Untitled

17. mars, 2017

Ég er hættur við megnið af áramótaheitunum mínum. Það er líka alltílagi. Ég stóð mig svo vel í áramótaheitunum í fyrra.

Það er hugsanlegt að ég komist á skíði á morgun. Í sjálfu sér gæti ég sennilega farið í dag líka, en það yrði stress og ég nenni ekki stressi – eða nenni ekki meira stressi. Er að gefa út ljóðabók í næsta mánuði, þýða leikrit, skrifa skáldsögu sem er líka leikrit, ritstýra Starafugli (og skrifa tvo dóma fyrir hann) og yrkja ljóð fyrir Pétur vin minn, sem er fertugur á morgun. Mig sakar minna að ég sleppi því að vinna á laugardegi – og fari á skíði – en að ég láti einhvern annan um kvöldmatinn í dag og fari á skíði. Sem ég gæti auðvitað gert. Nadja myndi sýna því talsverðan skilning, enda hefur hún getað verið á sínum skíðum (göngu) í marga mánuði, en ég ekkert komist á mín (svig).

Fiskars er í fullum gangi. Fiskimars. Í gær eldaði ég gufusoðinn steinbít í jurtasósu – ég fann þá uppskrift í tælenskri matreiðslubók á finnsku. Ég kann ekki finnsku nema rétt svo til að lesa matreiðslubækur. Kann bara rétt nógu mikið til að stauta mig í gegnum uppskrift. Og þessi sósa – kóríander, basilika, graslaukur, skalottulaukur í kraft- sjerrí- og smjörbaði – er fyrir löngu orðinn heimilisklassíker. Í dag mætast tvær hefðir í annað sinn – fiskars og pizzaföstudagur – og stefnir í eina sardínupizzu og eina sem er innbakaður plokkfiskhálfmáni. Ég er að reyna að gera upp við mig hvort ég nenni að gera bernessósu. Skrítið hvernig maður nennir sumu og öðru ekki. Ég skil til dæmis ekki allt það fólk sem nennir ekki að gera botn í pæ – svona beisik smjördeig – þótt ég átti mig á því að svona ofurfínt smjördeig einsog t.d. í croissant geti verið meira vesen en maður nennir. Ég hef gert það tvisvar og það var ekki vesensins virði. Sennilega verður það ekki vesensins virði fyrren maður er orðinn verulega góður í því. Ég á vinkonu sem er lærður croissantbakari og hennar smjörhorn eru engu lík.

Mér finnst einsog ég sé aldrei búinn að drekka nóg kaffi. Kannast lesendur við þetta?

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png