top of page

Setið með valdinu


Sauli og Jenni eru víðförul, enda fylgir það starfinu. Sums staðar hljóta þau líka að verða vandræðaleg.

Ef einhver hefði varpað sprengju á Bessastaði í gær – sem ég mæli nú ekki með að neinn geri, sérstaklega ekki í gærkvöldi, og ekki bara vegna þess að það er orðið of seint – þá hefði enginn verið eftir til að stjórna íslensku samfélagi nema Bjarni Ben og Sólveig Anna. Annars voru allir þarna. Forseti, forsetafrú og forsætisráðherra, orkumálastjóri, Halldór Benjamín, Lóa Hjálmtýs, forstjóri Hafró, formenn stjórnmálaflokkanna, Gerður Kristný, allir helstu ráðherrar und so weiter. Auk auðvitað Saulis Niinistö og eiginkonu hans, Jenniar Haukio, og nokkurra finnskra herforingja. Svo missirinn hefði ekki bara verið á reikning íslenska þjóðveldisins heldur einnig hins finnska.


Hvað um það. Ég sat hjá æskuvini Hauks Ingvars, skólabróður Hjalta Kalla Geirmunds og eiginkonu trommarans í Örkuml. Og raunar fleirum, en á þessum borðsenda. Þið megið giska hver þetta voru en auk þeirra voru í salnum sonur hennar Aðalbjargar sem kenndi mér í sex ára bekk; eiginkona Kristjáns, fyrrverandi ritstjórans míns; dóttir Silju Aðalsteins, annars fyrrverandi ritstjóra míns, og systir Sigþrúðar, núverandi ritstjórans míns; faðir og stjúpa hennar Rutar sem ég kenndi ritlist; æskuvinkona Braga Páls; og svo skilst mér að mamma hans Tóta skáta hafi verið þarna einhvers staðar líka þótt ég hafi misst af henni. Og ótal aðrir. Saman borðuðum við minnstu þríréttuðu máltíð sem ég hef á ævi minni komist í. Grafinn þorsk í forrétt, steinbít í einhvers konar bláskeljafroðu í aðalrétt og svo eina matskeið af ís í eftirrétt. Með þessu fengum við þrjú vín – þar á meðal eitt châteauneuf-du-Pape, sem var eftirlætisvínið hans Frasiers, í samnefndum sjónvarpsþáttum. Allt mjög gott, en þegar ég var kominn aftur í bæinn, hungurmorða, fór ég á Subways og fékk mér ítalskan BMT í oreganobrauði með ólífum, salati, tómötum, rauðlauk og hunangssinnepi. Með þessu hafði ég gulan kristal. Svo glápti ég á eitthvað Netflixsorp fram á nótt.


Ég er ekki fastagestur á svona uppákomum. Kannski er þetta mest forvitnilegt þess vegna. Ætli fólk venjist þessu ekki? Mér sýndist stjórnmálamennirnir vera alþýðlegastir allra þarna. Húsvanir. Og kannski var alþýðufólkið upptrekktast. Eða – þeir sem eiga þannig bakgrunn, líklegast telst ekkert okkar, ekki einu sinni við láglaunalistamennirnir, vera alþýðufólk. Ekki þegar það er búið að bjóða okkur á Bessastaði. Sum okkar eru meira að segja farin að skreyta sig með orðum. Það er reyndar líka alltaf spurning, hvort það sé listamaðurinn sem skreyti sig með orðu embættisins, eða embættið sem skreyti sig með því að næla listamanninn fastan við sig.


En ég held maður þurfi að vera svolítið verseraður í efri lögum þjóðfélagsins til þess að verða ekki mjög sjálfsmeðvitaður í svona aðstæðum. Hræddur um að borða óvart með vitlausum gaffli. Sjálfur fór ég einu sinni á baðherbergið á meðan á borðhaldinu stóð og var mjög meðvitaður um að það gerði eiginlega enginn – fólk sat bara og pissaði svo þegar borðhaldið var yfirstaðið. Tilfinningin var ekki ósvipuð því læðast út úr leikhússal í miðri sýningu.


Það situr annars ýmislegt í mér eftir panelinn sem ég hef verið að melta. Kannski aðallega þetta tal alltaf um sögueyjuna og að á Íslandi gangi allir með bók í maganum og allir lesi og segi sögur og bókmenntirnar séu lifandi afl meðal fólksins o.s.frv. Ég get auðvitað ekki talað fyrir allar kreðsur en ég þekki mjög mikið af fólki sem lifir ekkert í skáldskap – les lítið og dytti aldrei í hug að skrifa neitt – og ég held að slíku fólki fjölgi frekar en hitt. Það eru ekki bara börn sem eru að verða verr og verr læs heldur líka og kannski ekki síður fullorðið fólk. Mér finnst bókmenntirnar – og þetta bókmenntatal – oft leysast upp í hálfgerð slagorð. Einsog í Reykjavík – Bókmenntaborg UNESCO – sem á ekki einu sinni bókmenntahús. Og á bráðum ekki einu sinni bókabíl heldur! Af því bókmenntirnar eru fínar til skrauts á meðan þær kosta sem allra minnst.

natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page