top of page

Untitled

Jussi Halla-aho varð formaður Sannra Finna á helginni. Þetta las ég í blaðinu þegar ég vaknaði. Sannir Finnar eru svolítið spes flokkur á rófi rasíska hægrisins, að því leytinu til að hann samanstendur eiginlega fyrst og fremst af alls kyns himpigimpum frekar en að flokkurinn sé myndaður um sterka hugmyndafræðilega miðju. Timo Soini, fráfarandi formaður, var sennilega þeirra langskárstur. Og svo voru þetta furðufuglar af öllum mögulegum tegundum.

***

Jussi Halla-aho er hitlerískastur Sannra Finna. Og kannski hitlerískastur allra öfgahægrimanna í vestur Evrópu – maður gæti þurft að fara alla leið til Ungverjalands, þar sem frambjóðendur tala fjálglega í ræðum um að gyðingar hafi lítil eistu, til að finna verra dæmi. Jussi er auðvitað með islam á heilanum, en lætur ekki staðar numið við að „gagnrýna trúarbrögð“, einsog það er kallað, heldur hefur gert því skóna að hugsanlega séu Sómalir – sem eru fjórði stærsti innflytjendahópurinn í Finnlandi, á eftir Svíum, Rússum og Eistum – þjófar og ofbeldismenn af erfðafræðilegum ástæðum. Og svo framvegis.

***

Ég sé svo eftir því að hafa ekki tekið mynd af auglýsingaspjöldum kandídats míns heimasvæðis 2011 – Perus-Jussi (ekki sami og Jussi formaður). Ég reiknaði sennilega ekki með að það væri ekki hægt að gúgla þeim nokkrum árum síðar. Þar var hann – gráhærður herramaður um sextugt með þykkt og mikið yfirvaraskegg, dálítið hokinn – í svörtum jakkafötum, vaðstígvélum og með exi. Slagorðið var „ajatuksin, sanoin ja teoin“. Í hugsun, orði og borði.

***

Ég virðist hafa tekið mynd. Og sent Lomma. Fann þetta loks í innboxinu mínu.

***

***

Fyrir neðan stendur: Á vegum norður-Finna. Og þetta er jesúsfiskurinn við fætur hans. Perus-Jussi er sannkristinn og bloggaði mikið um alls kyns talnakenningar sem hann kokkaði upp úr biblíunni – hélt því meðal annars fram að hluti Finna væri týndur ættstofn Ísraelsmanna.

***

Ég er ótrúlega glaður að hafa fundið þessa mynd. Perus-Jussi er eitt af þessum fyrirbærum sem var svo klikkað að ég trúði því varla að það væri satt þegar ég var að lýsa honum. Þessar kosningar eru vel að merkja þegar ég er á kafi að skrifa Illsku. Og þá fæ ég líka reglulega póst í póstkassann minn frá nasistasamtökunum Suomen Vastarintanliike – sem hefur nú numið land á Íslandi undir heitinu Norðurvígi. Þeir drápu mann í köldu blóði í miðbæ Helsinki í fyrra.

***

Sá hafði gengið framhjá mótmælum SVL gegn innflytjendum og ákveðið að nýta rétt sinn til málfrelsis og segja þeim nákvæmlega hvað honum fannst um stjórnmálaskoðanir þeirra. Einsog nasistar eru nú oft uppteknir af eigin málfrelsi þá eru þeir voða lítið gefnir fyrir að fólk sé þeim ósammála (og mjög viðkvæmir fyrir að láta uppnefna sig). Þeir borðu manninn í hakk, tóku það upp á myndband og póstuðu því á internetið með textanum: „Æsingamaður mótmælir „rasisma“ og gerir sig að fífli“. Undir var „aðgerðinni“ lýst sem „ögun“ – sem og í netútvarpi SVL, Radio 204 (20.4. er afmælisdagur Hitlers, einsog leikhúsgestir Illsku þann dag gleyma seint).

***

Það verður að vera agi, einsog maðurinn sagði.

***

Hann dó svo af barsmíðunum og myndbandið var fjarlægt af internetinu með tangri og tetri.

***

En Jussi Halla-aho er ekki beinlínis himpigimpi. Hann á meira skylt við SVL en Perus-Jussa, nafna sinn, þótt hann mætti auðvitað aldrei sverja þeim neina eiða – ekki sem stendur. Hann er í Suomen Sisu, sem er siðlegri félagsskapur af sama meiði, og hugmyndafræðingurinn á bakvið allan rasismann í Sönnum Finnum. Hann hefur verið dæmdur fyrir rasísk ummæli sín um múslima og Sómali og verið vikið tímabundið úr eigin flokki fyrir að halda því fram að það sem Grikkir þyrftu á að halda, til að komast út úr efnahagsvandræðum sínum, væri valdarán hersins – junta – sem gæti rutt mótmælendum og verkfallsmönnum úr vegi með skriðdrekum. Þá var hann þingmaður – skömmu síðar fór hann í Evrópuráðið og var svo kosinn á Evrópuþingið.

***

Þegar ég segi að hann sé ekki himpigimpi á ég meðal annars við að hann sé ekki beinlínis heimskur. Vondur, já; en þetta er einbeitt illska af yfirlögðu ráði.

***

Það versta sem gæti gerst núna er að ríkisstjórnin ákveði að halda sínu striki. Það var haldinn neyðarfundur í morgun og formenn Miðflokksins og Þjóðarbandalagsins hafa látið hafa eftir sér að þetta gangi ekki – það sé ekki hægt að sitja í ríkisstjórn með Jussi. En svo er eftir að sjá hvað dagurinn ber í skauti sér. Það verður haldinn blaðamannafundur klukkan 17 að finnskum tíma – 14 að íslenskum. Valmöguleikarnir eru þrír 1) Ríkisstjórnin stendur – sem er ósennilegast 2) Nýjar kosningar – sem er næst ósennilegast og 3) Nýr meirihluti með einhverjum öðrum. Sem er kannski líka ósennilegt.

***

Við bíðum spennt.

natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page