top of page

Helvíti málefnalegt


Þegar Björk vann sænsku Polarverðlaunin fyrir tólf árum – verðlaunin sem stundum hafa verið kölluð „Nóbelsverðlaun tónlistarinnar“ og eru jafnan veitt einum popptónlistarmanni og einum úr klassíkinni – skrifaði einn þekktasti tónlistargagnrýnandi Svía, Fredrik Strage, heldur harkalegan pistil um „okkar konu“. Fredrik þessi er fæddur 1972, sennilega mest gefinn fyrir einhvers konar indímúsík, frekar fyndin týpa og oft skemmtilegur pistlahöfundur. Af og til er honum líka mikið niðri fyrir.


Fyrirsögn pistilsins um Björk var „Björk tog slut samtidigt som nittiotalet“ – „Björk kláraði sig á sama tíma og tíundi áratugurinn“. Þar byrjaði hann að minnast Ricardo Lopez, Bjarkaraðdáandans sem sendi Björk pakkasprengju og skaut sig síðan í hausinn með vídjóvélina í gangi eftir að Björk byrjaði að deita blökkumanninn Goldie. Svo kom línan: „Ricardo Lopez var kannski geðsjúkur sprengjumaður og rasisti en honum lánaðist þó að hætta að hlusta á Björk áður en hún varð léleg.“


Fyrstu þrjár plöturnar voru góðar, sagði Strage, en eftir það sneri hún sér frá „leiftrandi melódíum“ að „rembingslegum menntamannahljóðtilraunum“. Hann játar síðan að hann hafi sjálfur notað svipað orðalag og Polarnefndin – „explósíf“, „heimskautageðslag“ og „óhamið náttúruafl“ – til að lýsa síðari plötum hennar í dómum sem hafi, eftir á að hyggja, verið alltof jákvæðir.


Þá segir hann að þótt Björk sé óneitanlega áhugaverðara val en margir fyrri Polarverðlaunahafar þá sé erfitt að líta á þessa verðlaunaveitingu sem annað en einhvers konar þróunaraðstoð – það fari ein milljón sænskra króna til Íslands (sem honum reiknast út að sé um 30% af vergri þjóðarframleiðslu) og hin bugaða þjóð, sem er að rísa upp úr gjaldþroti og skömm, fái að endurheimta svolítið af stolti sínu. „Eftir hrun íslensku bankanna og gosið í Eyjafjallajökli hafa margir Evrópubúar farið að spyrja sig hvort Ísland þjóni nokkrum einasta tilgangi. Polarverðlaunin gera okkur aðeins erfiðara um vik að afskrifa íbúana sem þjóðflokk þroskaheftra rassálfa sem éta rotinn hákarl.“


Loks kemur Strage með málamiðlunartillögu. Í ljósi þess að þetta sé þróunaraðstoð sé eðlilegt að gera ákveðnar kröfur um mótframlag – líkt og þegar Erítreumönnum sé gert að framkvæma ákveðnar lýðræðisumbætur gegn því að fá styrki til landbúnaðar. Þannig eigi Björk ekki að fá tékkann fyrren hún hafi skilað af sér tíu nýjum lögum sem séu jafn góð og Hyperballad eða Jóga. Mistakist það eigi að læsa hana inni í Berwaldhöllinni með sinfoníuhljómsveit, tunnu af rotnum hákarli og Ennio Morricone, sem fékk klassísku verðlaunin það ár og hefur að mati Strages til að bera einmitt það sem tónlist Bjarkar vantar, og ekki hleypa þeim út fyrren þau hafi samið nýtt Play Dead.


Það er sem sagt ekki bara Davíð Roach sem er vondur við hana Björk okkar. Eiginlega var Davíð bara mjög kurteis miðað við það sem stundum gengur og gerist úti í hinum stóra heimi (þar sem fólk ímyndar sér stundum að allir séu mjög „fagmannlegir“ og „hlutlausir“ og enginn tali nokkru sinni óvarlega um fína fólkið). Það sem eldist verst í þessum pistli er reyndar alls ekki gagnrýnin á Björk eða Ísland – heldur þetta tal um þroskahefta og geðsjúka – og svo droppar Strage einni N-sprengju (sem er að vísu bein tilvitnun í Ricardo Lopez). Þetta var árið 2010 – veröldin er að breytast.


Og auðvitað skiptir ekkert af þessu neinu máli – gagnrýni er (og á að vera) súbjektíf. Maður verður að taka því sem er útgefið þannig að það sé einsog það eigi að vera – eða í það minnsta dæma það á þeim forsendum og leggja mat á það hvernig það virkar á mann. Gagnrýnendur lýsa bara upplifun sinni – sú upplifun þarf ekki að vera almenn og um hana má rífast, einsog þann búning sem henni er búinn, en það er voðalega vitlaust að festast alltaf í einhverju rifrildi um að gagnrýnendum eigi ekki finnast eitthvað eða bera á borð skoðanir sínar. Það er bókstaflega út á það sem starfið gengur. Engin setning er heiðarlegri í gagnrýni en sú sem hefst á orðunum „mér finnst“.


Svo er Björk líka Björk. Ætlar maður að fara að vorkenna einhverjum stærsta listamanni síðustu 40 ára – í heiminum – fyrir það að af og til ætli einhver að taka hana niður? Skila séráliti? Það væri ansi ómerkilegur listamaður sem næði hennar status og fengi aldrei yfir sig neinar gusur. Og ansi ómerkilegur listamaður sem öllum þætti bara frábær.


Ég upplifði það sterkt sem ritstjóri Starafugls að það versta er yfirleitt ekki að fá neikvæðan dóm heldur að fá neikvæðan dóm sem enginn mótmælir. Að fá neikvæðan dóm um verk sem enginn annar hefur haft skoðun á – enginn annar hefur skoðað og pælt í. Sjálfum fannst mér ekkert verra en að skrifa þannig dóm og sem höfundi ekkert verra en að fá þannig dóm. Það sem er síðan gott við mjög harkalega dóma er að þeim er nánast undantekningalaust mótmælt – þeir vekja viðbrögð og með því að taka harkalega til orða gefur gagnrýnandinn bæði á sér höggstað og eggjar aðra af stað til þess að lýsa sinni upplifun. Með því að sýna verki (sem hann þolir augljóslega ekki) kurteislegt yfirlæti ver hann sig hins vegar fyrir andsvari – felur sig á bakvið uppgerðarhlutlægni – og þá neyðist höfundurinn (og vinir hans) til þess að bæla gremju sína fremur en að svara svívirðunni. Þá er ekkert fleira um það að segja. Þetta var nefnilega allt svo helvíti málefnalegt.

natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page