top of page

Nóbelsgleði


Einu sinni var ég spurður af sænsku dagblaði hver ég vildi að fengi nóbelinn. Þetta var fyrir mörgum árum. Ég er yfirleitt frekar lost þegar ég fer í viðtöl, sérstaklega ef ég á að tala mikið um sjálfan mig eða sannfæra einhverja lesendur um að bókin sem einhver var að gefa út sé þess virði að maður lesi hana. Þá er ég oftast að leika sjálfan mig. Og í því ástandi á ég ekki gott með að hugsa, sérstaklega ef það kemur einhver u-beygja – einsog þetta var. Ég tafsaði eitthvað og svaraði svo að það gæti verið gaman ef Margaret Atwood fengi nóbelinn. Ég held það hafi í sjálfu sér verið alveg einlægt, þótt svarað hafi verið í óðagoti, en í dag kemur svarið mér samt á óvart – ég myndi ekki svara Margaret Atwood í dag og ekki bara vegna þess að ég held að það sé ósennilegt (þetta var alltaf spurning um annað hvort hana eða Alice Munro – ekki tvær kanadískar konur af sömu kynslóð). Hún væri ekki einu sinni ofarlega á persónulega listanum.


En hverjir væru þá á listanum? Auðvitað litast það af því hvað manni finnst líklegt – og svo litast það af því hverjir eru á veðlistunum, nema á hvolfi: ég reikna alltaf með því að þeir sem eru ofarlega á veðlistunum fái ekki verðlaunin. Þetta er í sjálfu sér misfrægt fólk sem fær nóbelinn – það var mikið sagt um Abdulrazak Gurnah í fyrra að hann væri „lítt þekktur“ en það fá engir „lítt þekktir“ höfundar nóbelsverðlaun. Þessir „lítt þekktu“ höfundar er fólk sem hefur verið þýtt á 40 tungumál og á helst góðan skerf ritsafnsins á sænsku, þótt það hafi ekki verið á veðlistunum. Stundum eru þau fornfræg og dálítið gleymd, stundum bara höfundar sem hafa mallað lengi og eru vinsælir í vissum kreðsum. Og stundum eru þau bara John Steinbeck – alþjóðlegir metsöluhöfundar (sem hefðu verið ofarlega á listum veðbanka) eða stórstjörnur einsog Bob Dylan.


Það takast á ólík sjónarmið í þessu. Fyrir mörgum eiga nóbelsverðlaunin að varpa ljósi á höfundarverk sem er vanmetið en samt stórkostlegt. Þannig geti heimsbyggðin í raun eignast nýjan stórhöfund, hvers staða er tryggð í framtíðinni að auki. Viðkomandi verður lesinn lengi lengi. Og bókaforlögin sem hafa haldið tryggð við fegurðina fremur en að eltast við sölubókmenntirnar fá góðan bónus í reksturinn. Það er í slíkum tilvikum sem Gurnaharnir fá þetta. Fyrir öðrum er mikilvægt að nóbelsverðlaunin séu ekki of elitísk – sem er auðvitað fyndið í ljósi þess að það er bókstaflega menningarelítan sem velur sigurvegarann, þetta eru verðlaun elítunnar. En sagt er að nóbelsverðlaunin glati mikilvægi sínu ef einungis „lítt þekktir“ höfundar hljóti þau – að pöpullinn (og tilvist pöpulsins er forsenda hverrar elítu) verði líka að fá sitt. Sem þýðir samt bara John Steinbeck/Bob Dylan – ekki instagram-ljóðskáldið sem fær flestu lækin. En meiningin er þá líka að ljóminn af Bob Dylönunum skíni svolítið á Gurnahana.


Ætli Murakami sé ekki últimat pöpulskandídatinn? Eða Atwood? Stephen King? Þegar ég lít á veðlistann sé ég að fyrir tíu dögum var Javíer Marías enn á honum – hann dó fyrir mánuði síðan. Hilary Mantel líka – sem dó fjórum dögum áður en listinn var gerður. Houellebecq og Rushdie eru ofarlega og báðir á lífi. Ngugi Wa Thiong'o er þarna og stjarna hans hefur farið rísandi síðustu árin. Ko Un er enn á listanum en hefur lækkað mikið frá því fjöldi kvenna sakaði hann um óviðeigandi hegðun fyrir nokkrum árum.


En hver vill maður – vil ég – að fái nóbelsverðlaunin? Yfirleitt svara ég því til að ég vilji auðvitað helst kynnast einhverjum nýjum höfundi – en það er svona hæverska svarið mitt. Og nei, mikilmennskusvarið mitt er ekki að auðvitað vilji ég sjálfur fá nóbelsverðlaunin – mikilmennska mín er ekki meiri en svo að helst vil ég bara að einhver fái nóbelsverðlaunin sem ég hef lesið en kannski ekkert alltof margir aðrir. Svo ég sé pínu sérstakur. Altso, ekki Murakami, en kannski Duong Thu Huong, sem ég dýrka. Eða einhver álíka. Af þessum vinsælu finnst mér Ko Un frábært ljóðskáld – þótt hann sé dónakall – en kannski er það þá bara nóg að hann sé gott ljóðskáld. Af vinsælu valkostunum væri það kannski helst Don DeLillo. Þá hef ég nýlega fallið kylliflatur fyrir Ali Smith.


Annars bara veit ég það ekki. Kannski er mér meira að segja alveg sama – nema bara svona fyrir að það er gaman að giska. O jújú, ég segi Ali Smith eða Duong Thu Huong – ég yrði glaðastur ef þær ynnu. Eða önnur hvor a.m.k.



natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page