top of page

Guð er ekki eina appelsínan


Á dögunum las ég Glímuna við Guð eftir Árna Bergmann. Þar vitnar Árni í ljóð eftir nafna minn Erich* Fried


Hundur

sem deyr

og veit

að hann deyr

eins og hundur

og getur sagt

að hann viti

að hann deyi

eins og hundur

er maður.


(*Ég er skírður í höfuðið á afa mínum Erich Egon Hübner).


Þetta ljóð má lesa á marga vegu. Fyrst og fremst blasir við að það sem geri manninn að manni (eða manneskju að manneskju, öllu heldur) sé meðvitund um stöðu sína og færni til þess að tjá sig um hana. Og að því marki að verði dýr fært um eitthvað slíkt hljóti dýrið að vera manneskja. Og sennilega er eitthvað líka þarna um að til þess að vera manneskja þurfi maður að geta dáið.


Skyldar spurningar eru í forgrunni skáldsögunnar Frankissstein eftir Jeanette Winterson, frá 2019. Hún gerist á tveimur tímaskeiðum og segir annars vegar frá því þegar Mary Shelley skrifar Frankenstein og hvernig sköpunarverk hennar – dr. Victor Frankenstein – ofsækir hana (ofsækir er kannski orðum aukið – einhvers staðar mitt á milli ofsækir og heimsækir) – og hins vegar frá kynsegin lækninum Ry Shelley í samtímanum og sambandi háns við vísindamanninn Victor Stein, sem vinnur með gervigreind, og sölumanninn Ron Lord, sem selur og framleiðir kynlífsdúkkur.


Winterson lætur sögusviðin spegla hvert annað og oft að því marki að bókin og sögupersónur hennar – sem sköpunarverk Winterson – spegla þá sköpun sem aðrir í bókinni stunda, bæði sem höfundar, vísindamenn og einstaklingar. Bókin er bráðsnjöll – leiftrandi á köflum – stundum dálítið kitsí og dettur af og til út í predikanir sem mér fannst stundum frekar PC (en internetið skiptist í tvær fylkingar með það hvort hún sé WOKE eða TERF). Winterson er á jarðsprengjusvæði og hefur fengið bæði lof og last fyrir – aðallega vegna Ry, sem hefur persónulegan frekar en dæmigerðan skilning á sjálfu sér og verður þess utan fyrir bæði fordómum, blætisdýrkun og ofbeldi af hendi samfélagsins sem hán lifir í.


Eðlilega verður trans-spurningin í miðju skáldsögunnar viðkvæm þegar henni er stillt upp við hlið skrímslis Frankensteins og mögulegu frelsi líkamlausrar gervigreindar eða helsi kynlífsdúkkunnar. Transfólk vill ekki frekar en aðrir láta kalla sig skrímsli, póst-húman eða kynlífsdúkkur – ég myndi segja að Winterson, eða bókin, geri það ekki (nema hugsanlega að hún spyrji hvort við séum ekki öll póst-húman/skrímsli/kynlífsdúkkur).


En listaverk af þessari tegund eru heldur ekki nákvæm – þau eiga ekki að miða beint í mark og væru vond ef þau gerðu það (það heitir áróður – hann kannar ekkert, skoðar ekkert, heldur bara veit og dæmir). Mér fannst sjálfum blasa við að Winterson væri með fjölbreytileikanum í liði, hinu margbrotna og skapandi, þótt hún vildi líka draga inn hætturnar. Að hún vildi hnita í hringi í kringum möguleika sköpunar, sjálfsmyndar og vitundar og sjá hvað kæmi út úr því – hvað það segði um „hið mannlega ástand“. Úr því kom ýmislegt hnitmiðað og annað óhnitmiðað – einsog gengur, Winterson hefur alltaf verið áhugasöm um ævintýrið í hinu mannlega – og það er kannski í og með kaldhæðnislegt og lýsandi (fyrir verkið og samtíma þess) að innsti kjarni bókarinnar skuli fjalla um ábyrgð skaparans á sköpunarverki sínu.

natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page