top of page

Yfirskegg


Bókaverslun Jónasar Tómassonar.

Bloggsíðan mín býður nú upp á að ég láti gervigreind skrifa titilinn fyrir mig. Titlarnir sem hún stakk upp á voru allir klénir og ófrumlegir, svo það sé nú bara sagt, en kannski mataði ég hana ekki á nógu óklénum og frumlegum upplýsingum um það sem ég ætlaði að skrifa. Kannski er meira að segja tímafrekara og erfiðara – meiri list – að mata gervigreindina á réttum upplýsingum til þess að fá góðan titil, en að búa bara til góðan titil sjálfur. Yfirskriftina. Sem er núna yfirskegg.


Fyrir nokkrum vikum áttum við dóttir mín einlæga samræðu um orðið yfirskegg. Ég var að lesa fyrir hana bók og þar kom þetta fyrir – nema ég las alltaf yfirvaraskegg. Sem er miklu betra orð, þokkafyllra, lengra og nákvæmara. Og jú víst, lengra er oft betra, yfirskegg er nýsprok (newspeak) fyrir einfeldninga í tímahraki – vængstyttur viðbjóður.


Nema hvað. Dóttir mín sem sagt tók eftir þessu og í stað þess að spyrja hvers vegna ég læsi alltaf „yfirvaraskegg“ spurði hún hvers vegna (í ósköpunum!) stæði alltaf „yfirskegg“ þegar „yfirvaraskegg“ væri ekki bara betra heldur líka fallegra og réttara. Við þessu átti ég svo sem ekkert annað svar en að taka undir, þetta væri undarlega skrifuð bók, en sem betur fer væri hægt að laga hana í upplestri.


Á dögunum var ég svo að blaða í minni nýju skáldsögu og rak mig þá á þennan hroðbjóð. Það stendur sem sagt „yfirskegg“ í bókinni minni! Þetta verður að sjálfsögðu lagað í endurprentun, og ég sýni því fullan skilning ef þið viljið bíða þar til bókin er uppseld og endurprentuð, en ég er samt miður mín. Ég hélt fyrst að þetta hefði kannski gerst í prófarkarlestri, af því ég vil alltaf kenna öðrum um eigin fáræði, en finn þetta líka í nærri þriggja ára gömlu uppkasti – og þá hafði enginn snert það nema ég. Orðið kemur bara einu sinni fyrir, sem betur fer, og fallega orðið „yfirvaraskegg“ sömuleiðis einu sinni (það er meira að segja verið að tala um sama skeggið). Sennilega hef ég eitthvað verið að rembast – eða verið að máta mig við þetta og ekki verið kominn með sama ógeð og ég er með núna.


***


Hér var stuð á helginni annars. Fullt af fólki í bænum til að taka þátt í dagskrá vegna útgáfu bókarinnar Menning við ysta haf – útgáfuhóf í Safnahúsinu, upplestur í Edinborg og stemning. Á sunnudeginum fékk ég svo Hermann Stefánsson og Oddnýju Eir (og hennar átta ára Ævar) í mat. Það var ekki minna gaman. Þau rétt komust svo heim til sín á mánudeginum áður en veðrið varð vitlaust.

natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page