top of page

Listin að rægja bæjarstjóra


„Fjöllin gnæfa yfir lífi og dauða í þessum húsum sem þjappa sér saman á eyrinni“. JKS – H&H.

Kæra blogg. Það er sumarlegra þessa dagana en síðast þegar heyrðist frá mér. Að vísu rigndi í gær en það var samt frekar hlýtt – peysuveður. Og maður hlýtur að vera þakklátur fyrir peysuveður þegar maður er búinn að vera að kljást við haglél í heila viku.


Í-listinn vann kosningarnar. Fékk hreinan meirihluta. Mér skilst að ég hafi a.m.k. sannfært tvo kjósendur, auk sjálfs mín, um að kjósa það framboð og fyrst þetta er allt meira og minna mér að kenna er eins gott að kjörtímabilið verði ekki vandræðalegt.


Ég er að vísu búinn að vera mjög mikið í einhverjum hortugheitum út af þessu. Gylfi – oddviti Í-listans, og nágranni minn – sagði í ræðu á kosningafundi að það væri sorglegt að meðlimur úr bæjarstjórn hefði ekki komist í „reykvísku skemmtiþættina“ frá því Gummi bæjó var og hét og það væri mikilvægt að auka þann sýnileika, svo bera mætti út fagnaðarerindi bæjarins og bæta ímynd hans. Gylfi hefur auðvitað stundum sjálfur sést í þannig þáttum – Orð skulu standa, held ég, eða allavega Útsvarinu. Ég held að Gummi hafi komist í sjálf Vikulokin með Gísla Marteini. En ég sem sagt þurfti á öllu mínu að halda til að koma ekki með spurningu á fundinum – hvort komin væri skýr aðgerðaráætlun, já eða nei, hvernig Gylfi kæmist í Gísla Martein. Og lét þá sem sagt duga að pota henni í Gylfa daginn eftir, á PöbbKvissi listans (þar sem ég og utanbæjarvinkona mín biðum afhroð). Og svo fannst mér ég nógu sniðugur til að endurtaka þetta grín nokkrum sinnum við vini og kunningja, á förnum vegi, og slá svolítið á lær mér á meðan.


En það var líka einsog Gummi bæjó hefði heyrt í okkur því daginn eftir kosningar birtist hann í „reykvísku skemmtiþáttunum“ – einum af þessum skrítnu þáttum þar sem RÚV klappar sjálfu sér á bakið fyrir vel unnin störf. Hann var með heldur óskemmtilegra erindi um bæjarbraginn samt. Í „þorpunum“ væri fólk gjarna rægt og baktalað, nema helst barnaníðingar og nauðgarar, sem samfélagið héldi hlífiskildi yfir. Auðvitað er nokkuð til í þessu – þótt mér hafi sárnað fyrir hönd ... tja mín og minna. Fólk er rægt og baktalað á Ísafirði og fólk trúir stundum ofbeldismönnum frekar en fórnarlömbum þeirra. Sumir Ísfirðingar eru meira að segja hrottar og ofbeldismenn sjálfir – svo er hér líka mikið af drullusokkum, slúðrurum, skattsvikurum og hægrimönnum. Ég vissi bara ekki að þetta væri eitthvað sem einkenndi „þorpin“ frekar en aðra staði – t.d. „borgirnar“ eða „sveitirnar“. Mér finnst Ísfirðingar einmitt oft vera dálítið hreinskiptnir – að hér sé minna bilið milli þess sem fólk segir um mann og þess sem það segir við mann en víða annars staðar. En það er þá auðvitað ekki allt bara um hvað maður sé frábær.


En hver maður hefur sína reynslu – ég efast ekki um að það hefur verið heitt í eldlínu stjórnmálanna í kringum þá Danna bæjó og Gumma bæjó og það hefur hellings mikið verið rætt á kaffistofum bæjarins hvað hafi gerst bakvið tjöldin, hverjir hafi tekið brjálæðiskast hvenær og af hvaða ástæðum, án þess að maður hafi endilega verið á staðnum sjálfur. Ég hélt alltaf með Gumma í þessum erjum og það gerðu sennilega langflestir – en þeir sem þoldu hann ekki og fannst hann alger fáviti voru líka til staðar, því er ekkert að neita. Gummi var heldur ekki bara einhver jói sem kom hérna og fór að vinna á skrifstofu – hann var bæjarstjóri, hann fór sínar eigin leiðir, hafði sinn eigin stíl og lét mikið á sér bera. Það var aðallega vinsælt – menn fögnuðu hinum sýnilega bæjarstjóra með mörgum lækum – en það var ekki bara vinsælt. Mörgum fannst að bæjarstjórinn ætti að vera einfaldur framkvæmdastjóri, ekki eiginlegur stjórnmálamaður eða talsmaður bæjarbúa, enda færi betur á að talsmaður bæjarbúa væri einhver lýðræðislega kjörinn – og maðurinn sem var ráðinn til að taka við af honum var líka akkúrat þannig. Ég man ekki hvað hann heitir, hef aldrei séð nema eina mynd af honum og hún er svarthvít og tekin í stúdíói. Ég er ekki einu sinni viss um að hann kunni að taka selfie.


Hvað um það. Maður bætir ekki ímynd bæjarins með því að skammast út í þá sem hafa slæma sögu af honum að segja – sjónarhorn Gumma er hans sjónarhorn og mikilvægt að það fái að heyrast, það má þá bara ræða það (því ekki ræðir maður það af neinu viti sem fólk bara muldrar í barminn). Andstæðingar Gumma eru líka flestir (allir?) horfnir úr bæjarpólitíkinni, þótt þeir hafi fæstir hrakist úr bænum, og Í-listinn fékk hreinan meirihluta og nú kemur nýr bæjarstjóri til að rægja – Arna Lára skólasystir mín, eiginkona Inga Björns vinar míns, eða „mamma hans Dags“ einsog hún er oft kölluð á mínu heimili. Okkur ber vonandi gæfa til þess að rægja hana ekki alla leiðina til Reykjavíkur. Sjö, níu, þrettán.

natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page