da Dum dum dum: Muddy Waters

da Dum dum dum. Þótt flestir blúsar séu tólf bör með viðsnúningi (turnaround) er það samt yfirleitt þetta sem kemur fyrst upp í hugann þegar fólk almennt hugsar um blústónlist. da Dum dum dum. Eða da Dum da Dum dum. Stundum kallað i-iv-iii framvinda og hefur verið endurtekin svo oft með litlum breytingum að þeir sem eru viðkvæmir fyrir blústónlist fá útbrot í öðrum hljómi, en hinir gæsahúð. Frá Hardworkin man með Cramps  yfir í Rocky Mountain Way með Joe Walsh yfir í Bad to the Bone með George Thorogood yfir í milliriffið í Murrmurr eftir Mugison (með tvisti). Það mætti jafnvel bæta hérna við Green Onions riffinu – sem er næstum því da Dum dum dum riffið aftur á bak – og er varíant sem sést næstum jafn oft.

Fyrsta da Dum dum dum lagið er auðvitað Hoochie Coochie Man með Muddy Waters en samið – einsog nánast annað hvert blúslag á 20. öldinni – af bassaleikaranum Willie Dixon.

Muddy Waters fæddist í Mississippi – var skírður McKinley Morganfield, en fékk drullupollsviðurnefnið eftir sínu helsta áhugasviði í æsku (að leika í drullupollum) – og bjó þar og vann fram á fullorðinsaldur, á Stovall-plantekrunni í þessum einherbergiskofa.


Hann byrjaði að spila á gítar þegar hann var sautján ára og var undir miklum áhrifum frá Son House og sótti í að sjá hann spila við hvert tækifæri. Hér verður maður enn og aftur að hafa í huga að Son House var ekki vinsæll tónlistarmaður fyrren eftir að hann „enduruppgötvaðist“ 1964 – hann tók upp sín helstu lög rétt um það leyti sem kreppan skall á og plötubransinn hrundi og náði ekki meiri vinsældum en svo að af þeim fjórum plötum sem hann gaf út (fjórar plötur = átta lög – hann tók upp níu lög en það níunda var ekki gefið út) er bara til eitt einasta eintak af tveimur þeirra. Að hann skuli hafa haft náið samneyti og mikil áhrif á tvo frægustu blúsmenn seinni tíma – jafn líka og ólíka og Robert Johnson og Muddy Waters – er eiginlega með ólíkindum. Þegar maður svo bætir því við að Son House lærði sjálfur mikið af Charley Patton – sem var sá þvottekta deltablúsari sem mestum vinsældum náði á sinni tíð – er óskiljanlegt að hann skuli ekki hafa vakið meiri athygli samtímamanna sinna annarra. En það er önnur Ella!

Þegar þjóðfræðingurinn Alan Lomax birtist á Stovall plantekrunni 1941 og vildi taka upp Muddy Waters var Muddy þegar árinu eldri en Robert Johnson var þegar Robert dó – 28 ára gamall. Þá lék Muddy enn í deltastílnum – en var sparsamur á nótur, duglegri á bassanóturnar en háu nóturnar, og leyfir röddinni að njóta sín. Meðal laganna sem hann spilaði fyrir Lomax var eitt sem heitir einfaldlega Country Blues. Textinn þar er að mörgu leyti sá sami og í Walking Blues eftir Son House, sem Robert Johnson hafði tekið upp og er gjarnan kennt við hann, og laglínurnar skyldar, en Muddy hefur áreiðanlega lært af höfundinum. Þegar Eric Clapton tekur upp Walkin\’ Blues fyrir Unplugged plötuna sína notar hann hvorki útsetningu Son House eða Robert Johnsons heldur einmitt þetta Country Blues eftir Muddy. Þá útsetningu lærði ég sjálfur í Tónlistarskólanum á Ísafirði þegar ég var svona 15-16 ára og spila enn af og til. Hún er mjög fín, hvað sem líður áliti manns á Unplugged-plötu Claptons.

Muddy fékk síðan tvö eintök af plötunni og tuttugu dali. Hann fór með hana beint í næsta glymskratta, lék hana aftur og aftur – sagði frá því sjálfur að það hefði verið ólýsanlegt að heyra sjálfan sig syngja og spila á upptöku – fyrst þá hefði verið óhugsandi að sinna öðru en tónlist.

Tveimur árum síðar, 1943, var Muddy svo mættur til Chicago, tilbúinn til að takast á við framtíðina. Einsog svo margir aðrir var hann mörg ár í harki – keyrði vörubíl og vann í verksmiðju á daginn en spilaði um kvöld og helgar. Hann komst hins vegar fljótlega í vinfengi við vinsælasta blúsarann á svæðinu, Big Bill Broonzy, og fékk að hita upp fyrir hann og tók síðan upp einhverja tónlist fyrir Chess með settlegu kombói.

