top of page

Einkamál


Eitt það allra snúnasta við að hætta á samfélagsmiðlum er að forðast þá tilfinningu að maður sé alltíeinu svo miklu betri og merkilegri en þeir sem fastir eru í þessum billegu hrævareldum korporatfasismans. Ég er að vísu ekki einu sinni búinn að slökkva á reikningunum mínum. Ég er hreint ekki viss um að ég sé búinn að skrá mig út, hvað þá annað. Ég hef bara ekki opnað síðurnar. En ég er orðinn mjög hofmóðugur samt, á þessum tíu dögum sem eru liðnir. Finnst ég óspilltur, einhvern veginn.


Í gær fékk ég loksins moggann. Laugardags- og sunnudags í einu. Það er, einsog ég hef sjálfsagt nefnt, mjög langt síðan ég las nokkuð dagblöð og mér brá talsvert að uppgötva hvað helgarblöðin eru þunn. Það er nánast ekkert í þessu. Meira að segja barnablaðið er eiginlega ekkert nema ein krossgáta, nokkrar myndir eftir börn og auglýsing (mjög classy að hafa auglýsingu inni í barnablaðinu). Efnið er í sjálfu sér ágætt – það var t.d. grein um Betty White og viðtal við Hauk Ingvarsson um Faulknerbókina. Í sunnudagsmogganum var hins vegar engin stjörnuspá og því þurfti ég að láta mér stjörnuspá laugardagsins að góðu heita. Þar kom fram að dagurinn minn yrði „frábær“ og var mælt með því að ég færi í göngutúr. Þetta las ég auðvitað ekki fyrren í morgun og þá var of seint að fara í göngutúr síðasta laugardag, svo þá hef ég bara farið í heimsókn til foreldra minna í staðinn. Eða ... þá mun ég hafa ... nei ... þá myndi ég hefði ... hvaða tíð passar eiginlega fyrir að maður hefði í fortíðinni farið að ráðleggingum spádóms um framtíðina ef blaðið hefði bara borist manni í tæka tíð?


Þegar ég kom á skrifstofuna í morgun gluggaði ég síðan í Morgunblaðið frá 9. marz (svo) 1985. Þann dag fylgdi Morgunblaðinu sérstakt aukablað um Guðmund G. Hagalín (ég kláraði Kristrúnu í Hamravík – í fyrsta sinn – í gær) og eru þar margir sem minnast hans, meðal annars Guðmundur Daníelsson, Indriði G. Þorsteinsson og Sigurður Pálsson (f.h. RSÍ). Bara karlmenn, hjó ég eftir. Hvað um það – ekki veit ég hvort Halldóri Laxness var boðið að frumskrifa eitthvað í blaðið eða hvort þetta var fyrsta val ritstjórans, en þar birtist líka stuttur en skemmtilegur kafli úr Sjömeistarasögu hans þar sem HKL reifar samband sitt við hinn mikla Hagalín. Þar birtast brot úr tveimur „kvæðum“, sem Halldór nefnir svo, en ekki er nefndur höfundur – stíllinn á tilskrifinu er þannig að manni á sjálfsagt að skiljast að þetta hafi Halldór ort sjálfur. Mér fannst annað þeirra allavega nógu skemmtilegt að skrifa það hjá mér.

Í húsinu númer 3 við Mjóstræti maður nokkur var sleginn í rot; það var heiðursmaðurinn Ólafur Hvanndal brautryðjandi í myndmótagerð. Kært var fyrir lögreglunni málið en að vanda hún svæfði það svo rótt með þeim formála sem þar er vant að hafa að hér væri einkamál á ferðinni

Hitt kvæðið er í sama stíl og fjallaði um hest sem drapst úr skitu og varð fólki sorgardauði.

natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page