top of page

Sófa só gúdd

Ég ímynda mér að þið hafið margt betra við tíma ykkar að gera en að hlusta á raunir mínar við að finna nýjan mogga – jafnvel „mogga dagsins“ – og hlífi ykkur því við þeim ævintýrum mínum í dag. Nægir að nefna að ég hef enn ekki komist yfir nýjan mogga og er búinn að lesa þann síðasta (4. jan.) í drep.


Það berst margt annað til Ísafjarðar, þótt mogginn komi ekki. Til dæmis fékk ég lítið fjöltengi frá Elko í fyrradag, sama dag og stjórnarformaður móðurfélags Elko sagði af sér vegna ásakana um kynferðisofbeldi í heitum potti. Daginn eftir pantaði ég RCA-snúru frá sama fyrirtæki en get ekki borið fyrir mig að þá hafi ég ekki vitað af málinu. Sú snúra er reyndar ekki komin. Sem er bót í máli.


Aino Magnea sést hér ívið rólegri en hún var á gamlárskvöld; Aino velur að horfa á lítinn skjá en hafa hann nálægt sér.

Það allra stærsta til að berast hingað – að minnsta kosti á okkar vegum – var þessi sófi. Þetta er 80 rassa tryllitæki – jafn ljótur og gömlu sófarnir okkar voru fallegir, jafn praktískur og þægilegur og hinir voru ópraktískir. Þeir voru gamlir íslenskir sófar úr trésmiðjunni Víði sem ég þurfti að gera við einu sinni á ári. Mér fannst þeir alls ekkert óþægilegir en það fannst sumum öðrum og þegar annar þeirra brotnaði undan hoppandi sykurdrukknum börnum í áramótaveislu ákváðum við Nadja að nú væri komið gott – við myndum eyða aleigunni í nýjan þolgóðan og þægilegan sófa við fyrsta tækifæri.


Ferlíkið kom í þremur einingum. Það þurfti að fara með hann inn af pallinum. Og þótt hann væri í svona fáum einingum var nú merkilega mikið moj að setja á hann fætur og festa hann saman. Það hafðist nú samt á endanum, rétt fyrir kvöldfréttirnar og voru þær nýttar til vígslu hans – enda er þetta þvottekta „sjónvarpssófi“.


Með svona stóran sófa í húsinu finnst manni svo alltíeinu sjónvarpið vera orðið pínulítið. Þannig vindur smáborgaralífið upp á sig, eitt skref í einu.

natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page