mitt var kannski líka hljóðlát mótmæli við þeim lífsins gangi að bækur séu marklausar og horfnar frá og með nýársdegi).

En nú ætla ég sem sagt að taka mig taki og fara að lesa jólabókaflóðið – en reyna að takmarka mig við þær bækur sem ég hef raunverulegan áhuga á, þótt það kannski þýði ekki að ég verði viðræðuhæfur. Ég verð þá bara að vera óviðræðuhæfur. En ég verð allavega rosa vel stemmdur og í góðum fíling.

16 views0 comments

Recent Posts

See All

Lommi var að skamma mig fyrir að blogga ekki lengur á mánudögum. Hann er ekki á Facebook – þar sem ég er fram að jólum til að „vekja athygli á bókinni“. En það þýðir ekki að ég megi vanrækja lesandann

By this stage of reflection, it seems that, for Aristotle, the value of our reflection on the best life is that it induces a kind of being-unto-death. It creates a fantasy of a release from the ordina

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page