top of page

Mona og Pola og dularfulla íslenska skáldið


Skáldsagan Mona eftir argentínska rithöfundinn Pola Oloixarac fjallar um perúskan rithöfund, sem heitir einmitt Mona. Hún ferðast til Svíþjóðar á alþjóðlega bókmenntahátíð. Þar eiga þátttakendur að flytja erindi, lesa upp og taka þátt í open mic kvöldum – og lokakvöldið fær svo einhver þeirra virtustu bókmenntaverðlaun Evrópu, Basske-Wortz-verðlaunin (sem voru fjármögnuð af besta vini Alfreds Nobel).


Þarna er mikið föruneyti höfunda frá hinum ýmsu heimshornum sem Mona hefur mismikið álit á – og sér í mjög sínísku ljósi. Suður-Amerískir marxistar, finnskir og ísraelskir femínistar, múslimskur höfundur sem boðar heimsyfirráð, ljúfi non-fiksjónhöfundurinn Sven Olle Siggurdsson [svo] frá Svíþjóð og svo hið dularfulla íslenska kraftaskáld, Ragnar, sem þykir ekki bara sigurstranglegastur heldur langsigurstranglegastur.


Mona sjálf er drykkfelld, sí-veipandi kannabisefni og reglulega hellast yfir hana heiftarlegar kynferðislegar fantasíur – og ekki bara þegar hún er uppi á herbergi að horfa á klám. Hún er líka glamurös og snjöll og skemmd – mjög New York in the nineties, einhvern veginn. Og reglulega spyr hún sig, án þess að maður fái að vita hvers vegna fyrren í blálokin, hversu lengi marblettir endist á líkamanum – hún á þess utan í mjög erfiðu sambandi við símann sinn, sem pípir mikið á hana og hún vill ekki svara, man ekki alveg allt sem gerst hefur síðustu daga o.s.frv. Maður skilur að það er eitthvað tráma þarna að banka upp á en það er ekki fyrren bókin er að klárast sem dyrnar opnast.


Þetta er skemmtileg bók (frekar en hræðileg, þrátt fyrir trámað) en margt skrítið fyrir einhvern sem þekkir til – svona óþarfa smávillur einsog mér verður tíðrætt um og trufla einmitt engan nema þá sem standa sögusviðinu of nærri. Til dæmis hefur múslimski höfundurinn, sem er íranskur að uppruna en skrifar á dönsku, nýþýtt kóraninn að því manni má virðast á sænsku – og er fyrsta þýðingin (ég er ekki viss um að það sé ártal í Monu en hún gerist á tímum Trumps og fyrir covid). En farsi og arabíska eru auðvitað ekki sama tungumálið frekar en sænska og danska og fyrsta sænska þýðingin á kóraninum birtist 1917 – og þær hafa verið ótal margar síðan. Hugmyndin um að Svíar hafi þýtt kóraninn fyrst fyrir fáum árum meikar kannski sens í Buenos Aires en er absúrd í meiri nánd.


Hugleiðingar Polu um bókmenntir – ræðurnar sem hún lætur rithöfundana sína halda – eru bestar, hvort heldur sem maður les þær einlæglega eða sem háð, enda fetar bókmenntahvötin alltaf einhvers staðar eftir þeirri egg. Þær rekast auðvitað líka á og Polu tekst að draga fram kostina og gallana í þessum kenningum – án þess að yfirgefa nokkurn tíma skáldskaparvíddina. Hún er ekki að predika þessar hugmyndir eða predika gegn þeim, heldur að gaumgæfa þær á þennan máta sem maður getur bara gert í skáldskap.


Þá er Mona frábær persóna og flestir hinna líka – þótt gagnrýnendur skáldsögunnar keppist við að finnast rithöfundarnir allir vera fífl, og þeir séu að sönnu svolítið kjánalegir, þá þótti mér nú alveg vænt um þá flesta. Kannski er líka bara alltílagi að vera svolítið fífl. Og Pola sjálf þakkar í lokin þeim rithöfundum sem hún hefur kynnst í gegnum tíðina – kannski líka til að aftengja sprengjuna; auðvitað eru ósköpin inspíreruð af fólki sem hún hefur hitt og á kannski eftir að hitta aftur, en væntanlega líka til þess að leggja áherslu á að hún kunni í alvöru vel við þetta fólk sjálf, þótt síníkin stýri stundum pennanum. Og þá má heldur ekki gleyma því að hún hlífir ekki „sjálfri sér“ – Mona er þrátt fyrir kosti sína og sjarma jafn gölluð og hinir höfundarnir, jafn brotin, og hennar hugsanir og kenningar eru sams konar blanda af móðukenndum ruglingi og dásamlegri skerpu og hugsanir og kenningar hinna höfundanna.


Nadja spurði mig, þegar ég sagði henni hvað ég væri að lesa, hvort þetta væri ekki kunnuglegur heimur – sænska og alþjóðlega bókmenntasenan og ég svona tja-aði eitthvað og sagðist halda að þetta væri kannski aðeins fínna lið en ég, ef mig skyldi kalla og það allt saman, nær því að vera eitthvert Nóbelsboð en Kuopio Sound Poetry Seminar eða Fjøsfestivalen í Melhus (þótt þar hafi nú annars verið mjög gaman).


En þegar leið á bókina fóru að renna á mig tvær grímur – ég fékk fyrir það fyrsta fljótlega á tilfinninguna að þetta væri ekki endilega byggt á neinni heimsókn til Svíþjóðar, stemningin var einhvern veginn ekki sérlega sænsk. Og samt var hún eitthvað kunnugleg. Svo þegar halda átti knattspyrnuleik milli „Svíþjóðar og heimsins“ (þ.e.a.s. lókalhöfundanna og alþjóðlegra gesta) small allt saman og ég fattaði að ég gjörþekkti sögusviðið, sem er í Lahti í Finnlandi, þar sem haldin er alþjóðleg rithöfundastefna annað hvert ár. Finnland var Svíþjóð einsog Argentína, heimaland Polu, varð að Perú, heimalandi Monu. Sánan við ströndina, stemningin (sambland af partístemningu og mjög hátíðlegri stemningu), hvíta tjaldið þar sem erindin voru flutt – allt nema verðlaunaspenningurinn, því í Lahti eru ekki veitt nein verðlaun.


Ég stökk upp úr sófanum, gagntekinn af forvitni, gúglaði þessu og auðvitað stóð heima að Pola Oloixarac var gestur í Lahti árið 2013 – tveimur árum á undan mér – og þá var einmitt íslenskt ljóðskáld þarna líka, kraftaskáldið heitna Sigurður Pálsson. Kraftaskáldið Ragnar er reyndar með sítt skegg og kannski ívið meiri Mósestýpa en Siggi – og ég reikna nú með því að skáldskapurinn hafi fengið að setja mark sitt á hina höfundana líka. Þegar ég var búinn að komast að þessu öllu saman hljóp ég samt upp í svefnherbergi til Nödju til að láta hana vita, rjóður af ánægju, að ég hefði víst verið á þessari hátíð og þetta fólk væri ekkert fínna en ég.


Síðan fór ég aftur niður í sófa til að lesa restina – þar sem Siggi Páls stígur loks inn á sviðið og á stórleik (endirinn fór mjög öfugt ofan í gagnrýnendur bæði á Guardian og NYTimes en mér fannst hann forvitnilegur og vogaður og bið ekki endilega um meira en það).

natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page