top of page

Untitled

19 dagar í útgáfu

Sennilega birtist fyrsta ljóðið sem ég skrifaði í Óratorrek á Facebook og sennilega – ég man aldrei neitt – byrjaði það sem langur status og það var áreiðanlega annað hvort „Ljóð um dóttur mína“ eða „Ljóð um hörmungar“ eða „Ljóð um fyrirgefninguna“. Ég datt niður á einhvern talanda – einhverja leið til þess að tjá mig í setningum sem í senn héngu saman og leystust í sundur – og textinn kom allur á til þess að gera óþvingaðan hátt, sem mér fannst líka skipta máli, þessi ljóð eru ekki skurðaðgerðir heldur snjóflóð.

Allen Ginsberg sagði að ljóðlistin væri listin að „grípa sjálfan sig við að hugsa“ – að „taka eftir því sem maður tekur eftir“ – og líklega reyndi ég að fara þveröfuga leið, að hætta að taka eftir og gera rantið að ljóðrænu verkfæri, gera síbyljuna – tungumálið einsog það birtist mér – að efnivið í einhvers konar retóríska/ljóðræna skúlptúra. Ég hef áður unnið talsvert með fundna texta – sérstaklega í Blandarabröndurum og Fönixnum – en í Óratorreki er eiginlega frekar að ég reyni að herma eftir tungumálinu en að ég steli því og rímixi. Fundni textinn í Óratorreki er tungumálið allt.

Flest ljóðin í bókinni eiga sér eitthvert tiltekið tilefni eða þema sem þjónar einsog akkeri fyrir ljóðin til að hringsóla (eða reykspóla) í kringum. Þarna er ljóð um Evrópukeppnina í knattspyrnu, ljóð um hryðjuverkaógnina, ljóð sem var ort fyrir sýningu í Norræna vatnslitasafninu í Skärhamn og annað sem ort var fyrir sýningu í Gallerí Úthverfu á Ísafirði, það eru ljóð sem voru ort sem fyrirlestrar um bókmenntir, ljóð um ástandið á Gaza og ljóð um ástina, ort á brúðkaupsafmæli mínu og Nödju. Öll í sama bragarhætti. Og sennilega hefur ríflegur helmingur þeirra nú þegar birst einhvers staðar – mörg reyndar á öðrum tungumálum – og enn von á mörgum.

natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page