Untitled

Það eru þrjár kirkjur á Ísafirði. Ísafjarðarkirkja, Salem og Kapella Jóhannesar guðspjallamanns, í daglegu tali nefnd Kaþólska kirkjan. Að auki hafa bahá’iar, búddistar og Vottar Jehóva verið með nokkra starfsemi í bæjarfélaginu – ég veit reyndar ekki alveg hverjir eru starfandi í augnablikinu. Ríflega 11% íbúa eru með erlent ríkisfang, samanborið við 9% á höfuðborgarsvæðinu, og enn fleiri eiga rætur að rekja hingað og þangað um heiminn. Þessir 3.620 íbúar eru með 34 ólík ríkisföng. Hér er kvikmyndahús sem er með á bilinu 5-9 sýningar í viku – sennilega er meðaltalið rétt undir ein á dag en stundum eru þrjár á sunnudögum. Átta veitingastaðir, þar af tveir tælenskir og einn portúgalskur – einn þeirra, Tjöruhúsið, er meðal frægustu veitingahúsa landsins. Tveir þeirra eru djammbarir um helgar og þrír eða fjórir þeirra eru kaffihús (Hamraborg telst varla með, en eru með alla aðstöðu). Auk þess er Vagninn á Flateyri og Talisman á Suðureyri. Tvö fyrirtaks bakarí, sem bæði eru kaffihús (og á mörkum þess að vera veitingahús líka) – mörgum finnst þeir ekki hafa komið til Ísafjarðar nema þeir fái sér snúð eða kringlu í Gamla. Tvær fréttastofur – Bæjarins besta og RÚV. Menntaskóli (með listabraut), Háskólasetur, Fræðslumiðstöð og slangur af grunn- og leikskólum. Meira að segja einn Hjallastefnuleikskóli fyrir bóbóin.  Í miðbænum er talsvert um sjálfstætt starfandi fólk í skapandi geiranum – hér í skrifstofubælinu mínu er myndlistarmaður, kvikmyndagerðarfyrirtæki, arkitekt og skrifstofa fyrir listamannaresidensíuna sem er á efri hæðinni og hefur nýverið tekið yfir stórt hús uppi á Seljalandsvegi. Hér uppi eru yfirleitt 1-2 listamenn, oftast erlendir, og plássin umsetin langt fram í tímann. Sumir myndlistarmannanna sýna í Gallerí Úthverfu – aðrir halda listamannaspjall og segja frá verkum sínum. Neðar í götunni er skraddari – alvöru gamaldags skraddari með slíkan eðalvarning að ég þori varla að kíkja þangað inn – hinumegin við götuna er systir mín og vinkona hennar með Klæðakot, sem framleiðir meðal annars Dórukotsvarning einsog álfahúfurnar. Við Silfurtorg er annað skrifstofubæli – þar eru a.m.k. einn arkitekt og hirðljósmyndari bæjarins. Í gömlu skóbúðinni er Gamla skóbúðin – hálfgert mannfræðisafn. Í bæjarfélaginu öllu, sem telur líka Suðureyri, Flateyri og Þingeyri, eru fjórar sundlaugar og jafn mörg íþróttahús. Það er skíðasvæði á heimsklassa – fyrir gönguskíði og svigskíði. Sennilega er leitun að betra stæði fyrir kajakróður. Stutt að fara út í sturlaða náttúru – Hornstrandir eru eitt, en svo eru Galtarviti, Skálavík, Bolafjall, Dynjandi og svo mætti bókstaflega mjög, mjög lengi telja. Eitt fallegasta bókasafn landsins stendur á Eyrartúni og er auk þess skjalasafn, ljósmyndasafn og listasafn. Í Neðstakaupstað er Byggðasafnið – þar sem ný sýning um Karitas Skarphéðinsdóttur opnar 19. júní næstkomandi – á Flateyri er Brúðusafn, Dellusafn og Verzlunin Bræðurnir Eyjólfsson (sem er safn og bókabúð). Tvær líkamsræktarstöðvar á Ísafirði sjálfum – veit ekki með hina kjarnana. Í Edinborg er rekin menningarmiðstöð og listaskóli. Tónlistarskóli Ísafjarðar er við Austurveg og við hann tónleikasalurinn Hamrar. Hér er gríðarmikill túrismi, ekki síst í kringum alls kyns svaðilfarir á skútum og skíðum, fyrir utan skemmtiferðaskipin sem hrúgast hér hvert ofan í annað sumarið á enda. Elfar Logi rekur sitt einleikhús – og í fyrra var líka stofnuð ópera, einskonuópera. Þá eru ónefndar enn listahátíðirnar – LÚR, Act Alone, Aldrei fór ég suður. Á Flateyri hefur verið haldin bókmenntahátíð og þar til fyrir ekki svo löngu síðan var hér haldin mjög flott djass- og klassísk tónlistarhátíð, Við Djúpið. Ég veit ekki hvers vegna hún lognaðist út af. Körfuboltinn er í miklum gangi, það er líf og fjör í kringum fótboltann og á hverju sumri fyllist bærinn af Mýrarboltafólki – ég veit reyndar ekki hvort það telst til menningar eða íþrótta. Skíðavikan er á páskum og á vorin fyllist bærinn af skíðagöngufólki frá víðri veröld sem tekur þátt í Fossavatnsgöngunni. 

Ég fæ alltaf vont fyrir brjóstið þegar fólk endurtekur klisjuna um að í „dreifbýlinu“ ríki fábreytnin og að fólk fari til höfuðborgarsvæðisins í leit að einhverju ægilegu andlegu ríkidæmi, kaffihúsum og tónleikum og bíóum og menningarafkimum sem hvergi þrífist annars vegar. Vegna þess að dreifbýlið „hafi ekki upp á neitt að bjóða“. Sennilega er til fullt af litlum bæjarfélögum þar sem fábreytnin ríkir – rétt einsog margar stórar borgir eru ekki annað en pakkhús úr steypu. En það er langt í frá einhver regla. Ísafjörður er vel að merkja langt í frá einhver paradís og hér er ýmislegt sem hemur mann – til dæmis fjarlægðin frá alþjóðaflugvellinum, stóru leikhúsunum og tónleikahúsunum. Og svo er nálægðin við fólk alveg dálítið þrúgandi stundum – að vera aldrei anonym úti á götu.

En það er furðulegt að þurfa alltaf að vera í þessari fáránlegu vörn fyrir samfélagið sitt. Að lesa um það óhróður sem er settur fram á svo sjálfsagðan máta að maður fær það á tilfinningu að höfundurinn hafi ekki einu sinni yppt öxlum yfir setningunni – ekki frekar en hefði hann lýst rigningu sem blautri.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png