top of page

Nú er mér svo gott sem öllum lokið

Ég ákvað snemma í haust að ég myndi binda enda á jólabókaflóðið þann 10. desember. Það er á morgun. Frá og með laugardegi verður jólabókaflóðið sem sagt bara að redda sér án mín. Þetta hlýtur að hafa spurst út á ritstjórnum landsins því nú hrannast dómarnir inn – ég fékk í Víðsjá og Kiljunni í gær og í Fréttablaðinu í morgun. Tveir afar jákvæðir (Kiljan og Fréttablaðið) og einn afar neikvæður (Víðsjá). Í öðrum þessum jákvæða kom reyndar fram að bókin væri „sennilega ekki allra“ – sem útskýrir sennilega þriðja dóminn. En Þorgeir og Kolbrún í Kiljunni sögðu reyndar að bókin væri furðu aðgengileg þrátt fyrir einhverjar bókmenntalegar pírúettur og stæla. Víðsjárdómurinn átti reyndar þessa fallegu línu, sem mér finnst endilega að verði að fá að komast á framfæri (enda lýsir hún bókinni ágætlega):

Undir lok bókarinnar erum við komin svo djúpt ofan í naflann á Eiríki Erni að ég er ekki viss um að við komumst nokkurn tímann út aftur.

Ég gæti átt von á einum dóm í viðbót strax á morgun – þá kemur Stundin og þau voru allavega að reyna að falast eftir mynd af mér í vikunni. Svo veit maður aldrei með bloggin.

Á morgun er síðan útgáfuhófið. Uppskeruveislan. Partíið. Það er langbest að gera það síðast. Þá fer maður ekki þunnur af stað í jólabókaflóðið. Mætir ekki skjálfandi, rjóður og þvalur í settið til Egils. Þess í stað er maður bara þunnur heima í sófa, treður í sig smákökum, íbúfeni og jólaöli.


Það verður mikið um dýrðir í þessu boði, sem verður haldið í Dokkunni klukkan 20.


Í fyrsta lagi verður auðvitað frír Dokkubjór (á meðan kúturinn endist). Áfengislaust fyrir þá sem það vilja. Og svo nóg af bjór (og áfengislausu) til sölu eftir það.

Í öðru lagi verða fríar baðendur (jafn margar og sóttvarnarlæknir leyfir af fólki).

Í þriðja lagi verður ritlistarleikur með upplestri og bókmenntabrennu.

Í fjórða lagi verða fjögur stutt tónlistaratriði – ég ætla að leika jólalag, Skúli frændi/mennski tekur eitt lag, einsog Andri Pétur/Gosi og Mugison mætir með nikkuna .

Í fimmta lagi verður bóksali á svæðinu og bæði Einlægur Önd og Brúin yfir Tangagötuna á tilboði.

Í sjötta lagi er rúsínan í pylsuendanum. „Hljómsveitin Bubbi Morthens“ leikur fyrir söngi. Í þessari sveit erum við Örn Elías (trommur), Skúli (gítar) og Rúna (bassi). Söngur verður í höndum (eða munnum) gesta.



natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page