Untitled

Lommi var að skamma mig fyrir að blogga ekki lengur á mánudögum. Hann er ekki á Facebook – þar sem ég er fram að jólum til að „vekja athygli á bókinni“. En það þýðir ekki að ég megi vanrækja lesandann minn.

Ég er í Malmö. Les upp á Inkonst í kvöld, úr Óratorrek/Oralorium, og svo er útgáfuhóf á morgun. Ég gisti hjá vinum mínum Alex og Josef og við Alex drukkum kannski aðeins meira viskí í gær en góðu hófi gegnir og ég hef verið dálítið einsog draugur á ráfi um borgina í dag. Hugmyndin var að ná að leysa síðustu jólagjafagáturnar en þær eru enn óleystar og ég þarf að fara að gíra mig upp í kvöldið.

Ég segi ekki að ég sé alveg skilinn við jólabókaflóðið, það eru nokkrir dagar eftir, en ég er allavega ekki að fara að lesa neitt meira upp. Ég er búinn að fá ágætis dóma í Fréttablaðinu, Víðsjá og Mogganum – á miðvikudag er síðasti séns til að fá umsögn í Kiljunni fyrir jól. Annað er sennilega ekki í boði – DV birtir að vísu einstaka dóm – og jú svo er eitt og annað sem gerist á samfélagsmiðlum. Skáld.is birtir bara dóma um bækur kvenna, Starafugl birtir sennilega ekki neina dóma um mínar bækur (en það er að vísu alveg úr mínum höndum – ég kem hvergi nálægt skáldsagnadómum), Stundin er ekki með neitt bókablað einsog hefur stundum verið, Kvennablaðið hefur engan dóm birt – jú, það gæti reyndar birst dómur á Bókmenntavefnum, þar hefur verið gott tempó síðustu vikurnar. Þar birtist líka langáhugaverðasti dómurinn um Illsku á sínum tíma og bara einn besti dómur sem sú bók hefur fengið – á löngu ferðalagi til margra landa. En almennt hallar undan fæti í gagnrýni og hefur gert lengi – það eru ekki nema örfáir sem sinna henni einsog fagi og með því hverfur hin krítíska vídd úr bókmenntunum og eftir situr metsölulista-idolið sem helsti mælikvarðinn á virði bóka.

Í dag er reyndar „recensionsdag“ fyrir Óratorrek í Svíþjóð en það er sennilega liðin tíð að maður fái fullt af dómum þann dag. Sérstaklega fyrir ljóðabók. En ég fékk einn mjög fínan dóm í tímariti Bókasafnsfræðinga í síðustu viku og áttaði mig þá á að sennilega fékk ég bara aldrei neinn eiginlegan dóm um Óratorrek á Íslandi. Hún var valin meðal bóka ársins á Rás 2 og fékk svo Menningarverðlaun DV – svo það eru til stuttar umsagnir/lýsingar í tengslum við það, en ég held ég muni það rétt að hún hafi bara ekki verið ritdæmd. Það er rosa skrítið – og stór breyting frá því ég gaf út Heimsendapestir, alls óþekktur 24 ára lúði frá Ísafirði, og fékk 5-6 umsagnir í öllum helstu blöðum og í útvarpi.

Það var líka skrítið að bíða eftir að fá einhvern dóm fyrir Hans Blævi. Ég held það hafi tekið sjö vikur – svo duttu þeir inn þrír í röð. Það var hreinlega mjög óþægilegt, fannst mér. Ég lýsti því einhvern veginn þannig við Nödju að fyrst hefði mér liðið einsog vonbiðli sem fær ekki svar – óskabrúðurin hefði brugðið sér á klósettið og ég stæði fyrir utan vikum saman og  væri farið að gruna að hún hefði bara flúið út um gluggann. Undir restina var þetta svo farið að vera meira einsog að vakna eftir epískt blakkát, fjölskyldan öll fjarverandi, og undarleg þögn alls staðar – enginn svarar í síma – og maður bíður þess bara að fá fregnir af því hvað maður hafi gert af sér kvöldið áður.

Dómarnir eiga það allir sameiginlegt annars að vera bærilega jákvæðir en bera þess merki að gagnrýnendur hafa þurft að slást svolítið við bókina og þær spurningar sem hún vekur. Ég get ekki kvartað undan því – ég held það sé bara alveg sanngjarnt mat og sennilega þarf hún, einsog Gauti Kristmanns bendir á í Víðsjárdómnum, svolítinn tíma til að setjast – meira rými en gefst í einu svona sölukapphlaupi einsog jólabókaflóðinu.

Þegar við Öddi tókum upp hljóðbókina sagði ég við hann að ég væri nógu ánægður með verkið til þess að það skipti mig eiginlega engu hverjar viðtökurnar væru. Það er auðvitað ekki alveg satt – mér fannst erfitt að fá litlar sem engar viðtökur þarna fyrst og þykir mjög vænt um að hún sé farin af stað. Og einhver hluti af mér tekur alltaf mark á því hver almennur dómur sé og jafnvel skilningssljóustu gagnrýni – bókmenntir eru samskiptaform og það skiptir ekki bara máli hvað maður segir, það þarf líka að komast til skila og skiljast. En ég er líka aftur lentur á þessum sama stað og þegar bókin var að koma út – að vera bara rosa ánægður með sjálfan mig og verkið og sannfærður um að það muni njóta sannmælis þegar það er skoðað almennilega.

En þetta er þá síðasta færslan sem er merkt Hans Blævi, held ég – a.m.k. í bili. Ég var eitthvað að hóta því að breyta þessu í gítarblogg á nýju ári – jafnvel bara milli jóla og nýárs ef ég verð eitthvað eirðarlaus.

Við eyðum jólunum í smábænum Rejmyre hjá systur Nödju og verðum svo í Helsinki um áramót. Minnir að flugið heim sé svo 4. janúar og við komumst vonandi fljótt vestur.

11 views0 comments

Recent Posts

See All

Það sló mig fyrir helgi að það væri engin stemning fyrir þessu jólabókaflóði – ekki í kringum mig að minnsta kosti. Það hefur enginn mælt persónulega með einni einustu nýrri bók við mig og ég heyri en

By this stage of reflection, it seems that, for Aristotle, the value of our reflection on the best life is that it induces a kind of being-unto-death. It creates a fantasy of a release from the ordina

Það er ekki mánudagur, einsog þið hafið tekið eftir, en ég var vant við látinn á mánudaginn og gat ekki skrifað neitt – Starafugl gekk fyrir þær fáu fríu mínútur sem ég átti. *** Nefndi ég það ekki ei

Einlægur Önd_edited.png