top of page

Untitled

Ég er á Hressó. Hér er skítugt og sjúskað, það er vond lykt á klósettinu og setan er brotin, kaffið bragðast einsog rafgeymasýra, tónlistin er ólýsanlega slæmur teknóviðbjóður og kúnnahópurinn samanstendur af sundurleitum utangarðsmönnum. Ég kann voða vel við þetta. Einsog BSÍ. Hér líður mér einsog ég sé enn í raunveruleikanum.

***

Ég veit ekki hvers vegna ég er svona lítið gefinn fyrir fágun og fullkomnun, en það er samt staðreynd. Það hefur ekki bara með gentrifieringu að gera eða veitingastaði – ég kann heldur ekki við bókmenntir sem eru „of vel“ skrifaðar. Eða bíómyndir, sjónvarpsþætti, tónlist, málverk eða aðra myndlist, greinar, fólk o.s.frv. Og það hefur að gera, einsog ég segi, með einhverja óraunveruleikatilfinningu. Einsog það sé lygi ef það er ekki pissufýla á klósettum. Auðvitað veit ég að þetta er ekki rökrétt. Sennilega er betra ef það er hreint og fínt – sennilega er gentrifiering bara framfarir. En það breytir ekki upplifun minni.

***

Ég vil ekki bara að textinn sé skítugur – stíllinn hlaupi út undan sér – að mér finnist ég vera staddur í tilraun eða tilgátu sem ekki er víst hvort gangi upp, að við séum að hugsa saman, ég og höfundurinn – heldur vil ég að frásögnin brjóti á sjálfri sér, sé ósamkvæm og að einhverju leyti óskýr, það séu ekki allir endar hnýttir. Það geti allt gerst, framvindan sé ekki bara einsog að telja einn, tveir, þrír. Og ég vil alls ekki ná utan um allt eða hafa skýra hugmynd um það eftir á hvað sagan var „um“. Ég vil að hún veki forvitni mína og sæði hennar spíri í höfði mér, hjarta mér, útlimum, einsog eirðarleysi.

***

Ég get notið fullkomnunarinnar sem túristi. Í augnablik og augnablik. Get stigið inn í Bláa lónið – eða út í það, réttara sagt – og fundist það skemmtilegt, eða allavega fyndið. En það þarf að vera skýr útleið. Og mér þarf að finnast ég gestur, utanaðkomandi, aðskotahlutur, að ég renni ekki saman við umhverfið.

***

Ég fann fyrst fyrir þessari tilfinningu á Söder Malm í Stokkhólmi árið 2007. Á Medborgarplatsen. Þar voru allir svo fallegir og ungir og heilbrigðir, enginn sjúskaður eða reykingamaður, allir bara eitthvað að drekka soja latté. Í góðu formi með vel snyrt skegg. Ég man líka þegar ég fór inn í verslunarmiðstöðina og gekk inn á grænmetisbar þar sem var fallegasta grænmeti sem ég hef séð. Það var svona rakatæki sem úðaði vatni yfir grænmetið – eða vatnsgufu. Og ég hugsaði að sennilega hefði þetta grænmeti það betra en flest fólk í heiminum.

***

Svona staðir – sérstaklega stærri borgir – verða líka svo fljótt að einhverju húsnæðismarkaðarhelvíti. Stokkhólmur, New York, Reykjavík, Helsinki – ótrúlega stór hluti allra samræðna í þessum borgum snúast um það hvernig fólk býr, hvað það borgi, og hvort það sé eitthvað að losna. Þangað hópast listamenn í þeirri trú að þar sé best að skapa – í leit að einhvers konar félagslegu samhengi fyrir list sína – en enda svo flestir á að vinna 60 tíma á viku við eitthvað kjaftæði til þess að hafa efni á leigunni. Og gastrópöbbunum. Sushiinu. Craftbjórunum.

***

En svo fíla ég mannfélagið. Ég fíla hús og byggingar. Virkjanir og álver og uppistöðulón þykja mér ekki ljót í sjálfu sér (sem þýðir ekki endilega að ég sé hlynntur þeim). Mér finnst meira að segja umferðin geta verið glæsileg (þótt hún sé sjaldan nógu vel heppnuð; alla jafna of mikill glundroði). Áðan var ég að ganga í gegnum Hljómskálagarðinn þegar það flaug flugvél beint yfir hausinn á mér og ég hugsaði að þetta þætti mér ótrúlega magnað. Beinlínis töff. Mikilfenglegt. Sennilega hefur það líka með afstöðu mína til flugvallarins að gera. Þá staðreynd að ég nota hann. Og kannski að í átökunum milli borgar og landsbyggðar sé flugvöllurinn táknrænt mikilvægur sem eini vettvangurinn þar sem landsbyggðin beinlínis hefur vinninginn. Hvort hann er síðan sjálfur praktískt mikilvægur eða nauðsynlegur er ég ekkert alltof viss um. En ég er sem sagt dálítill gamaldags fútúristi innst inni.

***

Ekki alltaf samt. Stundum er ég líka náttúrudýrkandi. Það vex með aldrinum. Ég stend mig oftar og oftar að því að dást að landinu. Það gerði ég aldrei þegar ég var yngri. Þegar ég var tvítugur hefði það þess vegna getað verið ósýnilegt. Ég hefði aldrei gefið mér eina mínútu til að dást að fjalli. Nú dáist ég oft að fjöllum. Og verksmiðjum. Eldiskvíum. Skuttogurum. Trillum. Túnum. Trjám. Mér finnst meira að segja illa malbikaða gatan mín svolítið falleg, með öllum sínum holum og uppfyllingum.

***

Ég er sem sagt kominn til Reykjavíkur. Ég á enn eftir að finna út úr því hvernig ég kemst frá Lillehammer til Parísar. Hugsanlega fer bróðurparturinn af launum ferðarinnar í að leysa þetta mál. O jæja.

natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page