top of page

Dagur 78 af 100: Blúsnám


„Vestræn“ menning er óttalegur bastarður og eitt af því sem vert er að velta fyrir sér þegar menningarnám kemur til tals er hvenær eitthvað hættir að vera „nám“ og verður manns eigið. Hvenær það er svo að segja „fullnumið“. Hvenær tilheyrir kebabið manni – og hvenær hættir það þar með að vera „exótískt“ líka? Eða palestínuklúturinn? Einu sinni virtist manni sem hroðalokkar (svonefndir dreddar) væru fullnumdir af hvítum en síðan gerðist eitthvað – þeir voru sendir heim, einsog hver önnur handrit. Fyrir nokkrum árum var gert grín að kínversk-amerískri konu fyrir atlögu sína að hvítri konu sem ætlaði á dansleik í kínverskum kjól – það þótti svipað hallærislegt og þegar Lena Dunham setti sig upp á móti því að hvítt fólk borðaði sushi – en svo hef ég ekki mikið orðið var við svona kjóla síðustu árin. Kannski eru þeir horfnir. Er enn verið að selja Homogenic Bjarkar í sömu umbúðum? Eru til íslenskar k-popphljómsveitir? Geta þær verið til?


Einhver skaut því að mér um daginn í gríni hvernig ég héldi að því yrði tekið ef Straight Outta Compton yrði sett upp sem söngleikur með öllum helstu röppurum landsins í blackface. Þeirri spurningu þarf væntanlega ekki að svara en það sem sló mig við tilhugsunina var að Emmsjé Gauti og Erpur skólabróðir minn (og aðrir rapparar landsins) þurfa ekki að mála sig í framan til að útlit þeirra og atferli beri ramman „keim“ af menningarnámi. Þessi búningur – frá klæðnaði að orðfæri og líkamsbeitingu – er menningarnám. En þar er fullnumið, held ég. Að minnsta kosti er mjög langt síðan ég heyrði einhvern fetta fingur út í það og þegar það var gert – sem var á tíunda áratugnum – var það ekki menningarnámið sjálft sem þótti rasískt heldur viðbrögðin við því og orðfærið sem var notað til þess að fordæma það. Og ég held þess utan að Erpur og Gauti „séu bara svona“ – að svipta þá því væri að svipta þá sinni menningu og gera þá að einhverjum öðrum.


Ég man eftir pistli eftir ungan Hauk Má – sennilega einum af Víðsjárpistlunum, sem hann nefnir í nýlegum minningarorðum sínum um Eirík Guðmundsson – sem gekk sirka út á að í raun ættu Njáll á Bergþórshvoli og Gunnar og Hlíðarenda lítið í honum, þeir væru ekki hans menning, heldur væri hann einfaldlega, og einlæglega, alinn upp af Bob Dylan og Bítlunum. (Haukur er auðvitað 20 árum eldri en jafnaldrar sínir – en við höldum okkur samt við sjöunda áratuginn hér af því það er þægilegt).


Nema hvað. Bob Dylan fékk nóbelsverðlaunin fyrir að „skapa nýja ljóðræna tjáningu úr bandarískri sönghefð“. Þetta afrekaði hann með linnulausu menningarnámi – ekki síst úr tónlist bandarískra blökkumanna. Þetta held ég að sé ekki umdeilt og er sannarlega ekkert sem Dylan hefur mótmælt. Þvert á móti hefur Dylan, líkt og margir samtímamenn hans, verið duglegur að vísa til þess arfs, til Roberts Johnson, Bukka White, Blind Lemon Jefferson – og jafnvel nefnt þá í lögum sínum, „nobody sings the blues like Blind Willie McTell“ und so weiter. Fyrstu plötur hans voru líka mikið til blús-kover (það er svolítið undarlegt að tala um að kovera þjóðlög – en það er annar debatt). Hann var reyndar ekki endilega alltaf jafn duglegur við að kreditera hetjurnar sínar á plötum – t.d. kennir hann lag sem er (líklega) eftir Big Bill Broonzy og Jazz Gillum við útsetningu eftir Eric von Schmitt. En þá útsetningu, það plokk, lærði Eric von Schmitt einfaldlega af Reverend Gary Davis – og er stíllinn mjög einkennandi fyrir hans spilamennsku. Allir fimm eiga þeir talsvert í laginu en einungis hvítu mennirnir fá nafnið sitt á það. Það er ekki bara svívirða heldur líka nánast regla á þessum tíma (og þegar blökkumaður fékk nafn sitt skráð var það oft Willie Dixon, sem var bassaleikari og upptökustjóri hjá Chess og lét setja sitt nafn á óhemju af standördum frá öllum helstu stjörnum stúdíósins – og það eru víst einhver áhöld um það hvort hann hafi samið mikið í öllum þeim lögum, þótt hann hafi áreiðanlega verið fínt tónskáld – en það er önnur og lengri saga).


Þjóðlagatónlistin á þessum upphafsárum Dylans gekk út á þetta og hafði gert í fleiri áratugi – kannski árhundruð, kannski alltaf. Þjóðlagasöngvarinn átti að þvælast um sveitir landsins og læra ný lög til þess að syngja með sínu nefi og til þess að hræra saman við önnur lög svo úr yrðu ný. Dylan er stundum kallaður póstmódernisti í þessu – en þá eru Robert Johnson og Muddy Waters líka póstmódernistar. Því þeir voru allavega jafn þjófóttir.


