top of page

Menningarvikan 1.-7. ágúst


Ég gleymdi alveg að taka myndir af menningarneyslu síðustu viku, svo hér fáið þið eina níu daga gamla, af Mugison-tónleikum í Naustahvilft. Á myndinni má líka sjá Rúnu, Sigþrúði Gunnarsdóttur og Gleiðarhjalla.

Ég fór á djasstónleika í síðustu viku – Kristján Martinsson var með útgáfutónleika – og svo á fjöldann allan af leiksýningum á Act Alone, auk tveggja tónleika, uppistands og upplesturs með Hrafnhildi Hagalín. Las Harlem Shuffle eftir Colson Whitehead, Geril eftir Snæbjörn Ragnarsson, Tregðulögmálið eftir Yrsu Þöll Gylfadóttur og hálfa Dauði og djöfull eftir Jóhamar. Gleymdi að fara í bíó í gær – á þarna hasarmyndina með Brad Pitt. Heitir hún Bullet Train? Eitthvað svoleiðis. Hlustaði á Lundúnarsessjónarplötuna með Howlin Wolf – þar sem undir leikur rjóminn af hvítum sixtís blúsurum, Eric Clapton, Steve Winwood, Bill Wyman og Charlie Watts. Svo leikur Hubert Sumlin þarna líka – sem er meiri stjarna fyrir mér en margir hinna, eins ágætir og þeir eru, en hans er aldrei sérstaklega getið, kannski af því hann lék svo mikið með Howlin' Wolf eða bara vegna þess að hann var svartur og eiginlega ekki frægur einsog hinir (þótt sagan segi að Sumlin hafi verið eftirlætis gítarleikari Hendrix). Svo er ég búinn að horfa á fyrstu þrjá þættina af lokavertíð Peaky Blinders – ég er að reyna að horfa framhjá því hvað þetta er (orðið?) tilgerðarlegt. Toppurinn í gær var þegar eiginkona Thomasar Shelby kemur að honum grímulausum yfir berklaveikri dóttur þeirra. „You should be wearing a mask, Tommy“, segir hún. „I am“, svarar þá hinn þjáði maður og ég flissa heima í stofu. Sem er sennilega ekki ætlunin.


Tregðulögmálið og Gerill eru furðu líkar lesnar svona í beit. Gerill fjallar um 25 ára dysfúnksjónal en hæfileikaríkan gítarleikara sem er fórnarlamb allra klisjanna um sjálfan sig og rokklífernið og þolir engan sem er ekki einsog hann sjálfur. Allir eru fávitar og enginn er að hlusta. Tregðulögmálið fjallar um 23 ára (minnir mig) dysfúnksjónal en hæfileikaríkan háskólanema sem er fórnarlamb allra klisjanna um sjálfa sig og hið akademíska róttæklingalíf og þolir engan sem er ekki einsog hún sjálf. Allir eru fávitar og enginn er að hlusta. Ég veit í sjálfu sér ekki alveg hversu langt þessi samanburður nær síðan en þetta sló mig allavega í morgunsárið. Stærsti munurinn er sennilega sá að á meðan Sævar er rænulaus einsog hauslaus hæna þá er Úlla ofurmeðvituð en kemst ekki alveg upp úr naflanum á sér. Tregðulögmálið er ívið betri, kannski meðal annars vegna vegna þess að hæfileiki aðalsöguhetjunnar, Úllu – að spila hugmyndasóló í kringum sjálfa sig og heiminn – er sýndur í henni, sólóin eru í bókinni, en í Gerli fær maður eðli málsins samkvæmt bara að heyra af því hvað Sævar sé rosalega góður á gítar. Svo er Gerill líka alveg hrottalega rangstæð. Ég hlýt að álykta sem svo að PC-mafían hafi bara alls ekkert lesið hana, fyrst það varð ekkert havarí. Ég var í og með að lesa hana til að sjá hvort hún væri við hæfi 12 ára sonar míns – sem hún er ekki. En hún er samt mjög skemmtileg. Tregðulögmálið er hins vegar að mjög mörgu leyti frábær – pínu rangstæð samt líka! en aðallega, einsog í Gerli, til þess að undirstrika hvað aðalsöguhetjan átt bágt með að sjá grunnhyggnina í sjálfri sér (Sævar eyðir hálfri bókinni í að skammast sín fyrir að hafa farið í trekant með „of feitum“ stelpum – Úlla hefur miklar áhyggjur af því að hún þurfi að eiga samskipti við þroskaheftan nágranna sinn, sem mig minnir að hún kalli Magga Mongó). Í öllu falli algert rugl að ég hafi ekkert lesið eftir Yrsu Þöll hingað til – ég held ég renni bara í katalóginn einsog hann leggur sig (hvort það eru ekki þrjár skáldsögur í viðbót – ég held það). Og hlusti bara á Ljótu hálfvitana með því (það er ekkert hægt að lesa við Skálmöld).


Harlem Shuffle er æði. Ég las Colsonstrákana fyrr í ár en á Underground Railroad eftir og mér fannst Harlem Shuffle talsvert betri en Colsonstrákarnir – sem var eiginlega full mikið HBO-drama fyrir mig. Söguþráðurinn í Harlem Shuffle er meira random, meira kaos – og bókin leyfir sér alls konar útúrdúra. Í grunninn er konseptið einfalt – „when it came to being crooked, Ray Carney was only slightly bent“ (vitnað eftir minni) – Carney er svartur húsgagnasali í Harlem sem vegna aðstæðna og ætternis þvælist stöðugt inn í allra handa glæpaplott, mistilneyddur. Maður vorkennir honum ekki bara, hann er ekki bara fórnarlamb aðstæðna sinna, heldur líka útsjónarsamur plottari og alls ekki laus við eiginhagsmunasemi. En enda þótt hann sé alltaf í forgrunni þá fjallar bókin kannski fyrst og fremst um Harlem – er eins konar dýpkuð mynd af alls konar Harlem klisjum.


