top of page

Kona fer í fýlu


Ég fór um daginn í viðtal til Ásgeirs á Menningarsmyglinu, ásamt Sigríði Pétursdóttur, kvikmyndafræðingi. Við ræddum Verbúðina – fyrir lokaþátt. Mér fannst fyrstu sjö þættirnir köflóttir. Mjög góðir sprettir hér og þar, epískar senur, alveg æðislegar sumar – ég fíla blóð og fyllerí og æsing – alltílagi melódrama en kannski svolítið bara smurt ofan á hið meinta umfjöllunarefni, kvótakerfið/fiskiþorpið, frekar en í lífrænum tengslum við það. Og vegna þess að þau tengsl skorti var dramað – ástarþríhyrningurinn og svikin – oft í samkeppni við umfjöllunarefnið.


Lokaþátturinn þótti mér svo alls ekki góður. Með yfirvofandi skilnað, dauða, lausaleiksbarn og svikna móður í loftinu – einsog Tjekhovska byssu – að ónefndu framsali og eignarhaldi á kvóta og framtíð bæjarins bjóst maður við skotárásum. En þess í stað var vopnabúrinu bara stungið aftur niður í skúffu og aldrei hleypt af. Svikna móðirin hélt bara áfram að vera svikin móðir og lausaleiksbarnið reyndist þýðingarlaust fyrir plottið þegar allt kom til alls. Og endanleg staða barnsins í dramanu – tilfinningalegum bogum verksins – mikilvæg en óraunsæ og þar með ófullnægjandi. Var Harpa með forræði yfir barninu? Hvers vegna gat hún bara stungið af með barnið, þegar faðir þess var látinn? Á því eru áreiðanlega einhverjar útskýringar en það er ofsalegur skalli að láta þær ekki koma betur fram.


Sinnaskipti Hörpu voru svo óskiljanleg – eða alltof illa undirbyggð til þess að mér þættu þau trúverðug. Eina stundina er hún stærsti bakhjarl bæjarins, sem aldrei ætlar að svíkja sína heimabyggð, og svo bara „það hata mig allir“ og „ég er bara farin!“ – einsog einhver unglingsstelpa í fýlukasti. Og aftur er saga kvótakerfisins smættuð niður í ástarlíf Hörpu og afleiðingar þess. Plottlausnin var bara kona fer í fýlu.


Svo var ýmislegt sem var undarlegt en í sjálfu sér fyrirgefanlegt í skáldskap – senan þar sem Þorbjörgin snýr við í höfninni var kjánaleg en ef það hefði verið betra tempó í sögunni hefði það áreiðanlega lítið truflað mig. Ég skildi heldur ekki af hverju Einar og Freydís treysta Hörpu til þess að útvega sér fisk þegar þau eru búin að stinga hana í bakið (og fiskvinnsla án fisks er verðlaus) en hefði alveg getað lifað án útskýringar ef það hefði verið eini skallinn.


Loks er sennilega sjúkleg smámunasemi að finna að því en mér þótti skrítið að horfa á Góa taka skóflustungu að „fyrstu útisundlauginni á Vestfjörðum“ – á Wikipediu stendur að vísu að Suðureyrarlaug sé eina útisundlaugin á norðanverðum Vestfjörðum (hún var opnuð 1992), sem eru sannarlega ekki allir Vestfirðir, en það hefði ekki heldur verið rétt að segja það. Þetta er bara rangt á Wikipediu. Reykjaneslaug er á norðanverðum Vestfjörðum – tilheyrði lengst af Norður-Ísafjarðarsýslu. Þá eru auðvitað fleiri og eldri útisundlaugar á Vestfjörðum (t.d. fín laug á Birkimel frá miðjum fimmta áratugnum). Og buslulaug, pottar og útirennibraut í Bolungarvík – þótt sjálf stóra sundlaugin sé inni. Þetta er tittlingaskítur – ég veit það – en guð hvað það fer samt í taugarnar á mér að fólk nenni ekki að hafa þetta rétt. Og þegar þessar óþarfa fljótfærnisvillur hrannast upp (það hefði engu breytt fyrir sjónvarpsþættina ef Gói hefði bara sagt „geggjaða útisundlaug“) hverfur traustið.


Skyssur eru ekki heldur bara „skáldskapur“. Skáldskapur þrífst á trúverðugleika sínum sem er alltaf brothættur, einmitt vegna þess að við vitum að það er verið að ljúga ofan í okkur. Ég las loksins á dögunum Ég man þig eftir Yrsu Sigurðardóttur – enn eina ísfirsku bókmenntina – sem var fín og hræðileg og ofsa vel plottuð (og guð hvað ég skil að Yrsa skuli halda utan um þetta í excel – og það er kjaftæði að hún skrifi lélegan stíl, einsog maður heyrir oft) en í hvert einasta helvítis skipti sem einhver talaði um kirkjuna „á Súðavík“ þá hrökk ég við og datt út úr bókinni. Tilfinningaþráðurinn slitnaði. Bara svona einsog ég ímynda mér að myndi gerast í höfðum fleiri lesenda ef ég myndi skrifa heila bók þar sem væri alltaf verið að tala um fólkið á Reykjavík. Skyssur trufla alla innlifun – bara einsog bóman hefði alltíeinu verið í mynd eða Sveppi dregið upp iPhone.


En auðvitað er líka búið að vera gaman að horfa á þetta og tala um þetta. Ætli sé ekki eitthvað þarna sem kemur yngra fólki á óvart? Einhverjir punktar úr þessari sögu sem voru að gleymast. Og þótt þetta hafi auðvitað ekki gerst alveg svona – heldur kannski fyrst og fremst hægar og með minni látum (lætin út af kvótakerfinu held ég að hafi í raun ekki byrjað af viti fyrren um miðjan tíunda áratuginn – Geiri selur Gugguna 1996 og hún fer ekki úr bænum fyrren 1999, Frjálslyndi flokkurinn stofnaður 1998) – þá eru grófu drættirnir auðvitað réttir.

natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page