top of page

90 dagar


Ég hef tekið ákvörðun um að hætta að paufast í skáldsögunni minni og setja mér einhver raunveruleg markmið, einsog það heitir í sjálfshjálparbókunum. Síðustu misserin hef ég mikið sinnt öðru – greinarskrifum, bókarkynningu, ferðalögum, lagasmíðum, heimasíðugerð, húsnæðisviðhaldi og veseni – ofan í oft mjög ómarkvissa heimildavinnu. Eða bara leyft mér að standa álengdar og íhuga hana án þess að koma miklu í verk. Oft hreinlega engu svo vikum skiptir. Kannski er þetta eitthvert form ritstíflu – einhver átakaflótti. Mig langar að þessi bók verði góð. Mjög mikið. Ég má ekki til þess hugsa að hún verði það ekki. Mér þykir of vænt um það sem er komið, um persónurnar og konseptið og stemninguna og ég vil ekki klúðra þessu.


Ég svo sem lagði upp með að gefa mér góðan tíma – drífa mig ekki, heldur leyfa henni að klárast á sínum eigin hraða. Og það hefur áreiðanlega í og með verið hollt en nú er samt nóg komið af drolli.


Samkvæmt áætlun er ég sirka hálfnaður í gegn – eftir tvö ár – en ég gef mér þrjá mánuði til þess að klára. Þetta er auðvitað ekki sanngjarn samanburður, tvö ár annars vegar og þrír mánuðir hins vegar, af því heimildarvinnan er öll í þessum tveimur árum og langflestar kreatífar ákvarðanir – auk þess sem ég hef hent óhemju af texta og glósað. Og þetta er alveg gerlegt. Ég þarf ekki að skrifa að meðaltali nema um 600 orð á dag. En þá þarf ég líka að skrifa 600 orð á dag alla daga, sem er ekki alveg jafn auðvelt og það gæti virst samt. 1000 orð er svona klassískt markmið fyrir fimm daga vinnuviku – sumir skrifa 2000-3000 orð skilst mér. Sumir skrifa líka alltaf, alla daga. Kerouac náði 5700 orðum á dag þegar hann skrifaði On the Road – 120.000 orðum á þremur vikum. En hann svaf heldur ekki og var á eiturlyfjum – og það var um þetta ævintýri sem Truman Capote sagði „That's not writing, that's typing“. Bloggfærslan mín hérna um daginn – þar sem ég rak starfsferilinn í grófum dráttum frá því ég ákvað að byrja að skrifa og þar til það var orðið sæmilega stabílt – var einmitt í þeirri lengd og skrifuð á einum degi. Og það var einmitt ekki writing, það var mest bara typing. Ég skrifa frekar hægt.


Eitt af því sem mér finnst erfiðast við að skrifa er að halda einbeitingu til lengri tíma. Ef ég þarf að sinna einhverju öðru í marga daga á milli – t.d. fara á einhverja bókmenntahátíð eða skrifa einhverja grein – reynist mér oft erfitt að komast aftur inn í handrit. Það getur tekið marga daga, jafnvel vikur. Og í átakinu við að komast aftur inn enda ég líka oft á því að breyta einhverju lykilatriði – kannski bara einhverju í tóninum, kannski í strúktúr, nú síðast bætti ég inn karakter sem þarf að vera með frá byrjun bókar – sem svo kallar á það sem er komið verði endurskrifað.


Hvað um það. Ég hef nú ýtt frá mér öllum öðrum verkefnum, klárað eða aflýst – og tek engin ný að mér. Ég fer ekki neitt úr bænum og tek ekki frí. Ekki á helgum, ekki á páskum, ekki einu sinni á maskadaginn. Næstu 90 dagana – eða 88 dagana, ég byrjaði í gær – ætla ég að komast út á enda í þessari helvítis bók. Ég lofa svo að láta ykkur vita hvernig það gengur, svona um það bil jafn óðum.

natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page