top of page

Lágmarksvæntingar


Ég sá svo fallega einkaþotu á Reykjavíkurflugvelli í gær. Hún var dökkvínrauð og öll einhvern veginn vintage – og ég man að ég hugsaði að svona einkaþotu gæti Halldór Laxness hafa átt. Ef hann hefði átt ráð á einkaþotu, sem verður nú að teljast heldur ósennilegt, og var hann þó metsöluhöfundur á þeim tíma er bækur seldust mikið. Einhvers staðar las ég reyndar að gullöld bóksölu og frægðar höfunda hefði verið á níunda áratugnum – að á þeim tíma hefðu vissir höfundar verið sannkallaðar rokkstjörnur – ekki veit ég hvað er til í því og þaðan af síður af hverju það myndi stafa. Þá er sjónvarpsgláp í stöðugri sókn og fólk með fleiri og fleiri rásir og vídjótækin þess utan komin – og ég gæti best trúað því að þetta sé líka sá tími sem bíóhúsin eru sterkust. Að vísu er neysla almennt ábyggilega líka mjög mikil.


Á níunda áratugnum gaf HKL út „Dagar með múnkum“ – það var alls ekki hans mesta metsölubók. Líklega er þetta bara tvatl. Höpöhöpö. Quatsch.


Ég get allavega sagt ykkur, alveg einlæglega, að þriðji áratugur 21. aldarinnar er ekki gullöld bóksölu. Að minnsta kosti ekki sölu einstakra höfunda. Og ég játa auk þess fúslega að ég á ekki neina einkaþotu, þótt það sé vandræðalegt. Nú er meira að segja svo fyrir mér komið að ég ferðast til Grikklands á styrk sem dugir rétt svo fyrir farangurslausu flugi – ég er með svokallað „personal item“ með mér, lítinn bakpoka með fartölvu, kindli og nærbuxum. Fjórir leggir með þremur lággjaldaflugfélögum. En ég þarf þá ekki heldur að hafa áhyggjur af því að neitt þessara flugfélaga týni farangrinum mínum.


Það má vera að það seljist fleiri titlar – að salan sé dreifðari. En sennilega er meira að segja heildarsalan miklu lægri. Á næsta ári eru 20 ár frá því ég gaf fyrst út skáldsögu og fyrirframgreiðslan hefur staðið í stað allan þann tíma. Hún er auðvitað dregin frá söluhagnaði og sú krónutala hefur eitthvað hækkað – per selt eintak – svo hún hefur ekki áhrif á hvað ég græði mikið eða lítið þegar allt er samantalið. En hún segir eitthvað um lágmarkssöluvæntingar forlagsins.


Ég sit á Leifsstöð. Eða hvað hún heitir þessa dagana. Svaf í þrjá tíma í nótt, sem er ágætt fyrir mig – yfirleitt sef ég ekki neitt fyrir flug. Endaði gærkvöldið á að horfa á Con Air, sem ég sá mælt með á bloggi og hafði ekki séð lengi. Hún var fín – og miklu betri en sorpið sem ég horfði á þar á undan, Baby Driver, sem er samt með talsvert hærri einkunn á IMDB. Það liggur við maður hætti bara alveg að taka mark á almenningsálitinu þegar það missir svona marks.


Sem minnir mig reyndar á að við, fólkið í þessu þjóðfélagi – eða a.m.k. fólkið í kringum mig – er löngu hætt að halda fram þeirri áður augljósu staðhæfingu að „fólk sé fífl“. Og þess í stað drögum við fram einn og einn, réttum yfir honum og kveðum svo upp dóm: „Þessi er fífl. Næsti.“ Og svo bíðum við bara öll með öndina í hálsinum þar til að okkur kemur. Þetta er tímafrekt – en sjálfsagt verður þetta eitt af þeim verkefnum sem ChatGTP gerir okkur kleift að vinna með meiri hraða og nákvæmni.

natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page