top of page

Dagur 61 af 90: Kompaní andans


Orðið sem kom fyrst upp í hugann var „snafu“. En sennilega meinti ég snurða. Að snurða hefði hlaupið á þráðinn. Snafu er amerískt hermannaslangur og stendur víst fyrir „status nominal all fucked up“. Þetta vissi ég ekki áðan, en þetta veit ég nú. Sennilega er þetta slangur of nýlegt til þess að hafa borist til Íslands í gegnum Miðnesheiðina og því hef ég það að öllum líkindum úr bíómyndum. Snafu hefur hlaupið á þráðinn.


Börnin eru að koma fram með tónlistarskólanum á Nótunni í Hörpu á helginni. Til stóð að Nadja færi með þeim – ég fór síðast, og stóð rúmlega fjölskylduvakt meðan hún var að æfa fyrir Vasagönguna – en hún fékk covid í byrjun vikunnar. Við hin sluppum vel að merkja öll, sjö, níu, þrettán og það allt saman – fengum að vísu flensu fyrir tveimur vikum, áður en Nadja fór í Vasagönguna, og testuðum okkur ekki af því það var enginn með covid í kringum okkur þá og það var ekki til neitt próf heima. Kannski var það covid.


Ég veit ekki hvort ég næ að vinna neitt – mun sjálfsagt reyna það og a.m.k. taka með mér útprent af einhverjum köflum til þess að lesa yfir. Ef eitthvað er að marka reynsluna mun rofið kosta mig dálítinn skriðþunga hið minnsta. Í versta falli verð ég að byrja að lesa mig aftur í gegnum alla þræði alveg frá byrjun sem er sjálfsagt verk upp á viku til tíu daga. Í besta falli verða bara fyrstu tveir-þrír dagarnir svolítið hægir. Í martraðarfalli missi ég allan kontakt, fyllist vonleysi og verð að fresta bókinni um ár (sem er reyndar ekkert óhugsandi líka þótt allt gangi upp og ég klári 15. apríl).


Þetta er samt pínu erfitt fyrir sjálfsmyndina. Að hafa ekki getað haldið þetta út – að hafa ekki tekist að setja bókina í forgang þann tíma sem til stóð. Níutíu daga. Ég er ekki mjög góður í að gera ekki það sem ég hef einsett mér – sennilega er ég það sem heitir að vera „ósveigjanlegur“. Og ástæðan fyrir því að ég gerði þetta var meðal annars sú að mér gekk illa að „finna tíma“ – það voru alltaf einhverjar bókmenntahátíðir, fjölskylduskyldur, veikindi, ritgerðaskrif, greiðar eða persónuleg og samfélagsleg hátíðahöld að trufla. Já og heilt jólabókaflóð fyrir bók sem ég var auðvitað löngu búinn að skrifa. Og tónlistardillan – sem segja má að sé miðaldurskrísan mín og er sennilega með skemmtilegri þannig, en vill sjúga svolítið upp starfsorku og athygli mína.


Ekki svo að skilja að ég sinni ekki skyldum mínum við fjölskylduna eða mæti ekki á hljómsveitaræfingar. En ég er ekki að semja neitt eða taka upp eða læra flókin ný lög eða nýja tækni og ég hef alveg látið vera að reyna að laga gólfhitann í eldhúsinu, sem klikkaði, eða sinna öðru viðhaldi og tek ekki til nema ég sé orðinn viðþolslaus (stundum, þegar ég er valtur, er einsog fljótlegasta leiðin til þess að beisla kaosið í sálinni á mér sé með því að beisla hluta-kaosið í kringum mig). Og þótt ég hafi afþakkað lengri ferðir fram í maí hef ég samt alveg stokkið til í eitthvað innanbæjarsmotterí og svona. Afþakka öll ritgerðaskrif en held áfram að blogga. Und so weiter.


Það er auðvitað ekkert skiljanlegra en að plön gangi ekki eftir. Vonbrigðin snúast sennilega mest um prinsippið. Og já það var augljóslega alltaf val að sleppa því bara að fara suður. Aram er að tromma með sveitinni en kennarinn hans hefði alltaf getað hlaupið í skarðið eða við sent hann með vini. Aino (sem skilur bassann eftir heima og er að syngja í kórnum) hefði annað hvort getað farið með flugi og við dömpað henni á vini í Reykjavík en því hefði sennilega fylgt að hún þyrfti að sleppa vinnusmiðjum sem hana langar í og mér finnst hún eiga skilið að fara á.


En mig langaði samt að leyfa mér þetta. Níutíu daga í röð. Það hefur alltaf verið í mér þráður sem vill öllu til kosta. Let it burn, meðan ég fæ að skrifa í friði. En það er líka í mér furðu mikil jarðtenging inn á milli og ég á mjög erfitt með tilhugsunina um að valda fólkinu sem treystir á mig vonbrigðum. Fjölskyldufrummanninum í mér finnst einsog ef hann standi sig ekki muni siðmenningin hrynja. Skáldfrummanninum finnst einsog hef hann standi sig ekki muni bókmenningin hrynja.


En jafnvel þótt allt fari á versta veg drepst enginn þótt ég klári ekki þessa bók í vor. Það er samt svo skrítið að til þess að skrifa hana er einsog einhver hluti af mér þurfi að trúa því að svo sé. Og sá hluti er eðlilega með böggum hildar og mjög vonsvikinn með okkur hina – í þessu kompaní andans sem er tilvera mín. En hann fær bara ekki að ráða að þessu sinni. Kannski næst.

natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page