Viðskiptabann: Mánuðir 3 og 4

Það eru tveir mánuðir liðnir frá því ég síðast gaf skýrslu um hálfsárslanga bókmenntaviðskiptabannið sem ég setti á mitt eigið góða kyn. Auðvitað er þetta viðskiptabann undirorpið alls kyns undanþágum – fyrir það fyrsta les ég einsog allir aðrir frekar stefnulaust það sem lendir á Facebookflæðinu mínu og þar lendir helvíti mikið af bókmenntum, aðallega ljóðum, og ég les þau jafnt þótt þau séu skrifuð af fólki með typpi, á typpinu, með typpinu, einsog það teljist ekki með af því það er á tölvuskjá.

Í öðru lagi er ég alls ekki fullkomlega frjáls um hvað ég les – bókmenntir eru líka vinnan mín. Fyrri mánuðinn þurfti ég meðal annars að lesa heila bók eftir sjálfan mig upphátt, tvö leikrit (bæði eftir karlmenn), og þrjá risastóra hauga af ritsmíðum – ljóðum, smásögum og fyrirlestrum – fyrir eitt námskeið þar sem ég var að kenna, annað námskeið þar sem ég þurfti að velja inn þátttakendur (og verður haldið eftir rúma viku) og fyrir ráðstefnu sem ég sótti í Finnlandi. Eftir höfunda af öllum hugsanlegum kynjum, þjóðernum og ekki síst aldri.

Nema hvað. Fyrri mánuðinn las ég sem sagt bara eina einustu skáldsögu og gerði það á lúshægu tempói. Everything I never told you eftir Celeste Ng, frá Bandaríkjunum. Dóttir Lee fjölskyldunnar finnst drukknuð úti á stöðuvatni og enginn veit hvers vegna – hún byrjar svolítið einsog þriller – og svo kemur í ljós að foreldrar vita eiginlega ekkert um dóttur sína og bókin verður einhvers konar íhugun. Ég féll ekki fyrir þessu. Það er eitthvað við bandarísk ritlistarskrif, þetta er of fíníserað, búið að umskrifa það of oft og einhvern veginn einsog það sé aldrei hjólað í sjálfa hugmyndina – meira að segja átökin verða tilgerðarleg og ég finn ekki fyrir kjötinu og blóðinu. Það var þó ein sena þar sem móðirin fer í dagbækur dóttur sinnar og uppgötvar að þær eru allar tómar – dóttirin hafði sest niður og þóst skrifa í þær árum saman, raðað þeim snyrtilega í hillurnar, merkt þær með dagsetningum, en aldrei skrifað neitt. Sem var þrúgandi. Og svo voru einhverjar pælingar um merkingu þess að vera af asískum ættum í Bandaríkjunum (einsog pabbinn í fjölskyldunni) – en svo sem ekkert nýtt.

Seinni mánuðinn las ég svolítið meira fyrir sjálfan mig. Þar má fyrsta nefna En Plastig Trea eftir Petru Hulova – hún er tékknesk og ég las bókina sem sagt á sænsku, titillinn myndi útleggjast Plastkennd þriggja herbergja íbúð eða álíka. Bókin er eiginlega bara einræða vændiskonu sem býr í téðri íbúð. Hulova fetar einhverja ótrúlega fína slóð milli þess að fegra starfið og fordæma það, sýna það „einsog það er“ (eða einsog maður ímyndar sér að það geti verið). Merkilega mikið af reiðinni (ekkert pun) í bókinni (sem er góður skerfur af) vísar annars út úr íbúðinni og út í samfélagið og margar kaldranalegustu og skörpustu einræðurnar snúa að stöðu vændiskonunnar sem neytanda í neyslukapphlaupinu (þegar hún fer í tískubúðirnar að eyða peningunum). Mjög gott.

Það væri líklega rangt að segja að ég hafi lesið Gone with the Wind eftir VANESSU PLACE (altso, ekki Margaret Mitchell). Verkið, sem er einhvers konar konseptljóð, og er stundum bara kallað GWTW, gekk út að tweeta allri skáldsögunni (eftir Margaret Mitchell). Vanessa, sem er bandarískur lögfræðingur og konseptskáld sem hefur aðallega unnið með texta um kynferðisofbeldi, byrjaði á þessu árið 2009 og lauk því fyrir svona tveimur vikum. Þetta vakti enga sérstaka athygli lengst af en einhvern tíma fyrr í sumar, eftir að Kenny Goldsmith var húðskammaður fyrir að lesa rímixaða krufningarskýrslu Michaels Brown sem sitt eigið ljóð, lenti hún í pólitísku hakkavélinni – var rekin úr skipulagningarnefnd fyrir AWP ráðstefnuna, afbókuð á upplestra og hátíðir, og almennt úthúðað á internetinu. Vegna þess sem sagt að bókin er alveg hryllilega rasísk og að Vanessa sé í verkinu að endurfremja rasískan gjörning. Ástandið varð nógu alvarlegt til þess að NCAC (National Coalition Against Censorship) sá sér ástæðu til þess að gera athugasemdir við meðferðina. Hvað um það, svo lauk þessu og fjallað var um Vanessu – sem er svo nístandi gáfuð og riskí að ég svitna bara af því að hugsa um hana – í Dismagazine, þar sem hún sagði meðal annars:

[GWTW] is in part about social media, and the way social media works,” says Place. “And social media is an aesthetic medium. What happens when you have overt antagonism or antagonistic content, on social media? On the surface, it’s so much based on affinity, and liking, and following, and a sense of community. But at the same token, the only way to consistently affirm your community is by having something to rally against. And then we can find out who our friends really are. It’s predicated on [the fact that] we all think the same thing. We don’t go to social media to be confronted by things we don’t understand or don’t agree with, which is maybe why we go to museums, or conferences, or universities. Do we really want museums and galleries, especially museums, to be curating based upon what people know they already like?

