top of page

Dagar fávisku og allsnægta


Í gær þegar ég vistaði bloggfærslu dagsins varð mér á að líta á bloggfærslu dagsins þar áður, þessari um að ég hefði skotið flugelda í smettið á mér fyrir dæmalausan fávitaskap, og áttaði mig snarlega á að fávitaskapurinn virðist ætla að fylgja mér langt inn í nýja árið. Mér tókst nefnilega einhvern veginn að eyða fyrstu 2-3 málsgreinunum í færslunni áður en ég póstaði. Og ég tók ekki einu sinni eftir því fyrren degi síðar. Færslan byrjar þannig in medias res einsog við köllum það „í bransanum“.


Eða í miðju kafi sem sagt, einsog það er kallað annars staðar en í bransanum.


Tölvuskerta lífið gengur annars ágætlega. Í morgun vaknaði ég hálfátta og lá í hálftíma og las Eld eftir Guðmund Daníelsson áður en ég setti á morgunfréttirnar og fór á fætur. Síðan leysti ég hálfa sudokuþraut í mogganum. Í gær hlustaði ég á Spegilinn. Ég hef fengið nokkra tölvupósta en alls ekki nein ósköp.


Ég hef ekki rekið mig á neina svakalega veggi. Að vísu þurftum við að losna við tvo forláta sófa, úr Trésmiðjunni Víði, sem henta því miður ekki „nútímafólki“ (sem er í yfirvigt og leyfir börnum að leika í sófum), og það er hægara sagt en gert Facebooklaus (Nadja er ekki heldur á FB og hefur varla verið nema í mýflugumynd fyrir hundrað árum). Við hefðum getað hengt upp auglýsingu í Neista en það er hæpið að neinn hefði séð hana fyrren eftir dúk og disk. Svo við báðum bara mömmu að setja inn auglýsingu fyrir okkur á FB. Þeir ruku síðan út einsog gersemarnar sem þeir eru. Nýi sófinn, sem kemur sennilega í dag eða á morgun, er ótrúlega plebbalegur í samanburði. Rándýrt og risavaxið koddaskrímsli. En það eru allir, sérstaklega unga fólkið, mjög spenntir að fá hann samt.


Aram reyndi svo að senda mér tölvupóst í fyrradag til að láta vita að hann ætlaði að vera í mat hjá vini sínum. Ég svaraði um hæl en hann sá aldrei svarið og kom á skrifstofuna til að segja mér það aftur. Aino fór líka óvænt heim með vinkonu sinni eftir sund en þá hafði mamman sent Nödju skilaboð (hún er með síma en mjög góð í að hunsa hann) sem uppgötvaðist of seint. Ég hugsa að ég hefði fengið þau skilaboð ef ég væri ekki búinn að slökkva á því öllu saman.


Ég þarf að hafa aðeins meiri tíma fyrir mér ef ég vil hitta einhvern í hádeginu. Þýðir ekki að senda tölvupóst korter í tólf einsog maður gæti gert með SMS.


Ég hef síðan skoðað uppskriftir í vinnunni og tekið með mér handskrifaða hráefnislista heim. Hugsanlega set ég þá bestu uppskriftirnar – og heimilisstandardana – í uppskriftabók sem við eigum en er mjög lítið notuð. Planið er síðan að vera duglegri að líta við í kaffi hjá fólki og svona.


SMS-leysið er nú sennilega það af þessu sem mun láta undan fyrst. Það truflar fáa nema mig að ég lesi ekki vefmiðlana eða sé í sífelldu spjallforritablaðri og þótt það trufli heimilislífið aðeins að ég sé ekki á Facebook og Messenger þá er Nadja það ekki heldur. En það er óforsvaranlegt að vera alveg símalaus nema svona rétt kannski út janúar.


Það sem ég nota enn, fyrir utan þetta blogg og tölvupóst, er streymi – Spotify, RÚV, BBC Radio og Netflix – myndavélin, rafrænu persónuskilríkin og svo heimildavinnugúgla ég heilmikið í vinnunni. Gúglið er reyndar komið yfir á DuckDuckGo. En þetta er mikið allsnægtalíf þótt það kalli á aðeins breytta (þægilegri) rútínu. Og það er meiri ró í kollinum á mér, þótt það sé auðvitað ekkert gefið að hún endist. Hún gæti líka bara verið komin til af tilbreytingunni.

natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page