Dauði og djöfull eftir Jóhamar er hrottaleg bók, einsog mikið af því sem hann skrifar – ég er ekki búinn með hana, gleymdi henni á skrifstofunni yfir helgina. Vísa í ritdóm Ófeigs Sigurðssonar á Starafugli – só far er ég bara sammála honum.


Af því sem ég sá á Actinu stóðu upp úr verkin Það sem er, austur-berlínardrama þar sem María Ellingsen átti stórleik, Síldarstúlkur með Halldóru Guðjónsdóttur og Margréti Arnardóttur (sem sá um tónlistina) og eins konar dansverk um sköpunargáfur og ritstíflur sem hét Elemental Confusion með Carolu Mazzotti. Annars var allt skemmtilegt, en ég hafði minnstan smekk fyrir Pink Hulk – þar sem kona sagði sögu af því hvernig hún hefur lifað af krabbamein í þrígang. Boðskapur þess verks var eitthvað á þá leið að maður ætti aldrei að gefast upp og hún talaði oft um að „kick cancers ass“ og álíka – og ég hef algert ofnæmi fyrir þannig tali (sem felur í sér að þeir sem drepast úr krabbameini hafi einhvern veginn gefist upp, ekki verið nógu duglegir, á meðan sannleikurinn er auðvitað sá að þetta er fyrst og fremst spurning um heppni og ólíkar forsendur og aðstæður). Maður er ekki meiri hetja að lifa af krabbamein en að lifa af að detta niður af húsþaki. Svo ég var sennilega þess vegna lítið móttækilegur fyrir öðrum flötum þess verks.


Kristján Martinsson var mjög skemmtilegur. Tónlistin af plötunni er mjög róleg og það var því vel til fundið að taka líka nokkra standarda og það var gaman að hann skyldi syngja – því þótt hann sé enginn sérstakur söngvari, hann er tónviss en með litla og óæfða rödd, þá gaf það lögunum eitthvað extra, og jafnvel bara meira en ef hann hefði líka sungið einsog Fats Waller.


Dr. Gunni lék á Actinu – barnaprógramið, sem hann var reyndar búinn að skreyta með SH Draumur slögurum einsog Öxnadalsheiði, sem eru kannski ekki beinlínis barnalög – og börnin elskuðu hann, öll nema einn fýlustrákur sem ég hitti fyrir utan og sagðist aldrei hafa gert neitt leiðinlegra frá því hann var dreginn á einhverjar Bach-svítur í Hömrum í fyrra! Hann var klappaður upp og tók Prumpulagið tvisvar með extra löngum fretum. Ég hafði séð hann vikunni áður með öllu bandinu á Vagninum – hann var einn með trommara (Kriss Rokk!) á Actinu – og það var jafnvel enn betra. Doktorinn er í ofsaformi þessa dagana og nýja platan er dásemd.


Keli var fulltrúi heimamanna á Act Alone – hann er feikna lagasmiður og eiginlega ekki síðri í millilagabulli, hefur einstakt lag á að koma manni í gott skap, fæddur skemmtikraftur. Einsog sést reyndar ekki síst í Celebs – hann fór hamförum á Aldrei fór ég suður síðast. Ég held að Helgi Björns megi bara fara að vara sig og spái því að eftir þrjátíu ár, í tuttugustuogfimmtu covidbylgju, þá sitji allir yfir Heima með Kela.


Hrafnhildur Hagalín las upp úr nýrri ljóðabók, Skepna í eigin skinni, og var með úrval leikara á sviðinu til að flytja brot úr leikverkum sínum í gegnum tíðina. Það var mjög vel til fundið og ég hugsaði mikið hvað það væri leiðinlegt að ég hefði aldrei séð verk eftir hana á sviði (ég kemst sjaldan í leikhús og leikhúsin koma sjaldan vestur) – sérstaklega Ég er meistarinn, sem vinur minn hafði mikið dálæti á og við lásum saman fyrir hundrað árum. En þangað til Ég er meistarinn fer aftur á svið ætla ég allavega að lesa nýju ljóðabókina.


Stefán Vignir var með uppistand – það var lokaatriðið á hátíðinni. Það er eiginlega ekkert hægt að skrifa um uppistand án þess að segja brandarana og ef maður segir brandarana er maður svolítið að eyðileggja – eiginlega er allt sem maður gæti sagt um svona uppistand höskuldar. Helstu þræðir milli brandara sneru að skorti Stefáns (eða ljóðmælanda! grínmælanda!) á karlmennsku og svona almennu vanhæfi til verka – hvernig hann kynni ekki að keyra, gæti ekkert í íþróttum, skildi ekki fólk á verkstæðum en væri samt (merkilegt nokk) þjakaður af skaðlegri karlmennsku. Þetta var pínu köflótt – spurningar úr sal urðu mjög eitthvað listaháskóla-normkor, sem er að verða þreytt – en heilt yfir mjög fyndið, svolítið Þórbergskt, og hann var klappaður upp (og tók þá reyndar fleiri spurningar úr sal, af því hann átti ekkert aukaefni að því hann sagði – hefði betur gert bara einsog dr. Gunni og tekið vinsælasta lagið sitt aftur).

natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page