Untitled

Ég hef mínar efasemdir um Costco. Bara svo það sé fært til bókar.

***

Ég gleymdi að birta færslu gærdagsins. Ég skrifaði hana bara og ýti aldrei á birta. Hún var ópóstuð þar til áðan. Þar er úreldum staðreyndum lýst. Ég mun eiga auðveldari ferð til Parísar fyrir úrræðagæsku og almenna gæsku forlagsins míns, Editions Metailie.

***

Gerði jóga aftur í dag. Gærdagurinn var annars ágætur. Við sátum í okkar bókmenntasalon, ég, Birger, Amalie, Dy og Ida og ræddum texta Idu og Amalie. Í dag erum við Dy á dagskrá. Birger stýrir umræðum og prógrami og fær engan lestur, þrátt fyrir að vera fyrsta flokks höfundur.

***

Fyrir mína parta eru það Ljóð um fátækt og Ljóð um sýnileika úr Óratorreki sem eru á dagskrá. Svo les ég líka það fyrrnefnda á opnu prógrami í dag. Ég taldi það annars saman í gær og nú eru ljóð úr Óratorreki til á ellefu tungumálum. Og hafa sennilega birst í um það bil 20-25 bókmenntatímaritum og safnritum. Alveg án þess að ég færi í neina herferð með það, vel að merkja, þetta bara æxlaðist svona. En þetta er auðvitað lengri tími en þessi mánuður frá því bókin kom út – þessi ljóð hafa verið á sveimi síðustu fjögur árin eða svo.

***

Noregur er einsog hann á að sér að vera. Auðugur og það verða allir mjög vandræðalegir ef maður nefnir það.

***

Hér eru annars a.m.k. fjórir aðrir íslenskir karlmenn. Við Sjón vorum samferða hingað, einsog áður segir (og Ása með honum). Ég rakst í gær á Halldór Guðmundsson, landráðamanninn sem nú ætlar að stýra norðmönnum til sigurs í heimsbókmenntunum – Anti-Lars, kalla ég hann. Ég sé á Facebook að Sigurður Fáfnisbani Ólafsson, bókmenntagúrú og verkefnastjóri Norræna hússins, er á svæðinu – hann fór út að hlaupa í morgun. Og svo er Arnar Már Arngrímsson, höfundur Sölvasögu unglings og handhafi barna- og unglingabókmenntaverðlauna norðurlandaráðs, á dagskránni, svo hann hlýtur að vera hér einhvers staðar líka. Ekki þar fyrir að það er einhver pest að ganga – það vantar þrjá í bókmenntasalonið okkar. Kannski er hann bara lasinn.

***

Vegna þessara veikinda byrjum við seint í dag. Sváfum út. Klukkan er að verða ellefu í skandinavistan.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png