Untitled

Ég skrifa eiginlega aldrei neitt í subject-línur í tölvupósti. Ég held að mér finnist það tilgerðarlegt. Eins undarlega og það hljómar.

***

Theresa May segir að mannréttindi megi ekki vera nein hindrun í því að grípa hryðjuverkamenn. Því þeir drepa fólk. Ég velti því fyrir mér hvort þetta sé þá þumalputtaregla. Standi nógu mörgum – tugum ef ekki hundruðum á ári – lífshættuleg ógn af einhverju tilteknu þá verði mannréttindalöggjöfinni kippt úr sambandi.

***

Það gæti þá til dæmis verið umferðin. Hraðakstur drepur langtum fleiri en hryðjuverkamenn og hann er ekki heldur náttúrufyrirbæri – hann er viljaverk. Lífstíðarfangelsi fyrir ofsaakstur?

***

Um fimm þúsund manns drepast árlega í Evrópu úr matareitrun. Börn eru sérstaklega viðkvæm, sem og aldraðir, öryrkjar, fátækir og svo framvegis. Vorir minnstu bræður. Og systur. Við gætum til dæmis tekið upp á því að höggva hendurnar af þeim sem starfa í matvælaiðnaði og gleyma að þvo sér. Eða sleppa því að þvo sér. Skorið á rætur vandans, svo að segja.

***

Morðtíðnin í Evrópu er 3 morð á hverja 100 þúsund íbúa. Ef við miðum við að í Evrópu séu 740 milljónir manns, sem ku láta nærri lagi, eru þá 22.200 manns myrtir í Evrópu árlega. Það þykir að vísu mjög lágt. En af hverju er enginn að gera neitt í þessu? Hvers vegna látum við aumlega mannréttindalöggjöf hindra okkur í að rannsaka og koma í veg fyrir öll þessi morð? Af hverju gefum við ekki lögreglunni óhindraðan aðgang að öllum persónuupplýsingum og leyfum þeim að handtaka alla sem þykja líklegir um hið minnsta ofbeldi? Fæstir morðingjar eru að meiða fólk í fyrsta skipti. Margir þeirra hafa barið konuna sína svo árum skiptir …

***

Það er ekkert erfitt að skrifa. En stundum er erfitt að byrja að skrifa. Og maður vill ekki þvinga sig til að skrifa – það skilar ekki góðum árangri. En stundum er maður líka of eftirlátssamur við sjálfan sig í dundinu sem leiðir að skrifunum.

***

En ég er kominn í vinnuna. Kominn á skrifstofuna. Og tími til kominn að koma sér að verki.

***

Bis später.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png