Á þessum tíma var rafmagnsgítarinn að ryðja sér rúms í blústónlistinni, þótt menn væru ekki alveg búnir að uppgötva hvers hann var megnugur – það sem heillaði var fyrst og fremst meiri hljómstyrkur á fjölmennari tónleikum, böllum og partíum. Plötufyrirtækin höfðu hins vegar takmarkaðan áhuga á skerandi hávaðanum í rafmagnsgítarnum – svo lítinn raunar að helsti gítarleikari Chicagotímabilsins, Buddy Guy, sem byrjaði að spila fyrir Chess-útgáfuna 1959, fékk ekki vinnu nema sem sessjónleikari í bakgrunni hjá öðrum fram til 1967. Af því hraður gítarleikurinn var einfaldlega afgreiddur sem hávaði. Muddy var hjá Chess einsog Buddy og svo margir aðrir og fékk fyrstu árin ekki að nota sína eigin hljómsveit í stúdíóinu. Sú hljómsveit, sem fylgir honum loks á plötum frá 1953, er einhver frægasta blússveit allra tíma. Little Walter á munnhörpu (og svo Junior Wells), Jimmy Rogers á gítar, Elga Edmunds á trommur, Otis Spann á píanó og oftar en ekki Willie Dixon á bassa. Fyrir utan Elga er enginn þarna sem á sér ekki sína eigin hittara – fyrir utan að vera í þessu ofsalega bandi – og þegar hann leikur fræga tónleika á Newport Jazz Festival sjö árum síðar eru allir í bandinu nema Otis (sem var orðinn hljómsveitarstjórinn) komnir með sólóferil í fúll svíng.

Eftir að Muddy tók upp Hoochie Coochie Man með þessu bandi árið 1954 – og slær þá fyrst endanlega í gegn, 41 árs gamall – kom annar Chicago-blúsari, líka fæddur í Deltunni, Bo Diddley með lagið I\’m a Man og notaði sama (eða svipað) da Dum dum dum riff til að bera það uppi. Það er einhver ruglingur með það hverjir nákvæmlega spiluðu undir hjá Bo en að öllum líkindum var píanóleikarinn sá sami og hjá Muddy – Otis Spann. Í sjálfu sér er þetta mjög ólíkt öðrum lögum Bos – sem voru mikið til leikin í sérstökum takti sem kallaður er Bo Diddley-bítið (nema hvað).

Þessu svaraði Muddy ári seinna með laginu Mannish Boy – sem er hans frægasta, auk Hoochie Coochie Man og I Got My Mojo Working – og aftur er það sama riffið sem ber lagið uppi. Því hefur stundum verið velt upp hvers vegna það sé ekki í höfundarétti – hvers vegna hver hljómsveitin á fætur annarri megi bara velta sér upp úr því óbreyttu án þess að borga kóng né presti. Í því sambandi er áhugavert að athuga að á meðan Hoochie Coochie Man er skrifað á Willie Dixon og I\’m a Man er skrifað á Bo Diddley er Mannish Boy skrifað á Muddy Waters og Bo Diddley – en ekki Willie Dixon. Þar munar sennilega öllu að textinn í Mannish Boy er unninn beint upp úr I\’m a Man en textinn þar er bara rétt svo „innblásinn“ af Hoochie Coochie Man. Willie virðist ekki hafa gert neitt mál úr þessu (en kærði og vann Led Zeppelin löngu seinna, fyrir að stela úr You Need Love fyrir Whole Lotta Love).

Maður verður að hafa í huga að frumleiki er ekki endilega grunntónn blússins, eða í það minnsta ekki frumleiki í sömu merkingu og lögð er í orðið frá og með Bítlunum, sirka. Blústónlistin er alþýðutónlist – folk – og sem slík er höfundarréttur ekki aðalatriði og hreinlega óljóst hver samdi hvað. Margir helstu blústónlistarmennirnir voru vanir því að spinna mikið á staðnum – úr brunni riffa og ljóðlína – og meðal annars þess vegna er merkingin í mörgum eldri blúsanna svolítið mikið á reiki. Ljóðlínur rekast á af því höfundarnir eru margir og sömu erindin rata inn í mörg lög og öllum var skítsama hver samdi hvað.

Þá fengu þeir sem tóku upp lög fyrir plötufyrirtækin borgað per lag – og síðan ekki söguna meir. Höfundarréttur var yfirleitt skráður á hvíta manninn sem tók lagið upp. Hvítu mennirnir gerðu kröfu um lágmarksfjölda frumsaminna laga – yfirleitt fjögur – þegar þeir bókuðu tónlistarmenn í upptökur. Þannig myndaðist þrýstingur á tónlistarmennina að hámarka fjölda frumsaminna laga með öllum tiltækum ráðum – Big Bill Broonzy tók upp ábyggilega 200 lög, en ef þú myndir þurrka burt lög sem eru „næstum eins“ og eitthvað annað sætu ekki eftir nema svona 50 stykki. Solid lög að vísu. Á böllum var kannski sama lagið leikið samfleytt í hálftíma – hent inn erindi hér og þar, sum frumsamin, önnur stolin – og það var ekkert í heiminum eðlilegra en að vísa í eitthvað annað lag með því að hirða úr því línu og línu eða byggja nýtt lag á gömlum grunni. Þessa sér svo stað í alls konar tónlistartrakteringum á 20. öld – frá því hvernig Bob Dylan leyfði sínum eigin lögum og koverum að vera fljótandi og breytast ár frá ári yfir í það hvernig Public Enemy stöfluðu saman vísunum með því að sampla austur og vestur.

Frumleikinn sem sótt er í og menn stæra sig af er meira frumleiki í merkingunni „primal“ – og hefur að gera með sánd og einkenni og heilindi. Þennan eiginleika að það er alveg sama hvað Muddy Waters myndi reyna að dulbúa sig – því við myndum þekkja þetta mojo hvar sem er.

1 view0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png