top of page

Refsing og umbun


Tugthúsið hans Hauks Más fékk fullt hús stiga í Kilju gærkvöldsins. Það var bæði algerlega viðbúið og ákaflega gleðilegt. Ég las þessa bók í handriti og hef fylgst með honum setja hana saman síðustu árin – þar fór saman gríðarleg vinna og ástríða, fagurfræðileg þrákelkni og meðlíðan með þjáðum og útskúfuðum.


Mér skilst að maður eigi ekki að hæla vinum sínum, það sé bara vandræðalegt, en ég hef samt sagt við alla sem ég þekki að þetta sé tímamótaverk. Það verður bara að hafa það þótt það sé vandræðalegt – það verður ekki minna satt fyrir það. Óvenjulegasta og kraftmesta bók þessa flóðs og væri það áfram þótt þú tækir með síðustu tíu. Og næstu tíu. Sá sem nær áramótum án þess að lesa hana verður brottrækur gjör úr samfélagi hugsandi fólks.


***


En ég er ekki marktækur.


Ég hef verið samferða Hauki í aldarfjórðung – síðan haustið 1998 þegar hann flutti vestur til að kenna í grunnskólanum – og oft liðið sem ég lifði eins konar bílífi á gáfum hans og ástríðu. Maður verður nefnilega betur gefinn af samneyti við hann.


Haukur birti fyrsta ljóðið mitt opinberlega – á vef sem hét NRTL (Nokkrar rafeindir tileinkaðar ljóðlistinni); við vorum saman í dúettnum Heyr & Endemi, fjölrituðum og heftuðum bækur hvors annars um nætur á lokuðum skrifstofum án leyfis og fórum með eintökin niður á Laugaveg þar sem við stóðum á gömlum ölkassa og skiptumst á að lesa upp meðan hinn seldi gangandi vegfarendum eintök. Við seldum engin ósköp – aldrei verið góðir sölumenn – en kannski nóg fyrir kaffi, bjór, sígó og vínarbrauði þann daginn. Og það var bara hellingur. Hellings djöfuls hellingur. Við stofnuðum Nýhil saman, eina kalda vetrarnótt á horni Túngötu og Hofsvallagötu yfir síðustu sígarettunni úr pakka annars hvors okkar. Bjuggum saman í Berlín og gerðum hvor annan vitlausan til skiptis – fengum útburðartilkynningu saman um vorið. Hann skrifaði formála að fyrstu ljóðabókinni minni, ég skrifaði formála að ritgerðarsafninu hans. Þegar hann brenndi ómögulegt handrit við opinn glugga á Prenzlauer Allée stóð ég yfir honum og hóstaði undan ljóðreyknum. Og útskýrði svo fyrir honum að ég ætti ekki bara rafrænt eintak af þessum ljóðum, sem hann hafði sent mér til yfirlesturs, heldur líka brenndan geisladisk með upplestrum hans á þeim. Og svo framvegis.


Ég hef lesið allt sem hann hefur skrifað og Tugthúsið er best. Og verst. Hræðilegust. Ólögulegust. Sárust. Fyndnust. Hún er þrekvirki sem verður ekki lýst almennilega með öðrum orðum en þeim sem í henni sjálfri standa – en hafið engar áhyggjur, hún lýsir sér mjög vel sjálf, kennir manni að lesa sig.


En þið getið ekki treyst mér, ég er ekki marktækur því ég myndi segja þetta hvort eð er. Haukur Már er fóstbróðir minn. En þetta er samt satt! Þau segja það líka í Kiljunni. Öll þrjú – Kolbrún, Egill og Þorgeir. Bubbi Morthens segir það. Kristín Ómarsdóttir segir það. Ef það dugar ykkur ekki – neyðist ég til þess að vísa málinu til Landsréttar. Og ef það er ekki nóg, sem það andskotakornið hlýtur að vera, þá legg ég fram mitt lokasönnunargagn, aðaltrompið – sjálfur fangelsismálastjóri hefur, í sjálfu Morgunblaðinu, sagt að þessi bók sé stórkostleg. „Lestur verksins fær lesanda til þess að velta fyrir sér eðli, tilgangi og inntaki refsinga og undirstrikar hve heimsins auðæfum er með ranglátum hætti misskipt og mannskepnan grimm og sjálfhverf.“ Sagði fangelsismálastjóri. Í Morgunblaðinu. Um Tugthúsið.


Ef það dugar ykkur ekki, þá var ykkur aldrei viðbjargandi til að byrja með.

natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page