top of page

Beint í grímuna

Það versta í þessu er að ég vissi sennilega að þetta myndi gerast. Ég vissi að hausinn væri laus og ég vissi – þótt ég hefði ekki fattað það í hita leiksins – að hann færi ekki upp í loftið. En klukkan er þarna eina mínútu í tólf – við vorum sein að hita foreldra mína og systkini, tempóið er hratt, ég er með nokkra drykki í blóðinu, búinn að hlaupa til og skjóta upp tveimur litlum, blysin höfðu gleymst. Svo er klukkan eina mínútu í tólf og ég gríp þessa sjö þúsund króna sprengju, geng af stað með hana og hausinn dettur af. Fyrst er ég bara hissa – hvernig í ósköpunum gerðist þetta. Ég tek hausinn upp, held á hausi og priki í höndunum í augnablik og hugsa að þar hafi andskotinn hafi það sjö þúsund krónur farið fyrir lítið. Svo sting ég prikinu í gatið og það fer inn, situr kannski ekki grjótfast en allavega ekki alveg laust heldur. Og klukkuna vantar 30 sekúndur í miðnætti – börnin mín standa spennt fyrir aftan mig og bíða þess að pabbi skjóti upp rakettunni og nýja árið taki við. Fokk it, hlýtur að virka. Svo ég haltra af stað staflaus út í snjóbreiðuna og kveiki í skepnunni sem springur síðan úti á götunni fyrir framan mig þegar ég er að skakklappast í skjól.


Ég var fljótur að finna góða skapið aftur, svona miðað við – ef þetta hefði verið eitthvert annað augnablik en einmitt þetta, þar sem maður fagnar með sínum nánustu og allir eru glaðir, hefði ég áreiðanlega farið heim í sjokki bara að sofa og skammast mín.


Ég veit ekki hvort mér leið svo betur eða verr að frétta af æskuvini mínum sem kveikti óvart á útibombu inni hjá sér, fattaði það ekki fyrren fór að rjúka úr henni og rétt náði með ofsafengnu snarræði að grýta henni út um útidyrnar áður en sprengingarnar byrjuðu. Í sjálfu sér höfum við báðir áreiðanlega séð það svartara – við erum af mikilli bombukynslóð. Það var reglulega hleypt af flugeldum inni í grunnskólanum þegar við gengum í hann og svo var enginn maður með mönnum sem ekki bjó til röra- og meðalaglasasprengjur úr flugeldum. Kynslóðin má sennilega heita góð bara að það vanti ekki á okkur fleiri fingur og augu. Svo má kannski til sanns vegar færa það sem Nadja sagði að slys þar sem engan skaðar þjóni þeim tilgangi að minna mann á að fara varlegar næst. Þegar ekkert fari úrskeiðis í langan tíma verði maður værukær og þá sé hætt við að maður fari sér að voða – en nú er maður ómeiddur og fer varlegar næst.


En svo styttist auðvitað í að þetta verði bara bannað. Við erum ekki lengur þjóðfélag sem tignum háska – við tignum öryggi.


Og af því að þið spurðuð þá var ég nú bara frekar hrifinn af skaupinu. Um mitt skaup hugsaði ég: þetta er besta skaup frá því ég var barn. Svo var þetta nú eitthvað þynnra í restina, en mér fannst það aldrei neitt undir pari. Mér fannst Kötludjókið frábært en það virðist almennt ekki hafa verið mjög vinsælt. Og raunar hitti ég engan síðar, hvorki um kvöldið né á helginni, sem var mjög ánægður með skaupið. Það á sérstaklega við börn undir tíu sem ég hef rætt við og áður en þið nefnið það vil ég taka fram að þau voru ekki heldur ánægð með krakkaskaupið.


Ég er búinn að slökkva á allri netnotkun nema þessu bloggi og tölvupósti (og kannski einhverju vinnutengdu gúgli) svo ég veit heldur ekkert hvað „samfélagsmiðlum“ fannst. Ég las gamlársmoggann, horfði á kvöldfréttir í gær og hlustaði á tíufréttir í morgun og þar kom ekkert fram um samfélagsmiðlaskoðanirnar – þótt fólk á förnum vegi hafi verið spurt í kvöldfréttunum. Það fólk var nú bara svona temmilega misánægt, einsog maður segir. Voða mikið mje.


Mogginn kom mér annars á óvart. Hann var mjög fínn bara. Það var meira að segja alltílagi að lesa repúblikanaröflið í Staksteinum og Leiðara. Innsýn í hugarástand sem maður sker annars hjá og fær aldrei nema í sinni allra ýktustu mynd, þegar eitthvað verður viralt. Og í Mogganum var líka grein þar sem Árni Matt bar saman Merkingu og Einlægan Önd og kallaði báðar „afbragðs skáldsögur“ (eða eitthvað álíka). Og grein eftir Mörtu Smörtu með nýyrðinu „arfavinsæll“. Einhver ráðleggingardálkur lögfræðistofu er víst vinsæll einsog arfi. Og viðtal við Isabelle Allende og annað við Chomsky (sem ég er ekki kominn í reyndar). Ársútlegging frá Siggu Kling. Og sitthvað fleira skemmtilegt!




natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page