top of page

Hryllingur


Við Nadja höfum verið að horfa á Guillermo Del Toro's Cabinet of Curiosities. Eigum nokkra þætti eftir. Þetta eru hryllingssögur héðan og þaðan – mikið byggt á smásögum, bæði gömlum og nýjum. Guillermo stýrir þessu en ólíkir leikstjórar sjá um hvern þátt og fá um það bil klukkustund fyrir sína sögu – og að manni sýnist heilmikið fjármagn. Að minnsta kosti lítur þetta mjög vel út.


Eitt hafa allar sögurnar átt sameiginlegt og það er gríðarleg einvera aðalsöguhetju sem ráfar um sögusvið þar sem eitthvað „leynist í myrkrinu“. Sögusviðið hefur verið heimili, geymsluhúsnæði, bráðabirgðakrufningastofa og neðanjarðargöng – og í einu tilfelli var sögusviðið breiðara en þá var aðalsöguhetjan að manni virtist líka sú eina sem sá hryllinginn. Hún var ein um upplifun sína.


Í fjórum tilfellum af fimm var aðalsöguhetjan drifin áfram af einhverri synd – tvær af græðgi (sem átti uppruna sinn í fátækt, vel að merkja), ein af hégóma (sem átti uppruna sinn í útskúfun) og ein af hroka. Fimmta persónan er sú eina sem hægt er að segja að hafi „unnið“ sína sögu – þótt ekki hafi endalokin verið beinlínis gleðileg.


Þetta er í sjálfu sér kunnuglegt módel fyrir hryllingssögu. Alla jafna hvílir sagan þá a.m.k. í einhvern tíma á möguleikanum að söguhetjan sé að ímynda sér allt hið hryllilega og hinn eiginlegi hryllingur sé þá í því fólgin að söguhetjan hafi misst vitið. Bæði er þá eiginlega jafn hræðilegt og oft ástæðulaust að svara spurningunni um hvort hafi verið raunin. En það kom mér samt á óvart að grunnurinn í jafn mörgum og jafn ólíkum sögum skildi samt vera hinn sami. Kannski er það meðvitað val hjá Del Toro. Kannski er það jafnvel uppleggið. Og kannski eru þessar þrjár sögur sem við eigum eftir að horfa á allt öðruvísi.

natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page