top of page

Margfaldir metsöluhöfundar


Næst á eftir áhyggjum af hæfilegri stjörnugjöf hafa höfundar áhyggjur af sölu bóka sinna. Það er í sjálfu sér alveg rétt að margt af því sem situr í efstu sætunum gleymist hratt og sumt af því sem nær engri metsölu verður klassík. En það er samt algengara að klassíkin slái í gegn – og ekki bara eftir sinn tíma. Yfirleitt er meira að segja vandræðagangurinn í kringum útgáfu bóka sem sagt er að hafi átt erfitt uppdráttar að miklu leyti skáldskapur sem ætlað er að selja bókina – fyrst og fremst gott markaðstæki. Og ágætt að taka þannig sögum með saltklípu. Hvað um það. Það langar heldur engan að deyja misheppnaður í trausti þess að maður sé einhver Kafkafígúra sem allir elska eftir dauðann (önnur saga eða sagnaminni sem er gott að taka með saltklípu er einmitt sagan af höfundinum sem vill láta brenna öll sín handrit). Það vilja allir höfundar fá marga (góða) lesendur.


Ég er óvanur því að fylgjast með barnabókametsölulistum. Ég leit fyrst á listann vikunni eftir að Frankensleikir kom út – þá gægðist hann inn í sjöunda sæti. Vel flestar glænýjar bækur komast inn vikuna sem bókasöfnin næla sér í eintak. Mér fannst þetta svolítið kaotískur listi, man ég, þótt ég muni ekki alveg hvað var á honum – fannst t.d. skrítið að Fagurt galaði fuglinn sá, sem er bók sem kom út 2021, væri enn ofarlega (gott ef hún var ekki hreinlega í fyrsta sæti). Ég veit síðan vel hverjir eru metsöluhöfundar á fullorðinslistanum en ég var ekkert byrjaður að spá í það hver yrðu Arnaldur eða Auður Ava barnabókalistans.


Svo hefur tvennt komið í ljós. Í fyrsta lagi að það eru til bæði barnabókalisti og ungmennabókalisti og ég veit ekki hvernig þeir tengjast. Ég veit bara að ungmennabókalistinn er ekki inni á Eymundsson-síðunni, að Strákurinn með ljáinn eftir Ævar Þór er efst á honum (af því ég sá það á FB) – og að það hafa samt birst (held ég alveg áreiðanlega!) ungmennabækur á þessum barnabókalista. Það gæti verið að barnabækur fyrir yngri lesendur seljist bara svona miklu meira en ungmennabækur og þær séu því teknar út fyrir sviga. (Og auðvitað er mjög undarlegt að einhver bendibók með tveimur orðum á síðu sé í sama flokki og 600 blaðsíðna fantasía fyrir unglinga sem sé í sama flokki og mynda- og kennslubók um fugla með fuglahljóðum). Kannski eru svo líka til sundurliðaðir „bækur fyrir 3-5 ára“, „bækur fyrir 5-8 ára“ o.s.frv. listar – en þá ber að hafa í huga að það er ekki endilega alveg ljóst fyrir hvaða aldur bækur eru skrifaðar (Frankensleikir er t.d. best fyrir fimm til þrettán ára en líka bönnuð innan fjórtán).


Í öðru lagi áttaði ég mig ekki á því að margir barnabókahöfundar virðast vera með margar bækur á ári. Og geta þar með eðli málsins samkvæmt verið í mörgum sætum með ólíkar bækur. Í dag eru t.d. fimm höfundar á barnabókalistanum – en tíu bækur. Bjarni Fritzson er með tvær, David Walliams með tvær og Birgitta Hauks með þrjár (þar af eina jólabók frá því í fyrra). Þá er Fuglabókin frá því í fyrra alltaf jafn vinsæl. Hvernig sem á því stendur eru síðan bara níu bækur á barnabókalistanum þessa vikuna (Gunnar Helga á níundu). Kannski seldist engin önnur bók í neinu eintaki.


Ég er sem sagt enn að reyna að átta mig á þessu.

natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page