top of page

Sól, Stund, sund og sjómenn


Það styttist óðum í að sólargeislarnir nái niður í bæ. Tæp vika áður en það getur tæknilega gerst. Áður en til þess kemur mun ég reyndar halda suður á bóginn í sumarbústaðarferð. Eða vetrarbústaðarferð. Ef heppnin er með okkur munum við njóta sólar í þeirri ferð. Svo þegar við komum til baka bökum við pönnukökur (25. jan.) og drekkum kaffi. Það er eini dagurinn á árinu sem ég baka pönnukökur – annars sér Nadja um það og gerir oft.


Stundum hefur reyndar verið skýjað í lengri tíma eftir sólardaginn. Þá sér maður enga sól. Stundum er bara vitlaust veður, dag eftir dag.


Ég er langt kominn með fyrstu Stund þessa vefmiðlalausa lífs. Þetta er svolítið einhæft, sérstaklega fyrri hluti blaðsins – persónulegur harmur og fjármálavafningar. Og sumt af því er bara þegar orðið frekar gamalt þegar blaðið kemur út – það var alveg ástæða til að kovera Vitalíumálið en það er einsog það hafi gleymst að finna einhvern vinkil á það annan en að mylja bara ofan í mann tíu daga gamla fréttapunkta. Kannski er þetta grein sem birtist strax á netinu. En staðreyndir hætta hratt að vera fréttnæmar. Myndlistarumfjöllun Hillbillysystra bjargar svo blaðinu. Illugi átti líka góðan sprett – þótt ég hefði gjarnan viljað fá einhverjar heimildir um að fólk hafi beinlínis viljað að sjómenn væru ósyndir svo þeir kveldust skemur í hafinu. Það er nógu ankannaleg hugmynd til að bera sig illa sem heimildalaus endursögn – maður hváir ósjálfrátt. Og veltir fyrir sér hvenær nákvæmlega fólk hafi verið þessa sinnis. Kannski missti ég bara af því samt.


Ég hraðfletti síðunum sem ég á eftir til að athuga hvað væri í vændum og mér sýnist að það sé ljósmyndaumfjöllun, tónlistarumfjöllun og kannski meiri menning en engar bókmenntir (einsog ég hafði sosum reiknað með).

Þessir ísfirsku sjómenn fóru allir á sundnámskeið, sennilega er myndin tekin seint á þriðja áratugnum.

natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page