Annars er alveg óhætt að mæla með allri greininni í Dismagazine. En ég las auðvitað ekki öll tweetin heldur las ég bara brot og brot og óhemju af greinum um gjörninginn þar sem hann var krufinn og (fyrst og fremst) fordæmdur. Og ég hef aldrei lesið Gone with the Wind eftir Margaret Mitchell, hef ekki einu sinni séð myndina.

Bókin sem ég las best þennan mánuðinn var Vitsvit eftir Athenu Farrokhzad, sem er sænsk af írönskum ættum. Af því ég er að þýða hana. Og þá heitir hún Hvítsvíta – sem er ekki fullnægjandi þýðing en það eru engar fullnægjandi þýðingar á neinu. Hér er lítið ófullnægjandi sýnidæmi:

Faðir minn sagði: Væri hægt að keppa í píslarvætti myndi móðir þín gera allt til að tapa
Móðir mín sagði: Hjartað er ekki einsog hnéð sem má beygja að vild
Faðir minn sagði: Jafnvel haninn sem ekki galar fær að sjá sólarupprásina
Móðir mín sagði: En ef hænan verpir ekki verður hún borin fram í kvöldverð

Þá las ég Landið sem ekki er til sem er úrval ljóða eftir Edith Södergran í þýðingu Njarðar P. Njarðvík. Ég hef ótrúlega lítið lesið Södergran þótt ég eigi einhvers staðar heildarsafnið á sænsku en það er samt skrítið að lesa þetta á íslensku – ekki vont, bara skrítið, mér sýnist Njörður gera þetta vel og af vandvirkni. En stundum finnst mér líka einsog ég búi einfaldlega ekki yfir nægri hugarró til að lesa Södergran einsog hún á skilið. Ég hneigist til þeirra ljóða sem búa að orðagnótt og það eru nokkur þannig þarna, nokkrir óðir sálmar – viðkvæmu ljóðin höfða síður til mín. Eða kannski höfða þau síðar til mín. En eitthvað einsog þetta er mjög gott:Afsakið þumalinn.

Í gær keypti ég mér svo tvær ljóðabækur í Stokkhólmi (eiginlega þrjár, en sú þriðja bíður haustsins, eða ein og hálf gerir það). Det här är hjärtat er nýjasta ljóðabók hinnar sænsku Bodil Malmsten og sú fyrsta í 22 ár. Bókin fjallar um dauðann – og er stórkostleg, sérstök tegund af kímnisorgarblöndu. Snöggþýtt dæmi.

Mér er svo illt
Hversu illt? Á skalanum einn til tíu Hversu illt? Hvers illt er þér núna?
Það er sorgarþjálfinn í Ropsten alla óhelga miðvikudaga fyrir 15 þúsund kall á tímann
Maður tekur leið 55 á lokastoppistöðina Ropsten
Hjarta mitt brestur Mér er svo illt
Sársaukinn situr í heilanum segir sorgarþjálfinn Ekki í hjartanu Sársauki er bara tilfinningin
Hugsaðu um eitthvað annað Andaðu Einbeittu þér að einhverju utan við sjálfa þig Sæstu við ástandið
Manneskjan mín er dauð Ég vil vera dauð
Settu það í orð segir sorgarþjálfinn í Ropsten í Ropsten í Ropsten
Gráttu! Láttu það vaða Talaðu um það og þá líður þér betur
Mér líður verr Ég vil fara heim

Síðasta ljóðabókin, sem ég las bara hálfa af hákynjafræðilegum ástæðum, er Nervsystem, safn af ljóðum ungra danskra skálda í sænskri þýðingu. Strákarnir bíða fram í október – en ég las ljóð eftir Maju Lee Langvad (sem ég hef þýtt og þekki vel og dýrka), Amalie Smith, Julie Steen Knudsen, Louise Juhl Dalsgaard, Asta Olivia Nordenhof og Olgu Ravn. Við fyrsta lestur hreifst ég mest af Knudsen og Nordenhof en ég held að það geti líka verið vegna þess að þær séu aðgengilegastar við fyrstu sýn. Ég er að spá í að redda mér eitthvað af þessum ljóðum á upprunamálinu og þýða og læt því vera að birta nein dæmi núna.

Svo las ég líka Ljósmóðurina eftir Kötju Kettu frá Finnlandi – sem ég á að skrifa um fyrir TMM og kemur út í haust. Eða ég á að skrifa um Kötju, sem er að koma á bókmenntahátíð (hvar ég verð líklega fjarri góðu gamni sjálfur). Ég hugsa að ég segi þess vegna sem minnst um bókina núna, nema að tungumálið sem hún er skrifuð á er ótrúlega magnað og þýðing Sigga Karls er brjálæðislega góð, einhver besta þýðing sem ég hef lesið lengi.

Hér er skýrsla fyrir fyrsta mánuðinn og hér fyrir annan.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png