top of page

Skeyti úr stjörnuathugunarstöðinni


Ég var eitthvað að hreykja mér af því að hafa fengið fjögurra stjörnu dóm í bókablaði Stundarinnar þegar vinur minn settist niður og reiknaði út að meðalstjörnugjöfin í bókablaðinu hefði verið 4.125 stjörnur og Frankensleikir því tæknilega séð undir meðallagi góð bók. Þetta fannst mér kvikindislegt. En það stendur samt heima. Það eru fjórir fimm stjörnudómar í blaðinu og fimm fjögurrastjörnu (og tveir þriggja og einn þriggja hálfrar). Fjögurra stjörnu dómur er samt fjögurra stjörnu dómur, segi ég. Það eina sem er meira en fjórar stjörnur eru fimm stjörnur og fimm stjörnur er hugbreytandi meistaraverk. Og hananú.


Ég fór samt í kjölfarið að velta því fyrir mér hvort fólk hugsaði almennt um þessa stjörnugjöf sem einhvern fasta – einsog einkunn á krossaprófi – eða sem eitthvað innbyrðis afstætt. Ef maður hugsar um stjörnugjöfina sem fasta byrja allar bækur með fimm stjörnur og fá frádregið fyrir galla. Eða byrja á núlli og hafa möguleika á x mörgum plúsum. Þá er t.d. tæknilega mögulegt að allar bækur fái bara fimm stjörnur – því þær séu allar fimm stjörnubækur. Allar með fullt hús.


Ef maður hins vegar hugsar um stjörnugjöf sem afstæða þá gæti ritdómari (eða ritstjóri hóps ritdómara) ákveðið að besta bók ársins eigi að fá fimm stjörnur og sú versta eina (eða hauskúpu!) og allar aðrar bækur eigi að fá eitthvað þar á milli. Þá getur frábær bók tæknilega séð fengið eina stjörnu ef allar hinar bækurnar voru ennþá frábærari. Og hræðileg bók fengið fimm stjörnur ef allar hinar voru verri.


Svo er reyndar líka hægt að hugsa um þetta menningarpólitískt og þá getur maður hafa séð að einhver bók sem maður fílaði ekki fékk fjórar stjörnur og viljað að aðrar bækur fái þá meira – af því maður vill breyta landslaginu og hírarkíunni, krýna nýjan konung/drottningu.


Ég hef aldrei „þurft“ að gefa stjörnur þótt ég hafi skrifað rýni víða. Ekki það ég muni a.m.k. Sennilega er það mest tilviljun. En fyrir nokkrum árum skráði ég mig inn á Goodreads (sem ég nota reyndar eiginlega ekkert – ég held að kindillinn minn sé enn stilltur þannig að bækur sem ég les á honum fari þar inn, en það er allt og sumt). Og þá settist ég niður og gaf ábyggilega 200 bókum stjörnur á svona hálftíma. Þá miðaði ég ískalt við að það yrði að vera eitthvert innra samræmi. Ég gaf fimm bókum fimm stjörnur. Sæmundareddu, Glæp og refsingu, Tender Buttons, East of Eden og The World According to Garp. Ég hef sennilega verið nýbúinn að lesa þá síðastnefndu og myndi ekki gefa henni fimm stjörnur í dag. Ekki setja hana ofar en fjögurra stjörnu bækurnar Heimsljós, A Clockwork Orange eða Ariel. Ég veit ekki með East of Eden – hún er ein af bókunum mínum, ég fékk hana á heilann rétt eftir tvítugt og hugsaði um hana fram og aftur – las vinnudagbækur Steinbecks og ýmislegt fleira tengt henni – en það er langt síðan ég hef lesið hana og ég held hún sé melódramatísk og kannski ekki „mjög góð“ ef ég miða við fagurfræði mína í dag. En hún og Glæpur og refsing eru líka báðar um hið sama í kjarnann – að þótt maður hafi verið vondur, gert eitthvað vont, þá þurfi maður ekki að vera vondur. Að maður megi ekki skilgreina sig sem vondan eða leyfa öðrum að gera það – því þá gefist maður upp fyrir illskunni í sjálfum sér. Sá sem missi sjónar á því fagra og góða í sjálfum sér sé glataður. Þetta ættu að vera kunnuglegar pælingar – ekki bara fyrir þá sem lesa mínar eigin bækur heldur líka bara þá sem lesa þetta blogg. Þetta eru pælingar sem hafa mótað mig og ég vík mér ekkert undan því.


Í Danmörku leystu menn (tímabundið) þennan stjörnuvanda með því að bæta bara við einni stjörnu. Þar er hægt að gefa sex stjörnur. En auðvitað ætti ekki að vera neitt þak – sumar bækur eru virði allra stjarnanna í heiminum. Og sumar geta kannski aldrei fengið nógu fáar.


Ég á hins vegar bágt með að taka undir þegar fólk krefst þess (eða biður kurteislega) að stjörnugjöf sé felld niður – hún nefnir leysir annað atriði sem mér þykir mikilvægt, hún krefur gagnrýnandann um afstöðu til gæða bókarinnar. Margir gagnrýnendur vilja nefnilega víkja sér undan þeirri kröfu og segja bara eitthvað mjög almennt – eða láta sér duga að greina. En góður gagnrýnandi gerir allt í senn – lýsir, greinir og metur.

2 comments
natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page