top of page

Bókaárið


Við komum heim í gærkvöldi. Beint í þriðjudagstilboð á Hamraborg. Svo matur hjá mömmu og pabba í kvöld. Sem er ágætt – ekki síst út frá sparnaðarsjónarmiðum, ég er víst nær gjaldþroti en lífi sýnist mér á reikningsyfirlitunum sem ég skoðaði út um annað augað í morgun (með báðar hendur fyrir andlitinu). Eyðslumegrun var svo skellt á listann yfir áramótaheitin. Það kemur margt til. Við höfum keypt alveg fáránlega mikið af bókum síðustu mánuði – ég hef verið alltof duglegur að éta á skyndibitastöðum í hádeginu og spreða svo í kvöldmatinn. Svo er bara dýrt að fara til útlanda um jólin – dýrt að vera ekki heima hjá sér. Dýrt að vera múltíkúltí. Dýrt að halda jól. Nú myndi ég leggja út net fyrir aukaverkefnum ef ég væri ekki þegar með eitt sæmilega stórt aukaverkefni á borðinu hjá mér – sem ég get varla beðið eftir að losna við svo ég komist aftur í bókina mína.


Ég fór í gegnum lestrarárið mitt í morgun. Einsog ég hef nefnt voru þetta sléttar 300 bækur sem ég las í fyrra. Þar af voru 166 skáldsögur, 63 ljóðabækur, 5 teiknimyndasögur, 24 smásagnasöfn, 8 æviminningar, 3 ævisögur (ritaðar af þriðja aðila), 16 bækur almenns eðlis, 3 örsagnasöfn, 1 leikrit, 6 glæpasögur og 4 sjálfshjálparbækur. Og 1 barnabók – allt fyrir 12 ára og eldri sirka var talið með skáldsögunum.


170 af höfundunum voru karlar, 120 voru konur, 9 bókanna voru skrifaðar af höfundum af fleiri en einu kyni og 1 var skrifuð af kvári.


243 bókanna voru á íslensku, 36 voru á ensku, 20 voru á sænsku og 1 var á norsku.


175 bókanna voru íslenskar að uppruna – 25 voru bandarískar, 17 voru sænskar, 14 voru franskar, 7 voru rússneskar, 6 voru finnskar, 6 argentínskar, 6 enskar, 4 skoskar og 4 norskar, 3 voru ítalskar og jafn margar írskar og mexíkóskar, tvær voru úkraínskar og jafn margar kólumbískar, pólskar, hollenskar, austurrískar og svissneskar. Eina las ég bók frá Kúbu og jafn margar frá Grænlandi, Kína, Ungverjalandi, Júgóslavíu, Marokkó, Nígeríu, Kanada, Danmörku og Spáni. Eina bók las ég líka sem merkt var gervallri Asíu.


31 hlustaði ég á. Þrjár las ég upphátt. Nítján voru rafbækur, þar af þrjár lesnar á síma og 16 á kindli. 31 bók var ég ekki að lesa í fyrsta sinn. Lengsta bókin var líklega Fjallkirkjan (sem ég taldi sem eina bók þótt hún sé tæknilega séð fimm) og sú stysta einhver ljóðabókanna – kannski Humm eða Urta. En „stærð“ bóka er auðvitað frekar afstæð.


Eftirminnilegast var að kynnast höfundum sem ég hafði ekki lesið áður, einsog Ali Smith, Ninu Berberova og Gunnari Gunnarssyni. Þá las ég og endurlas svolítið af bókum Alains Mabanckou – sem er fæddur í Kongó en telst með frönskum bókmenntum í upptalningunni hér að ofan. Kynntist konum sem skrifuðu á Ísafirði fyrir meira en öld – einsog Herthu Schenk Leósson og Arnrúnu frá Felli. Tók líka sveitunga minn Guðmund G. Hagalín fyrir, einsog Rúnar Helga, Bennýju Sif, Njörð P. og fleiri sem skrifað hafa um Ísafjörð. Las í fyrsta sinn myndasöguna Palestine eftir Joe Sacco. Féll fyrir Amelie Nothomb og Torgny Lindgren. Rakst á finnska bókmenntahátíð sem ég hafði sjálfur sótt í skáldsögunni Monu eftir Polu Oloixarac. Alls konar sænska kunningja í Klubben eftir Matildu Voss Gustavsson – og íslenska vini í eigin bókum, einsog Björk Þorgrímsdóttur, Steinar Braga, Hauk Má Helgason, Kristínu Eiríksdóttur, Ófeig Sigurðsson, Hermann Stefánsson og fleiri. Í Civilizations eftir Laurent Binet er mannkynssögunni breytt þannig að Freydís Eiríksdóttir – dóttir Eiríks Rauða – verður eftir í Ameríku og skilur þar eftir sig járngerðarlist og ónæmi fyrir sjúkdómum (þegar Kólumbus mætir er honum slátrað og innfæddir ameríkanar fara í víking til Evrópu). Colson Whitehead náði mér loksins í Harlem Shuffle. Ferrante náði mér líka en missti mig svo bara aftur.


Ég fékk ljóðlistartryllinginn minn frá Birtu Ósmann, Alejöndru Pizarnik, Steinunni Arnbjörgu og Jóhanni Hjálmarssyni (merkilegt nokk), ljóðlistarskerpuna frá Lousie Glück og Sjón – rifjaði svo upp ljóð Einars Más á hljóðbók (og fékk svo veruleikahnykk þegar síminn hringdi og á línunni reyndist sami Einar Már og ég var að hlusta á, í sama síma, með sömu rödd). Fór til Færeyja með Hannesi Péturssyni, til fv. austantjaldslandanna með Vali Gunnarssyni, inn í myrkrið með Conrad og út í Flatey með Bergþóru Snæbjörns. Mælti mér svo mót við Ursulu LeGuin á árinu 2002 (hún lagði af stað 1971 en ég kom bara héðan).


Endurlestrar ársins voru verk Eiríks Guðmundssonar annars vegar – sem lést í haust og er sárt saknað – og White Noise eftir Don Delillo, sem var síðasta bók ársins og upptaktur að nýrri mynd sem ég horfði á á nýársdag (og gladdi mig mjög).


Ég ætlaði að velja bók ársins en það er ekki nokkur vinnandi vegur, ef ég á að segja ykkur alveg einsog er. Þetta voru ekki allt bækur ársins en mjög margar þeirra voru það.

1 comment
natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page