top of page

Blúsbloggið: Árslisti, færsla 3 af 3

Jæja. Efstu fimm sætin.


5. GA-20 – Try it ... You Might Like It: GA-20 Does Hound Dog Taylor


GA-20 er þriggjamanna Chicagoblúsband frá Boston sem nefnt er eftir frægum magnara frá Gibson. Þeir gáfu út sína fyrstu breiðskífu, Lonely Soul, fyrir tveimur árum og fylgja henni eftir með þessari – þar sem þeir leika einvörðungu lög af fyrstu tveimur breiðskífum Hound Dogs Taylor í tilefni af 50 ára afmæli fyrstu (og goðsagnakenndri) breiðskífu Hound Dogs, Hound Dog Taylor and the House Rockers. Það var sömuleiðis fyrsta breiðskífa Alligator Records – sem Bruce Iglauer bókstaflega stofnaði til þess að gefa út Hound Dog, þegar Delmark, þar sem hann vann, neitaði honum um gefa hann út þar. Hound Dog er í miklu uppáhaldi hjá mér – hrár og skrítinn og pönkaður – og ég hafði aðeins heyrt til GA-20 áður og þeir gera fara fjarska vel með efnið (þótt þeir kannski sýni því fullmikla virðingu).


4. William the Conqueror – Maverick Thinker


William the Conqueror er svolítið einsog ef John Fogerty og David Byrne myndu stofna blúsband í anda JJ Cale. Það svínvirkar. Skoskt tríó – frontmaðurinn Ruarri Joseph átti talsverðan feril áður en hann stofnaði þetta band.

3. Cedric Burnside – I Be Trying


Cedric er dóttursonur R.L. Burnside – sem Linda Burnside eignaðist með trommara pabba síns. Cedric var svo sjálfur farinn að spila í bandinu þrettán ára gamall (1991 – hann er jafn gamall mér, altso í það allra yngsta fyrir blúsmann). Geggjuð plata.

2. Delgrés – 4.00 AM


Ég lenti óvart á Delgrés-tónleikum á 100-club í London fyrir nokkrum árum – þegar ég missti af miðum á Ry Cooder fyrir vítavert gáleysi. En ef það hefði ekki verið fyrir þetta vítaverða gáleysi hefði ég kannski aldrei kynnst tónlist Delgrés og ekki orðið mér til skammar í tveggja tíma danstransi á þessum virðulega blúsklúbb.


Þetta er tríó (þriðja tríóið á topp fimm) sem gerir út frá París en frontmaðurinn, Pascal Danaë, er frá Guadalupe og syngur (mest) á kreólafrönsku. Fyrsta platan þeirra, Mo Jodi (Mourir aujourd'hui – að deyja í dag) er í gríðarlegu uppáhaldi hjá mér. Þessi er ívið rólegri og ég myndi sennilega ekki svitna jafn hressilega þótt ég dansaði hana á enda – en þó eru þarna nokkur sem setjast beint í dillandina í mér.

1. Sunny War – Simple Syrup


Sunny War er er einsog ... ef Elizabeth Cotten hefði eignast barn með Jimi Hendrix og það barn hefði gengið í tónlistarskóla Jeffs Buckley. Ég heyrði í henni í The BBC Blues Show einhvern tíma síðasta vor og keypti strax báðar plöturnar hennar. Mama's Milk er hittarinn en Like Nina er lag ársins.


Svona lítur þá listinn út í heild.


11. sæti: Fire it Up – Steve Cropper

10. sæti: Sharecropper's Son – Robert Finley

9. sæti: The Blues Album – Joanna Shaw Taylor

8. sæti: Delta Kream – The Black Keys

7. sæti: Heavy Load Blues með Gov't Mule

6. sæti: Nowhere Sounds Lovely – Cristina Vane

5. sæti: Try it ... You Might Like It: GA-20 Does Hound Dog Taylor – GA-20

4. sæti: Maverick Thinker – William the Conqueror

3. sæti: I Be Trying – Cedric Burnside

2. sæti: 4.00 AM – Delgrés

1. sæti: Simple Syrup – Sunny War


Þrjár sólókonur, þrír sólókarlar – fimm bönd, þar af einn dúett, þrjú tríó og einn kvartett. Ein skosk plata, ein bresk, ein guadalúpísk-frönsk og átta bandarískar. Fjórar koverlagaplötur. Það er minna af bæði deltablús og chicagoblús en í fyrra – meiri köntrí-, folk-, soul- og poppskotið. Ég á fjórar af þessum ellefu á vínyl og ætla að panta a.m.k. 3-4 í viðbót.



natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page