Í árdaga upptökualdar virkaði það líka þannig að ef einhver tók upp hittara var víst að sami myndi gera 10 framhaldsútgáfur – til þess að mjólka vinsældir hins fyrsta; hugsið um Aerosmith-ballöðurnar sem ráku hver aðra allan tíunda áratuginn og hljómuðu allar meira og minna eins – og annar hver starfandi músikant myndi taka upp sín eigin tilbrigði með misnýjum texta.


Í grunninn er þetta alltaf menningarnám – og gleðilegt, stórkostlegt – og verður ekki verulega sárt fyrren sá sem hærra situr í samfélagshírarkíunni fer skyndilega að græða meira á því en sá sem kenndi honum músíkina. Muddy Waters og Howlin' Wolf fannst áhugi ungra hvítra breta á tónlist sinni dásamlegur – það höfðu allir misst áhugann á þeim í Bandaríkjunum og hvítu bretarnir voru duglegir við að benda á Muddy og Wolf sem fyrirmyndir sínar, draga þá með sér á túr og jafnvel í sjónvarpssal (þar sem blökkumenn voru ekki aufúsugestir annars) – alveg þangað til, einsog Muddy Waters orðaði það, hann var farinn að horfa á einkaþotur Rolling Stones og Cream fljúga heimsálfa á milli yfir höfuð sér meðan hann mátti enn þola að rúnta milli klúbba í Chicago á skitnum kadilják.


Ég held að fólki finnist það hálffáránleg hugmynd í dag að það sé einhvers konar svívirða að hvítt fólk spili blústónlist. En mörgum fannst það þá – hvítu millistéttinni þótti það skelfilegt, svörtu millistéttinni (sem var hætt að hlusta á blús) fannst það vandræðalegt, svörtum tónlistarmönnum fannst það mest skrítið, en svörtum aktífistum fannst það glæpur.


Enn fáránlegri er hugmyndin um að einhver spili blúslausa tónlist, því áhrif blússins – bókstaflega það hvaða nótur þú getur spilað, hvernig þú spilar þær, hvernig stefin líta út og hrynjandin; fyrir utan vinnulagið, þessa stelihrærigrauta og fagurfræði tónlistarmannsins sem hættulegs utangarðsmanns – ganga þétt í gegnum nánast alla nútímahryntónlist. Blús er grunnurinn í djassi og R&B sem er grunnurinn í soul sem er grunnurinn í fönki sem er grunnurinn í diskó. Og blús er grunnurinn í rokki – öllum mögulegum tegundum þess. Blús er náskyldur hipphoppi. Og svo framvegis og svo framvegis.


Handy (efri) og Patton.

Frá upphafi er blús líka hræringur úr afrískri hryntónlist á evrópsk hljóðfæri – og undir áhrifum frá alls kyns annarri þjóðlagatónlist (á tímabili var m.a.s. mjög vinsælt að jóðla í blús), tin pan alley lagasmíðum og sérstakri tegund þrælasöngs sem varð líklega til í Bandaríkjunum. Einsog til að undirstrika það allt saman var maðurinn sem er gjarnan kallaður „faðir deltablússins“ – Charlie Patton – ekki svartur nema í aðra ættina, og líklega Cherokee (en hugsanlega mexíkóskur eða hreinlega evrópskur) í hina. Og hinn faðirinn – sá sem skapaði djassaðri blúsinn – W.C. Handy var tónlistarskólamenntað tónskáld, jakkalakki sem samdi músík með penna, og hann heyrði blúsinn fyrst sem fullorðinn maður þegar hann sat á brautarstöð og hlustaði á einhvern fátækling gutla úti í horni fór svo heim og endurskapaði það fyrir borgarhljómsveit.


Aftur að upphaflegu spurningunni. Hættir menningarnám nokkurn tíma að vera menningarnám – getur menning sem er numin af öðrum þjóðfélagshóp nokkurn tíma orðið „okkar“?


Ég held að svarið blasi við og að það sé já. Blústónlist er þægilegt dæmi – en hún er bara eitt dæmi, þetta á við um rosalega, rosalega, rosalega margt annað í menningu „okkar“. Hún tilheyrði einu sinni tilteknum afkima, tilteknum undirokuðum þjóðfélagshópi; hún var innbyrt og endurleikin og stolin af öðrum betur settum þjóðfélagshópi sem elskaði hana og virti (mestmegnis) og lagði mikið upp úr því að vera „ekta“; það olli umtalsverðum sárindum og var fjárhagslega og félagslega óréttlátt. Og svo rann hún saman við bókstaflega allt – meðal annars vegna þess að eðli hennar var þannig að hún var góð til sambræðslu, hafði alltaf verið teygjanleg og til í tjútt. Og afleiðingin er sú að meira að segja þeir sem hlusta ekki á neitt sem þeir myndu kalla „blús“ – meira að segja þeir sem hata blús – eru aldir upp á blússkyldri músík og blúsafbrigðum sem væri ekki til án þessa menningarnáms.


Ég veit í sjálfu sér ekki hvort maður „á“ þá menningu sem mótar mann – kannski er menningin ekki „okkar“, kannski er menningin einfaldlega „við“.


Ég myndi síðan gjarnan vilja halda því opnu að það sem gerist þegar einhverjir lúðar mála á sér augun til þess að syngja ítalskar óperur um Japani verði kallað eitthvað annað en „menningarnám“ – kannski bara vaudeville? Því þótt menningarnám sé sannarlega próblematískt og endurspegli þá valdastrúktúra sem þjóðfélag okkar byggir á værum við öll fátæk og heimsk og stirð án þess, og hitt – að gera það af vanvirðingu og frekju; frekar en bara illa, því vond list og klaufaskapur er oft guðdómlegra en nokkuð annað – þarf eiginlega að heita eitthvað annað.

natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page