Untitled

CDG – sennilega leiðinlegasti flugvöllur á jarðríki.

***

Það var klukkutími áður en lestin kom til Parísar að tilkynnt var í hátalarakerfinu að röðin á barinn væri uppurinn, sem og reyndar áfengið. En, ef einhvern langaði sem sagt í kók og twix, þá væri tilvalið tækifæri.

***

Við tókum Uber frá lestarstöðinni niður á Hotel Bonaparte. Það var fyrsti Uberinn minn og ég hugsa að ég leitist a.m.k. ekki sjálfur eftir að fara aftur með Uber, einfaldlega vegna þess að stéttarfélög leigubílstjóra hafa sett sig upp á móti Uber, og maður á að hlusta á stéttarfélög. Að minnsta kosti ef maður ætlar ekki að kynna sér málin djúpt og innilega, sem stendur ekki til.

***

Á Hotel Bonaparte hef ég hins vegar verið oft. Sá sem var á vaktinni í gær var mér ókunnugur en í morgun var mér heilsað einsog gömlum vini. Þetta er lítið hótel, óttaleg hola finnst sumum, en ég kann voða vel við mig þarna og staðsetningin er frábær – alveg við hliðina á Eglise Saint Sulpice og Lúxemburgargarðinum.

***

Eftir morgunmat fékk ég mér kaffisopa með vinkonu minni, Marie Fabre, sem er ljóðskáld og bókmenntafræðingur frá Lyon. Hún er í borginni til þess að taka þátt í ljóðabókamessunni, sem hefst á fimmtudag. Við dæstum saman yfir stjórnmálaástandinu og hún tók undir þá hugmynd sem ég hef heyrt annars staðar að stærsta hættan við Macron sé að nýfrjálshyggjan – einkavæðing, niðurskurður, o.s.frv. – kyndi undir óöryggi, óánægju, ójöfnuð og verði til þess að innlendu smælingjastéttirnar sýni erlendum smælingjastéttum meiri fyrirlitningu, því þegar keppt er um leifarnar á botni auðvaldssamfélagsins ríkir einfalt frumskógarlögmál.

***

Þannig skiptir frjálslyndi Macrons litlu sem engu máli – ekki frekar en frjálslyndi Obama eða Trudeau – því það er fyrst og fremst hugmyndafræðilegt punt. Jafnrétti fyrir þá sem eiga fyrir því.

***

Ég sá fyrir nokkrum mánuðum mynd sem lýsir þessu ágætlega. Hún var af klósettdyrum þar sem stóð:

This toilet is for all people, regardless of gender. 

Og þar fyrir neðan:

Paying customers only. 

***

Sá sem á ekki fyrir kaffibolla – eða hundraðkall fyrir klósettafnotin – pissar á endanum bara úti. Og þegar hann hefur pissað nógu oft úti er ekki ósennilegt að hann pissi hreinlega á dyrnar í stjórnarráðinu. Kannski þegar hann er búinn að spara sér nægan pening á því að pissa úti til þess að geta keypt sér nokkra bjóra.

***

Þetta er ekki gagnrýni á frjálslyndi eða mikilvægi frjálslyndis – það er einn fótleggur allra réttlátra stjórnmálaskepna. Heldur á takmarkanir eintóms frjálslyndis. Maður hleypur ekki langt á einum fæti.

***

Jöfnuður er lykilorðið. Það er sturlað að lifa í samfélagi þar sem við kvörtum varla undan ójöfnuði – og gerum það samt bara í hálfum hljóðum – fyrren hann er orðinn þúsundfaldur. Hvers vegna er ekki tvöfaldur launamunur miklu meiri skandall? Hann er miklu algengari. Eða þrefaldur, fjórfaldur og fimmfaldur. Það er alltof mikið vald fólgið í efnahagslegum kringumstæðum manns til þess að fimmfaldur launamunur sé eitthvað annað en sturlun. Og samt sitjum við föst í að rífast yfir því að atkvæði Vestfirðinga í alþingiskosningum sé veigameira en atkvæði Vesturbæinga og konur séu með 10% lægri laun en karlar, sem er hvorutveggja tittlingaskítur.

***

Hér mætti benda á að efnahagslegt vald Vestfirðinga er talsvert minna en Vesturbæinga og launamunur kynjanna er að miklu meira leyti bundinn í launamun stéttanna en launamun innan stéttanna. „Konur“ sem hópur eru með miklu minna en 90% af tekjum karlmanna vegna þess að kvennastéttir eru ekki metnar að verðleikum – sem gengur upp vegna þess að við leyfum „markaðnum“ að ákveða að leikskólakennarastörf séu ómerkilegri en iðnaðarmannastörf.

***

En jæja. Ég þarf að kíkja í búðina hérna.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png